Markaðurinn í Riez
Fórum á markaðinn í Riez, en hann er fyrir hádegi á miðvikudögum. Þar er ansi margt í boði; fatnaður, skart og allskonar matvara. Við versluðum örlítið, ég keypti sixpencara til að brenna ekki á skallanum. Kolla keypti hring, Inga María og Gyðu fengu sér hálsmen og Gyða keypti líka kjól sem hún máti í sendiferðabíl. Í hádeginu fengum við okkur pizzur, pöntuðum fjórar þunnbotna pizzur sem dugði fyrir okkur öll.
Eftir hádegi slökuðum við á við sundlaugina. Ég fékk Ingu Maríu að lokum til að stökkva út í laug, þó það væri alltaf í fangið á mér. Hún hafði óskaplega gaman að þessu loks þegar hún þorði.
Þór og Hulda mættu á svæðið, en þau voru að flytja um þessar mundir frá Lyon til Íslands. Þau komu færandi hendi, Hulda gaf stelpunum sippubönd og nú var hafist við að æfa sig að sippa á fullu. Kolla náði strax góðum tökum á því að sippa og var kominn í rúmlega hundrað "sipp", Inga María fór hægar af stað en henni fór hratt fram. Þær notuðu sitthvora tæknina, Kolla tók því rólega og tvíhoppaði milli snúninga meðan Inga María sippaði á fullu. Rólega leiðin er betri til að byrja með.
Ásmundur og Gunna elduðu soðið flesk og kál í kvöldmatinn. Margrét og Stebbi sáu um forréttinn, ostrur – m.a. úrvalsostrur frá „eyjunni hennar Margrétar“. Ég hef aldrei verið mjög hrifinn af ostrum og þetta breytti ekki áliti mínu, en Stebbi og Þór sáu um að borða þær.