Örvitinn

Secret Solstice - þriðji dagur

Agent Fresco
Agent Fresco voru gríðarlega góðir, eins og alltaf.

Við vorum frekar þreytt hjónin þegar við risum upp á þriðja degi en vorum orðin nokkuð spræk þegar við tókum strætó í Laugardal klukkan tvö. Kaffitár var af einhverjum undarlegum ástæðum ekki búið að opna þegar við mættum og Gyða fékk því uppáhelling hjá öðrum söluaðila.

Við fórum að aðalsviðinu og sáum Kiriyama family. Það er ein af þessum hljómsveitum sem maður þekkir án þess að vita það, þegar þau renna í gegn um lögin sín fattar maður að maður hefur heyrt þetta áður í útvarpinu. „Já, þessi eru íslensk“ hugsar maður og finnst eins og maður hafi uppgötvað eitthvað þó allir aðrir hafi vitað það. Kiriyama family voru skemmtileg og enduðu settið mjög hressilega þó það væri hráslagalegt úti með því að taka How will I know sem Whitney Houston flutti á sínum tíma.

Soffía Björg var næst á stóra sviðinu. Dálítið kúl hljómsveit, allt vel flutt og töff en okkur fannst þetta ekkert voðalega skemmtilegt!

Næst á dagskránni var landsleikur Íslands og Ungverjalands á EM. Það fór ekkert illa um okkur fyrir framan stóra sviðið þó það væri kalt. Frekar brösulega gekk með útsendinguna til að byrja með, fyrst tókst ekki að hefja hana fyrr en rétt í þann mund sem leikur hófst og fyrsta hálftímann var sýnd HD útsending sem hökti illa þar til hún stoppaði alveg. Eftir að skipt var yfir í verri gæði (en alveg nógu góð) virkaði útsendingin vel. Leikurinn fór eins og hann fór, stemmingin á svæðinu mjög fín þó gaurinn rétt hjá okkur væri afskaplega leiðinlegur (æi, miklu uppteknari af því að segja „fuck“ útaf öllu sem gerðist - en hann skemmti sér örugglega vel).

Það byrjaði að rigna í seinni hálfleik og ég var því orðinn frekar blautur og kaldur þegar leikurinn var búinn. Við ákváðum því að skjótast heim, Micran var við vinnuna mína í Borgartúni þannig að við röltum þangað og keyrðum heim. Heilsuðum dætrum, skiptum um föt, fengum okkur að borða og brunuðum aftur í Laugardal klædd fyrir votviðri.

Það var frekar hráslagalegt á svæðinu um miðjan dag.

Þegar við komum þangað var Emmsjé gauti að spila á stóra sviðinu fyrir haug af áhorfendum sem fíluðu það vel. Heyrðum síðustu tvö lögin og þetta hljómaði bara vel, það verður að segjast. Ekki skemmdi fyrir að stór hluti áhorfanda þekkti lögin og söng með.

Högni var næstur ásamt tölvugaur. Hljómaði ágætlega en útlendingarnir við hliðina okkur vissu ekki alveg hvort þetta væri djók. Mér fannst það ekki sanngjarnt, Högni var flottur. Ég og Gyða vorum búin að koma okkur fyrir fremst við sviðið til að vera þar fyrir næstu atriði kvöldsins.

Agent Fresco komu á svæðið rétt fyrir níu og spiluðu styttra sett en lagt var upp með. Voru hrikalega góðir eins og alltaf, Agent Fresco er ein af uppáhaldshljómsveitum mínum og klikka aldrei. Gyða þekkti flest lögin sem sýnir að ég hef greinilega verið duglegur að spila þetta fyrir hana.

Chino Moreno, söngvari of Deftones Deftones þurftu góðan tíma til að setja upp græjur en þegar þeir klikkuðu þeir ekki (þrátt fyrir smá vandræði með hljóð í fyrsta lagi). Hrikaleg keyrsla og góð stemming. Ég sá næstum eftir að hafa dregið Gyðu fremst á þessa tónleika, troðningurinn var það mikill, eins og við má búast á rokktónleikum. Það ringdi hressilega á tímabili en gerði ekkert til. Pitturinn fór eitthvað af stað í byrjun en við urðum ekki vör við hann þegar leið á tónleikana, sennilega var bara of mikill troðningur. Slatti af fólki "crows-sörfaði", öryggisgæslu til mikillar mæðu. Sérstaklega þegar sama fólkið var farið að gera þetta oft. Í eitt skipti í lokin þegar einn var borinn yfir okkur flugu gleraugun af Gyðu en sem betur fer náði ég að grípa þau. Hún var búin að ætla sér að taka þau af en gat það ekki útaf troðningi.

Því miður voru fávitar á svæðinu. Gaurar sem mættu fremst þegar Deftones byrjuðu, rembdust við að troða sér og gerðu í því að hrekja fólk í burtu - tókst það því miður í einhverjum tilvikum og komust þannig fremst. Þeir náðu ekki að skemma þetta fyrir mér, en það var ekki langt frá því. Þetta gekk svo langt að einn hótaði að rota mig þegar ég hélt olnboganum á honum frá andliti Gyðu, sem hafði fengið hann í andlitið nokkrum sinnum (ekki fast, en ítrekað). Vinir hans voru svo ekkert skárri. Ekki misskilja mig, ég veit að það er troðningur upp við sviðið á svona tónleikum en þessir fávitar gengu of langt. Hvað þarf fullorðinn maður t.d. að vera heilaskaddaður til að gera sér leik að því að hrækja sem mest á bassaboxin þegar hann loks kemst fremst á sviðið? Æi, við skulum segja að þetta sé ekki uppáhaldsfólkið mitt í dag. Smá google leit staðfesti svo að ég hafði alveg rétt fyrir mér að dæma þennan náunga sem fávita. Leit að barnsnafni húðflúruðu á handlegg skilaði að lokum dómi hæstaréttar fyrir kynferðislegt áreiti gagnvart nokkrum unglingsstelpum. Glæsilegt lið! Ef þið viljið vera fremst á tónleikum, mætið snemma!

Já og krakkar, ég hef ekkert á móti grasreykingum en þetta var hvorki staður né stund, í alvöru. Þetta er ekki kúl í þvögunni, bara fávitaskapur og tillitsleysi.

Ég var ánægður að sjá að gaurarnir með Deftones derhúfurnar héldu sínu plássi fremst alla tónleikana enda voru þeir mættir klukkan fjögur til að ná sínum stað. Í lokin fengu þeir eintak af setlistanum sem var vel verðskuldað.

Við keyrðum svo heim eftir tónleikana með suð í eyrum eftir lætin, ekkert sukk í gangi í gær.

Nokkrar símamyndir og snöpp

tónlist
Athugasemdir



ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)