Örvitinn

Enski boltinn hækkar um 50%

enski boltinn

Eru ekki allir áskrifendur Enska boltans hjá Stöð2 með það á hreinu að næstu mánaðarmót hækkar áskriftin um 50%. Síðustu mánaðarmót borgaði ég tíu þúsund krónur (10.679), fyrir næsta mánuð ætlast þessir snillingar til að ég borgi fimmtán þúsund krónur (15.179). Kíkið á greiðsluseðilinn eða kreditkortayfirlitið.

Þetta kallast breyting á þjónustuleið eða eitthvað álíka, búið að sameina allan boltann í einn pakka. Það er í sjálfu sér ekkert vitlaust. Það hefði bara átt að gerast á lægra verðinu, tíu þúsund krónur á mánuði er miklu meira en nóg fyrir fótboltagláp. Í fullri alvöru.

Ég tók þá ákvörðun í haust að kaupa enska boltann í vetur (af einhverri ástæðu var FA deildin ekki hluti af því). Um leið ákvað ég að kaupa ekki Meistaradeildina, Evrópudeildina, spænsku, ítölsku og svo framvegis og ég hafnaði tilboði um vildarkjör á þeim pakka þegar sölumaður hringdi í mig í desember.

Nú eru spekingarnir hjá Stöð2sport búnir að ákveða að ég eigi ekki að hafa þetta val, það er allt eða ekkert, fimmtán þúsundur krónur á mánuði eða ekkert. Jú, ég get keypt staka leiki í enska í "pay-per-view" á 2500 krónur fyrir hvern leik hjá Vodafone (það er eitthvað ódýrara hjá Símanum).

Ekkert skal það verða. Ég er hættur viðskiptum við þetta furðulega fyrirtæki. Þau hata viðskiptavini sína og ég get ekki annað en endurgoldið það.

Ég hef sagt það áður að það er afrek hjá 365 miðlum að geta ekki selt manni eins og mér áskrift. Ég hef efni á þessu og hef mikinn áhuga á fótbolta. Þetta er rannsóknarefni fyrir fræðifólk í markaðsmálum að til séu fyrirtæki sem hatar kúnnahópinn.

boltinn kvabb
Athugasemdir