Örvitinn

Ferðasaga, þriðji hluti - Duran Duran

Þriðji hluti ferðasögunnar hefst seinnipart sunnudags, spannar tvær borgir og segir frá ferð okkar á Duran Duran tónleika. Af stikkorðum koma eftirfarandi við sögu:[scissor sisters, Duran Duran, breezer í 70cl flösku, funny guy, vodki í red bull]

Áður:
Ferðasaga, fyrsti hluti - föstudagur
Ferðasaga, annar hluti - leikurinn

Ég og Stebbi fórum á fætur þegar klukkan var orðin hálf þrjú á sunnudeginum. Ætlunin var ekki að sofa svona lengi og það kom okkur í opna skjöldu hvað klukkan var orðin margt. Við skelltum okkur því í sturtu og fórum á ról.

Við ákváðum að rölta út og reyna að horfa á leik Newcastle og Chelsea á einhverjum bar. Það gekk reyndar frekar brösulega að finna stað, ég átti von á að maður gæti droppað inn á hvaða pöbb sem er og glápt á fótbolta en svo reyndist ekki vera. Við fundum að lokum stað og fengum okkur að éta og horfðum á seinni hálfleikinn. Okkur til mikillar mæðu vann Newcastle. Horfðum svo á byrjunina á leik Arsenal og Tottenham en þurftum að yfirgefa svæðið snemma, sáum Arsenal komast í tvö núll og gerðum ráð fyrir að þeir myndu gjörsigra Tottenham. Leikurinn endaði 2-2.

Planið var sett á að taka minibus til Birmingham klukkan fimm. Hópurinn hittist fyrir framan Hótelið og lagði af stað í ferðalag. Í hópinn bættust tveir aukamenn, bræður sem ég held að tengist bílaáttunni. Davíð leiðréttir mig ef ég fer þar rangt með, annars skiptir það ekki máli og þetta er orðinn óþarflega langur útúrdúr. Þessir gaurar voru Liverpool stuðningsmenn og voru staddir á leiknum eins og við, stóðu í Liverpool stúkunni nokkuð fyrir aftan okkur Stebba. Viðkunnalegir gaurar með litlar þvagblöðrur!

Við vorum semsagt á leiðinni til Birmingham til að fara á tónleika með Duran Duran. Ég er svosem enginn sérstakur aðdáandi en þetta var skemmtilegur útúrdúr í ferðinni.

Ferðin hófst í vínbúð þar sem keyptar voru birgðir. Ég fjárfesti í þrem eða fjórum bjórum og einni 70cl breezer flösku. Afskaplega hentuð stærð á þeim ágæta drykk sem ég drekk reyndar ekki að staðaldri, læt konuna oftast um það. Fékk mér reyndar einn á Hverfisbarnum síðustu helgi en það er vegna þess að ég pantaði vitlausa tegund fyrir Kjartan. Þetta var líka útúrdúr. Síðar kom í ljós að við hefðum átt að kaupa meiri áfengisbirgðir.

Tveimur klukkustundum og þremur pissustoppum síðar vorum við komnir til Birmingham og í tónleikahöllina. Ég og Stebbi fengum fína miða í fremstu sætaröð, fyrir aftan stæðin. Hópurinn splittaðist semsagt upp á tónleikunum, við fengum miða hér og þar í húsinu, sem betur fer enga staka miða heldur tvö eða þrjú sæti saman. Það kom mér gjörsamlega í opna skjöldu að áfengi var selt í höllinni fyrir tónleikana og ekki bara bjór og léttvín heldur einnig vodki í red bull. Ég stóðst það ekki og hefði keypt meira ef ég hefði vitað að áfengissölu lyki um leið og Duran Duran kæmi á svið.

Þegar við komum var eitthvað band að spila, hljómaði svosem ágætlega en maður var ekkert að steinfalla fyrir þessu. Ég rölti meðal annars fram í áfengisleiðangur meðan þau spiluðu. Komumst svo að því síðar að þetta var bandið scissor sisters frá New York sem eru víst að slá í gegn um þessar mundir. Svona er maður alltaf með puttana á púlsinum.

Þau kláruðu sitt prógramm og svo kom góð pása áður en Duran Duran stigu á svið. Það var þá sem ég komst að því að barinn lokaði snemma, ofurölvun var því ekki á dagskrá þetta kvöldið.

Loksins mætti aðalbandið á svið og byrjaði að trylla líðinn. Birmingham er þeirra heimaborg og heimamenn tóku þeim vel. Duran Duran spilaði alla helstu slagarana og einnig nokkur ný lög. Þeir tóku það sérstaklega fram að þeir ætluðu ekki að vera eins og öll hin "comeback" böndin og því væru þeir byrjaðir að hljóðrita ný lög. Ég var nú ekki að falla fyrir þessu nýja efni og nýtti eitt (af þremur) nýja lagi til salernisferðar. Fór samferða fyndna manninum sem heillaði Bretana á klóstinu upp úr skónum með kímni sinni! Nei, hann gerði það ekki.

Eins og ég sagði spilaði Duran alla helstu slagarana en þeir slepptu reyndar einu lagi og að sjálfsögðu erum við að tala um lag vikunnar frá því um daginn, New moon on monday. Ég hélt ég væri búinn að fara í gegnum alla helstu slagarana þeirra en það kom mér eiginlag örlítið á óvart hvað þeir eiga mörg góð lög. Þetta voru semsagt alveg verulega ágætir tónleikar. Davíð var mjög hrifinn af spilamennsku þeirra og vildi meina að þeir hefðu lítið sem ekkert notast við playback eins og flest bönd gera í dag. Höfum hans orð fyrir því.

Jæja, þá var lagt af stað til Manchester. Nú var lítið sem ekkert áfengi í bílnum og reyndu menn að fá bílstjórann til að redda því. Viti menn, það er víst ekki hægt að redda áfengi eftir miðnætti á sunnudegi í Birmingham borgar. Meiri plebbarnir þessir bretar. Þetta gerði það að verkum að stuði fjaraði hægt og rólega út og menn voru þokkalega rólegir í ferðinni nema kannski fyndni maðurinn sem reyndi að stuða sig upp með sykuráti. Davíð hóf heimferðina á heilmiklum og fróðlegum fyrirlestri um Duran Duran sem hefði passað vel í ferðinni á tónleikana. Menn sögðu einhverja brandara og Böðvar Bergs fær prik fyrir skosku lýsinguna. Fyndni maðurinn reyndi líka að segja brandara eftir áeggjan Davíðs en gekk frekar bagalega þrátt fyrir að Dabbi reyndi að hjálpa honum að botna brandarana. Davíð sagði svo nokkrar sögur og fékk að launum komment ferðarinnar, "Davíð, þú ert miklu fyndnari án brúðunnar". Afskaplega þótti mér það skemmtilegt.

Hvað um það, tíðindalítil ferð til baka. Ég og Stebbi ákváðum að fara beint í bælið þar sem við ætluðum að skella okkur til Liverpool borgar og heimsækja Anfield daginn eftir. Stungum því af en aðrir fóru á skrall. Vorum komnir í bælið um eitt, hálf tvö og vorum því svona tíu-ellefu tíma á fótum þennan sunnudag í Manchester borg.

Engar myndir skreyta þennan pistil einfaldlega vegna þess að ég tók engar myndir þennan dag. Upphaflega ætlaði ég að skrifa um tvo síðustu dagana í einum pistli en þegar ég var hálfnaður sá ég að mér hafði á einhvern óskiljanlegan hátt tekist að skrifa heilmikinn texta um óskaplega lítið. Og ennþá skrifa ég...en nú er ég hættur, þar til næst er ég fjalla um lokadaginn.

Síðar:
Manchesterferð, lokahluti - ferðin á Anfield

dagbók
Athugasemdir

Davíð - 05/05/04 22:43 #

Þetta er flott og allt rétt... ekkert þarf að leiðrétta hér.