Garðvinna og þessháttar
Erum búin að vinna dálítið í garðinum í dag. Ég klippti hekkið með handklippum, vissulega seinlegra en ef ég hefði leigt rafmagnsklippur en samt ekki svo tímafrekt. Stelpurnar hafa verið ansi duglegar við að týna rusl og taka sér pásur. Þær eru enn á fullu úti, núna skiptast þær á að kasta greinum af svölunum niður í garð fyrir framan hús og þaðan í svartan poka. Dálítið seinleg aðferð en þær hafa gaman að þessu. Fengum okkur kaffitíma í garðinum, sátum þar í sólskini, stelpurnar borðuðu perur og drukku eplasafa.
Á svona dögum pirrar það mig óskaplega þegar nágrannar okkar keyra niður göngustíginn, fullfrískt fólk sem getur ekki labbað 30 metra til að sækja eitthvað heldur þarf að keyra göngustíg þar sem krakkar eru iðulega að leik, stelpurnar hafa t.d. verið að hlaupa nokkra hringi í kringum húsið síðasta klukkutímann. Þetta hefur verið rætt á fundi hjá íbúum en skánar ekkert. Ég hef skilning á þessum akstri þegar fólk er að ferja þunga hluti eða koma heim með marga poka eftir stórinnkaup en það er alger undantekning. Oftast er þetta lið bara að stökkva inn eða að láta skutla sér heim. Veit ekki hvað er hægt að gera fyrst ekki dugar að ræða þetta, spurning um að fara að vera duglegur að reka klippur og hrífur í bílana þegar þeir keyra framhjá eða hleypa lofti úr dekkjum í skjóli nætur.
Jóna Dóra býður til kvöldverðar, stelpurnar voru búnar að panta Disney pasta en það verður þá bara í boði annað kvöld. Ætla að skjótast með þær í Hagkaup og kaupa Bangsímon pasta. Þarf að koma við í byggingavöruverslun og kaupa kúst.
17:40
Jæja, þá er ég hættur þessur garðstússi í dag. Búinn að klippa, raka og sópa eins og óður maður. Fimm svartir ruslapokar bíða þess að borgarstarfsmenn kippi þeim upp. Garðurinn er skárri en hann var, en samt varla sæmilegt ástand á honum. Merkilegt með þetta garðstúss, ég nenni þessu engan vegin en samt er þetta ekkert svo leiðinlegt. Ég held maður hafi óskaplega gott af því að óhreinka aðeins á sér hendurnar, taka sér skóflu í hönd og moka. En samt er gott að þetta er búið í bili.
sirry - 30/04/06 20:55 #
Rosalega ertu búin að vera duglegur í dag :D Hvernig er bansimon pasta ?
Matti - 30/04/06 22:54 #
Hagkaup (veit ekki með aðrar verslanir) selur um þessar mundir pasta sem er merkt Disney. Þetta er þriggja lita pasta (tricolori svo við séum með þetta á ítölskum nótum) þar sem pastað er mótað eftir Disneyfígúrum, bangsímon er bara eitt af því sem hægt er að velja, Kolla valdi eitthvað prinsessupasta. Eflaust er þetta tvöfalt dýrara en venjulegt pasta, ég gáði ekki að verðinu.
Þetta verður í matinn annað kvöld, ég keypti fyllt pasta með spínat og ost handa mér.