Örvitinn

Ofvirkir afturfætur

Stundum gengur allt á afturfótunum. Ekki gekk mér að kaupa kanínu á laugardaginn, kálfakjötið var ekki fáanlegt og viti menn, það er ekki hlaupið að því að kaupa kjúklingabringur með skinni í verslunum á höfuðborgarsvæðinu.

Klukkan fimm á laugardag var ég uppskroppa með hugmyndir að seinni rétt. Secundi piatti var því kjúklingabringur, vafðar með baconi, steiktar á pönnu, sósa með hvítlauk, scallot lauk, sveppum, hvítvíni, tómötum, ferskri basiliku, salvíu (fersk var ekki fáanleg) og kjúklingasoði. Tagliatelle soðið og svo blandað saman við sósuna, kjúklingur skorinn í bita og settur ofan á.

Primi piatti var svepparisottó, bara klassík útgáfa af því, eigum helling af þurrkuðum villisveppum. Nýbakað foccia brauð borið fram með.

Anti pasti var borið fram í stofunni, tvær pizzur, ein með parma skinku, hin með pepperoni. Einnig pinnar með kokteil tómötum, mozarella osti og basiliku, hjúpað með öldeigi og djúpsteikt. Súkkulaðikaka og ís í desert. Reyndum að hella Limone í gestina með desert en það gekk eitthvað illa, sú flaska ætlar að endast. Spurning um að ég taki hana með í árshátíð inniboltans sem vonandi verður bráðlega.

Fór á Players á laugardag og horfði á ömurlegan fótboltaleik, djöfuls leiðindi voru það. Bjargaði deginum fótboltalega að inniboltinn var fínn. Slæmu fréttir helgarinnar eru svo þær að Gerrard er meiddur og verður næstum örugglega ekki með á móti Juventus á miðvikudag. Það er vont og það versnar, hvorki Gerrard né Hamann með í Tórínó. Þetta er ótrúlegt ástand.

Gærdagurinn var þokkalegur, fórum í bæinn með stelpurnar, gáfum fuglum við tjörnina og kíktum svo í Iðu og fengum okkur brauð. Mættum snemma í kvöldmat til Jónu Dóru og spiluðum Sequence. Ég og Gyða rústuðum mömmu og Jónu Dóru þó við hefðum aldrei séð þetta spil áður. Ýmsar afsaknir heyrðust, m.a. að það væri mikil byrjendaheppni í gangi. Ég blæs á soddan rugl.

Ég væri alveg til í að eignast svona úr.

dagbók
Athugasemdir

Vésteinn - 11/04/05 20:56 #

Hver fjandinn, þetta er sko glæsilegt úr!