Örvitinn

Innidagur

Húsþak
Rennblautur snjórinn hlussaðist fram af þakinu og framfyrir húsið.
Ég fór ekki út úr húsi í dag, fyrir utan rölt framfyrir hús til að taka mynd af þakinu. Það voru dálítil læti í snjónum sem skreið fram af þakinu.

Fréttir dagsins ekki óvæntar en leiðinlegar, stífara samgöngubann og þar með búið að loka m.a. líkamsræktarstöðvum, fólki sem stundar slíkar stöðvar aldrei til mikillar gleði. Það var svosem ljóst að þetta myndi gerast, því miður voru margir ekki að höndla þetta eins og ég hef nefnt síðustu daga. Ég hefði mátt vera búinn að koma mér upp einhverri aðstöðu í bílskúrnum fyrir löngu en þar sem það er stutt að rölta í ræktina, bæði hér heima og úr vinnunni, hefur mér þótt það óþarfi. Stefni á að skjótast í bústað á þriðjudag, ef veður leyfir, og sækja handlóðasettið sem ég á þar. Við erum með hlaupabretti og "elliptical" í sjónvarpsstofuni og svo þarf ég bara að stúdera ýmsar styrktaræfingar með eigin líkamsþyngd næstu vikur.

Hvað hef ég gert í dag? Tja, leyst súdókur (illa), spilað tölvuleik (illa) og lagt mig (frekar illa). Fylgdist svo með fréttamannafundi dagsins, þar sem fréttamenn virtust ekki hafa hlustað á nokkuð sem sagt var á þessum fundi eða öðrum, og þvaðrinu á Twitter. Veðrið er búið að vera hundleiðinlegt.

Salvíukjúklingurinn er að verða tilbúinn. Á morgun verða afgangar og ég er að spá í að taka saltfisk úr frysti fyrir þriðjudagsmatinn. Ekkert stress auðvitað, það er enn hægt að fara í matvörubúðir, en annars er nóg til af mat hér í Bakkaseli.

Heimavinna hjá allir fjölskyldunni á morgun. Mér finnst eins og nú fyrst sé þetta að verða alvöru einangrun, við lokuð inni.

dagbók
Athugasemdir



ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)