Örvitinn

Kalkúni kominn í hús

pabbi sker kalkúnann síðustu jól

Við verðum heima í fyrsta sinn á aðfangadagskvöld, höfum verið til skiptis hjá foreldrum okkar síðustu jól. Versluðum í jólamatinn í gærkvöldi, fórum fyrst að borða á McDonalds og svo í búðina til mömmu. Keyptum hitt og þetta, kíló af humar í forrétt, fimm kílóa kalkúna í aðalrétt og svo helling af stöffi í fyllinguna. Þetta er ekki stór kalkúni, ég er vanari stærri stykkum eins og þessu sem pabbi er að skera á myndinni hér til hliðar frá síðustu jólum, en við erum bara tvö fullorðin þannig að þetta ætti að duga okkur í nokkrar máltíðir. Þetta var líka stærsti ófrosni kalkúnninn í búðinni og okkur leyst betur á þá heldur en þessa frosnu. Fyllinguna gerum við eftir uppskrift frá fjölskyldu minni, aðferð sem hefur verið að þróast þar síðustu áratugi en ég man ekki eftir að hafa borðað annað en kalkúna með þessari fyllingu á aðfangadagskvöld fyrr en ég kynntist Gyðu, á hennar heimili er líka (sem betur fer) kalkúni á aðfangadag en önnur fylling. Í eftirrétt er hugmyndin að hafa súkkulaði mousse og ís handa stelpunum en það er svosem ekki alveg frágengið. Föttuðum ekki hvað klukkan var orðin margt í gærkvöldi, stelpurnar voru orðnar þreyttar og pirraðar enda vorum við að koma heim um hálf tíu!

Ég mun standa í ströngu við eldamennsku, fyllinguna geri ég á Þorláksmessukvöld, verð eflaust duglegur að hringja í pabba og fá ráð. Það er nú meira klúðrið að hafa aldrei horft yfir öxlina á honum þegar hann hefur staðið í þessu síðustu ár. Þegar ég bjó í foreldrahúsum var ég yfirleitt að vinna á Þorláksmessu og eftir að ég flutti að heiman hefur svosem verið nóg annað að gera. Það er lítið mál að elda kalkúnann sjálfann, maður þarf bara að standa vaktina og ausa yfir hann reglulega. Ég og Gyða vorum búin að gleyma því en við elduðum kalkúna í fyrra til að eiga afganga þrátt fyrir að við værum hjá foreldrum mínum þau jól. Það er alveg yndislegt að vakna á jóladag, hita sósu og borða afganga frá kvöldinu áður.

Við ætlum að hafa ferskt rauðkál steikt upp úr smjöri, hvítlauk og engifer með kalkúnanum. Höfum gert svoleiðis með svínakjöti en aldrei með kalkúna. Það er svo helvíti gott og þar sem við erum heima í fyrsta skipti er tilvalið að gera eitthvað öðruvísi. Annað meðlæti verður hefðbundið, gular baunir, waldorf salat (með engum hnetum!), smágulrætur, brúnaðar kartöflur og jafnvel venjulegt rauðkál úr krukku líka. Grænu baununum ætlum við að sleppa enda ekkert svo hrifin af þeim. Humarinn verður væntanlega klofinn, penslaður með hvítlaukssmjöri og settur undir grillið í smá tíma.

dagbók matur