Örvitinn

Laun bankafólks

Lærðum við ekkert af hruninu? Trúir einhver því ennþá að í bönkunum starfi rosalega hæfileikaríkt fólk, miklu hæfileikaríkara, duglegra og vinnusamara en annað? Auðvitað ekki. Þetta eru sömu kjánarnir og við hin. Fullt af ágætu fólki. Margt með góða menntun og fína reynslu en það er ekki að gera neitt sérstakt.

Það þarf að lækka launin í fjármálageiranum, jafnvel verulega í mörgum tilvikum. Eitt af því sem olli hruninu var stórkostlegt ofmat fjámálafólks á sjálfu sér. Það trúði því í alvöru að það væri rosalega snjallt og að gera ofsalega gáfulega hluti. Staðreyndin er að það var ekki að gera neitt gáfulegt, það fylgdi bara bólunni og vissi ekkert hvað til bragðs átti að taka þegar bólan sprakk. Nú eru fólk í bönkunum að "skapa verðmæti" úr fyrirtækjum sem bankarnir eignuðust í hruninu en málið er að það er ofsaleg mikið fjármagn á Íslandi og það er ekkert stórmál að hagnast á þessum fyrirtækjum. Samt er nokkuð öruggt að í bankaheiminum er fullt af fólki sannfært um að ef það væri ekki fyrir það, þá hefði mikið fjármagn tapast og því eigi það skilið að fá há laun. Ég fullyrði að ytra umhverfið hefur mikla meira að segja heldur en þetta tiltekna starfsfólk.

Hagnaður sem verður til í fjármálageiranum er ekki verðmætasköpun heldur afrakstur snýkjulífs fjármálageirans sem sýgur fjármagn úr verðmætaskapandi greinum. Verðmæti verða ekki til í bönkum. Það er staðreynd. Það vinnur ekkert klárara fólk í bönkum. Það er önnur staðreynd.

Launaskrið í fjármálageiranum sýnir að þessi ranghugmynd er aftur farin að láta á sér kræla. Ofmat á eigin verðleikum og það endar bara í vitleysu.

Fjármálaheimurinn er nauðsynlegur og á að þjónusta atvinnulífið og heimilin. Í fjármálaheiminum á að borga sæmileg laun. Um leið og fjármálastofnanir eru farnar að borga mun hærri laun en aðrar atvinnugreinar þarf að grípa inn í því við vitum að þá er eitthvað óeðlilegt í gangi. Bankar eiga að vera "boring".

pólitík
Athugasemdir

Magnús T - 30/12/11 12:40 #

Heyrðu góði, áttir þú ekki að vera hægrisinnaður? Djók.

Matti - 30/12/11 13:00 #

Ég er svona hægri, vinstri, upp og niður maður!

Var spurður á Facebook hvað ég vildi gera. Svar mitt, örlítið lagfært:

Ég vil byrja á því að skipta bönkunum upp. Fjárfestingabanka út úr annarri bankastarfsemi.

Næst vil ég setja miklu stífara eftirlit um bankana og miklu harðari reglur um viðskipti þeirra.

Svo vil ég jafnvel skoða að setja sérstaka skatta á launa- og arðgreiðslur fjármálafyrirtækja. Í alvöru! Öll arðsemi fjármálafyrirtæki umfram eðlilegar ávöxtunarkröfur vil ég skattleggja hærra.

Fyrst og fremst vil ég að fólk átti sig á því að allt þetta ágæta fólk sem starfar í bönkum er vissulega hæfileikaríkt en það er ekki að gera neitt sérstakt.

Aðal hættan er að fólkið í fjármálafyrirtækjunum trúi því sjálft að það sé merkilegra, hæfileikaríkara og duglegra en annað fólk.

Valgarður Guðjónsson - 30/12/11 13:52 #

Ég held að við séum á leiðinni í "heilbrigðara" bankaumhverfi, þó full hægt gangi. Þer er einmitt lykilatriði að starfsemi verði skipt upp, bankar verði einfaldlega í því að taka við innlánum og lána peninga, ekki í fjárfestingum eða reka fyrirtæki beint eða óbeint.

En ég velti fyrir mér hvort það mætti hafa tvær leiðir í reglum um banka. Settar verði stífar reglur um viðskiptahætti þeirra sem vilja ríkisábyrgð. En svo mætti hugsa sér aðra banka sem mega reka sig á eigin forsendum. En þá er auðvitað engin ríkisábyrgð og viðskiptavinirnir taka sjálfir áhættuna.

Matti - 30/12/11 14:49 #

Það má vera ein lausn.

Ég tel að í grundvallaratriðum sé of stórt fjármálakerfi (sem borgar of hátt) eins og illkynja krabbamein í samfélagi. Það verður sífellt að stækka meira og meira, það dregur til sín orku sem ætti að fara annað og endar með því að drepa hýsilinn.

Ég held semsagt að of stórt fjármálakerfi sé vandamál í sjálfu sér.

Ég er alls ekki að segja að það eigi ekki að borga fólk ágæt laun í fjármálakerfinu. Að sjálfsögðu á að umbuna fólki fyrir vinnu sína. En það er ekkert sem réttlætir það að nokkur bankamaður á Íslandi hafi "ofurlaun". Ef það er starfandi starfsmaður í fjármálakerfinu með meira en tvær milljónir á mánuði (svo við veljum afskaplega háa tölu), þá er það hrein og klár sturlun.