Vandamál Íslands
Eitt helsta vandamál þjóðarinnar er að við viljum ekki horfast í augu við að Ísland er smáþjóð. Við erum rétt rúmlega þrjú hundruð þúsund, álíka mörg og íbúar Cardiff. Samt viljum við haga okkur eins og milljónaþjóð. Byggja ráðstefnuhús sem toppar flest í kringum okkur, halda úti fjölda sjálfstæðra háskóla, ótal kirkjum og auðvitað þurfum við bullandi samkeppni á öllum sviðum - þrátt fyrir að oft sé það alls ekkert hagkvæmt.
Að mínu mati þarf að forgangsraða og reyna að gera hlutina á hagkvæman máta, það fylgir því einfaldlega að vera örríki. Dæmi um sóunina sem hér hefur átt sér stað er uppbygging fjarskiptakerfa þar sem nokkur fyrirtæki hafa verið að setja upp farsíma- og ljósleiðarakerfi. Mun gáfulegra hefði verið að hafa eitt af hvoru, helst í opinberri eigu, og veita svo einkaaðilum aðgang að þeim. Hér ætti að vera kominn ljósleiðari í hvert hús, einkaaðilar gætu selt þjónustu. Ótal dæmi eru um álíka sóun og heimsku.
Sættum okkur við smæðina og reynum að vera dálítið skynsöm.
(mynd frá veðurvaktinni)
Eyja - 03/02/09 23:59 #
Ertu að gefa í skyn að draumurinn um Reykjavík sem eina af helstu stórborgum heims geti aldrei orðið að veruleika??? Að hverju eigum við þá að stefna? (Allt í einu finnst mér ég eitthvað svo sveitó....)
Gunnar J Briem - 04/02/09 00:45 #
Sættum okkur ekki við smæðina! Göngum í Evrópusambandið og verðum á endanum útkjálki í 500 milljón manna ríki!
(En verum samt endilega skynsöm.)