Örvitinn

Tvær fréttir af fótbolta í sjónvarpi

Um daginn kom í ljós að Ríkissjónvarpið yfirbauð bæði Skjá1 og Sýn og náði sýningarrétti á EM 2008. Forsvarsmenn einkareknu sjónvarpsstöðvanna voru skiljanlega afar fúlir en mikið var ég feginn. Í raun er það afskaplega undarlegt því hingað til hef ég frekar verið talinn einkavæðingarsinni í hófsamari kantinum, af hverju ætti ég að fagna því að ríkisstofnun yfirbjóði einkaaðila og nái sýningarrétti á knattspyrnumóti?

Tja, það tengist væntanlega því að mér leiðist að láta taka mig í ósmurt. Ég treysti hvorki Sýn né Skjá1 til að okra ekki á mér, ég vona að Rúv geri það ekki.

Í vikunni bárust svo þær fréttir að stórleikur Liverpool og Manchester United verður í opinni dagskrá í boði nokkurra stórfyrirtækja á sunnudaginn. Þetta þykja mér merkilegar fréttir í ljósi þess að ég greiði fyrir áskrift að enska boltanum og hef ekki orðið var við að reikningur þessa mánaðar væri lægri en vanalega. Samt er ekki tekið fram í auglýsingunni að ég og aðrir áskrifendur séum að bjóða upp á leikinn, nei, það eru einhver fyrirtæki sem kaupa auglýsingar. Undarlegt. Jæja, ég get þá a.m.k. horft á þennan leik í sjónvarpsstofunni.

boltinn fjölmiðlar kvabb