Örvitinn

Á fótum til þrjú í nótt að setja saman tölvu

tölvukassinnÉg fór ekki að sofa fyrr en þrjú í nótt þar sem ég var að setja saman nýja tölvu fyrir Gyðu. Uppfærði stýrikerfi og setti inn öryggisuppfærslur eftir að hafa púslað vélinni saman.

Keypti kassa, móðurborð, gjörva, minni og disk í Tölvulistanum. Var aðeins lengur að setja þetta saman en ég átti von á enda langt síðan ég setti síðast saman tölvu. Þetta gekk allt upp og nýja vélin þrælvirkar. Eina böggið er að það heyrist óeðlilega hátt í litlu viftunni yfir "norðurbrúnni" á móðurborðinu.

Fyrir neðan er listi yfir það sem ég keypti. Setti svo 120MB harða diskinn úr gömlu vélinni og DVD drifið í nýju vélina. Nota áfram skjá, lyklaborð, mús og hátalara. Ræsti upp á gamla disknum og uppfærði stýrikerfið á honum. Það eina sem ég á eftir að gera er að ghosta gamla diskinn yfir á þann nýja og ræsa upp á nýja disknum.

Þetta er þokkaleg vél, helsti kosturinn er að það er auðvelt að uppfæra hana. Eftir tvö ár splæsir maður líklega í dual core AMD64 gjörva, meira minni og betra skjákorti.

Það var erfitt að vakna í morgun.

dagbók græjur