Dagurinn hjá mér og Ingu Maríu
Dagurinn í dag var fyrsti dagurinn í sumarfríinu hjá mér og Ingu Maríu, hún hætti semsagt hjá dagmömmu á föstudaginn og byrjar í leikskóla 19. ágúst.
Við sváfum ansi lengi í morgun, Inga María svaf til hálf níu og við vöktum Kollu rúmlega níu. Fengum okkur morgunmat og tókum því nokkuð rólega.
Röltum á leikskólann hennar Kollu og svo fengum ég og Inga María okkur smá göngutúr til baka, komum við á róló hér fyrir neðan og dunduðum okkur smá.
Inga María borðaði ágætlega í hádeginu, skyr, brauð og mjólk. Eftir mat kíktum við á stubbana og svo var komið að því að fá sér lúr. Inga María var reyndar ekkert á því að sofna, þannig að það var ekki fyrr en rétt rúmlega tvö sem hún sofnaði. Vandamálið var að ég var búinn að lofa tengdó að hitta hann á Arnarnesinu til að hjálpa sendibílstjóra við ísskápaburð.
Ég vakti Ingu Maríu því rétt fyrir þrjú, leyfði henni að kúra á öxlinni á mér í smá stund og fór svo út á nes. Nýi ameríski ískápurinn settur á sinn stað og tveir gamlir jálkar fóru á haugana.
Sóttum Kollu þegar klukkan var að verða hálf fimm og skunduðum heim, Gyða fékk far heim með mömmu sinni.
Þannig var það.