Örvitinn

90% aðferðin til að laga liti í myndum með Photoshop

Alltaf lærir maður eitthvað nýtt. Rakst á vísun á myndband sem kennir 90% aðferðina til að laga liti í myndum með Photoshop. Maður þarf að setja inn póstfang til að geta skoðað myndbandið. Held ég eigi eftir að nota þessa aðferð afar mikið.

Fyrir þá sem ekki nenna að skoða myndbandið, gengur þessi aðferð í stuttu máli út á að velja hvítt og svart svæði á myndinni með Color sampler tólinu (þó ekki alveg hvítt eða alveg svart) og nota svo levels til að jafna litina á þessum svæðum. Þ.e.a.s. maður breytir rauðum, grænum og bláum hverjum fyrir sig í levels þannig að gildin séu jöfn á dökku og björtu svæðunum. Annars er þetta vel útskýrt í myndbandinu.

Hér er smá dæmi, fyrsta tilraunin mín.

Þessi mynd var tekin af mér í Skaftafelli. Færið bendilinn yfir myndina til að sjá hana lagfærða með 90% aðferðinni (auk skerpingar með usm, n.b. myndirnar eru ekki nákvæmlega eins kroppaðar)

Matthías Ásgeirsson

myndir
Athugasemdir

frelsarinn - 09/08/05 15:13 #

Colorpilot og MS digital image suite 2006, ég fæ hausverk þegar ég hugsa um photoshop.

Már - 09/08/05 16:57 #

Hmm... af hverju yfirlýsast útlínurnar á húfunni svona? Myndin eftir breytingu er "skemmd" að því leyti.

Matti - 09/08/05 18:15 #

Mikið rétt, en mér þótti það ekki skipta miklu máli í þessu tilviki - var meira að horfa á litina. Ef grannt er skoðað sést að útlínur húfunnar eru líka yfirlýstar í fyrri myndinni, þó ekki jafn mikið.

Reyndi að bæta svörtum lit í þann hvíta (eins og hann gerir í myndbandinu) en það hafði lítið að segja.

Þess má geta að ef maður tekur myndir á RAW formati er ekki þörf á að nota þessa aðferð þar sem hægt er að laga stilla white balance eftirá í þeim tilvikum. Þetta er því einungis gagnlegt þegar myndir eru teknar á .jpg formi.

Már - 10/08/05 08:59 #

Það er líka hægt að fara aðeins flóknari leið að þessu sama, nýta ColorSampler tólið á sama hátt en nota Curves (Ctrl-M) til að stilla litina í stað Levels.

Með Curves getur maður nebbla "þjappað" ljósu tónunum í hverri rás nálægt að 100% án þess að beinlínis yfirlýsa nein svæði, og á sama hátt þjappað dökku tónunum niður að 0% án þess að tapa fullt af skuggadíteil.

Aðferðirnar sem gaurinn í myndbandinu notar eru á köflum hreinn og beinn Photoshop barbarismi og ruddaskapur. :-)

Matti - 10/08/05 12:01 #

Ég hef ekki enn treyst mér í flóknar aðgerðir með kúrfum, geri stundum einfalda S kúrfu til að lyfta skuggum, en fátt merkilegra. Kúrfur virka svo fráhrindandi :-)