Örvitinn

Secret solstice - lokadagur

Hljómsveitin Of monsters and men
Of Monsters and Men á stóra sviðinu um kvöldið

Við vorum ekkert að flýta okkur af stað síðasta dag Secret Solstice, slökuðum á heima til fjögur og keyrðum þá í Laugardal.

Amabadama var að byrja að spila á Gimli þegar við mættum, þetta er stórskemmtileg hljómsveit eins og flestir vita, virkilega flott á sviði og ná frábærlega til áhorfenda.

Amabadama
Amabadama á sviði. Hver er ekki heillaður af Sölku?
Mammút var næst á stóra sviðinu. Lögin sem ég þekki með þeim eru frábær, en þau er bara svo fá, hin eru ekki að heilla mig.

Bernhoft er dálítill Mugison norðmanna og var nokkuð áheyrilegur og við hlustuðum á fáein lög. Sáum svo eldspúandi ungmenni áður en við héldum áfram.

eldspúandi krakkar
Smá hdr sull!

Mig langaði að sjá Die Antwoord en verð að játa að ég nennti ekki að fara í langa röð - eins og allir vita seinkaði komu hljómsveitarinnar og því þurfti að færa tónleikana inn í Laugardalshöll, miklu færri komust að til að sjá hljómsveitina en vildu. Ég var með einhverja draumóra um að rölta í höllina klukkan ellefu. María og Einar voru mætt snemma í röðina, fengu fín sæti í stúkunni og skemmtu sér virkilega vel.

Í staðin kíktum við á Róisín Murphy á stóra sviðinu en hún heillaði okkur ekki þannig að við héldum áfram. Sáum íslensku hljómsveitina Captain Syrup sem var frábær. Minna mig á Primus, djassað, rokkað, fríkað. Ég ætla að reyna að sjá þessa hljómsveit aftur.

Varúð, lækkið hljóðið - þetta er hávært! Stutt myndband með hljóði af tónleikum Captain syrup. Ekki alveg Primus fílingurinn þarna reyndar.

Sáum fyrstu lögin hjá Aron Can en vorum bara alls ekki að tengja. Hlustum líka á rappara sem ég þekki ekki. Hann var fínn og við horfðum á nokkur lög þar til kom að loka tónleikum kvöldsins.

Of Monsters and men var svo aðal hljómsveitin á stóra sviðinu á sunnudagskvöldið. Ég er ekki mikill aðdáandi en Gyðu langaði mikið að sjá þau spila. Þetta er allt mjög pottþétt hjá þeim og fólk var að fíla þetta í tætlur, þar með talið margir útlendingar. Við vorum nokkuð aftarlega en Gyða sá ágætlega á sviðið eftir að hafa fært sig örlítið í áhorfendahópnum. Eftir tónleikana þeirra röltum við framhjá röðinni - sáum að það var ekki nokkur leið að komast inn í höllina - og fórum þá bara heim. Þreitt en sátt eftir þessa hátíð.

Nokkrar pælingar

Við vorum ósköp ánægð með hátíðina. Það hafa heyrst fjölmargar gagnrýnisraddir og það er alveg hægt að taka undir sumt. Auðvitað er dálítið klúður að þurfa að bíða lengi í röð eftir atriðum - og missa þá af öllu öðru sem er í gangi meðan beðið er - en það er skiljanlega lítið hægt að gera þegar flugi seinkar - annað en að bóka fólk aðeins fyrr í flug!

Ég er almennt ósköp jákvæður varðandi kannabisreykingar og læt þær lítið trufla mig - en ástandið á þessari hátíð var glórulaust. Fólk var reykjandi gras um allt svæðið, líka í mannþröng þar sem aðrir áttu ekki auðvelt með að færa sig. Svo voru óþarflega ungir krakkar að drekka og reykja gras á svæðinu - þá er ég að tala um krakka á grunnskólaaldri.

grasreykingar
Þessir reyktu afskaplega feita jónu fyrir framan alla. Í hópnum var sá sem stærði sig af því að vera dópsali við útlendingana á Radiohead tónleikunum og stelpur sem voru sennilega nýfermdar.

Ég skil alveg að seldir séu VIP miðar á svona hátíð, en það er eiginlega mjög hallærislegt að standa í röð og horfa á fólk fara framfyrir inni á svona svæði. Eiginlega alveg skelfilega plebbalegt. Sérstaklega vegna þess að maður veit að fæstir sem VIP miða keyptu þá sjálfir. Tengt því, þá er líka mjög kjánalegt að fjalla mikið um VIP pakkana í fjölmiðlum þegar 99% gesta eru bara "venjulegir". Ekkert að því að auglýsa einhverja tónleika inni í jökli, en þegar tuttugu gestir af fimmmtán þúsund upplifa þá, myndi ég fjalla aðeins meira um það sem allir hafa aðgang að.

Annars vorum við bara sátt og getum alveg hugsað okkur að fara aftur að ári. Það var frábært að sjá Radiohead og Deftones - þetta tvennt hefði í raun dugað mér. En það er líka virkilega gaman að fara á svona hátíð og uppgötva hljómsveitir sem maður þekkti ekki.

Myndir lokadagsins

Hér eru tvær umfjallanir um hátíðina sem ég las um helgina, gaman að því hvað upplifun af svona hátíðum getur verið ólík, Andri Már var á allt annari tónlistarhátíð en ég - sem er einmitt stórfínt - þarna var nóg fyrir alla.

tónlist
Athugasemdir



ath. póstfangið birtist ekki á síðunni

má sleppa

(næstum öll html tög virka, einnig er hægt að nota Markdown rithátt)