Örvitinn

Upp úr skotgröfunum.

Ég skrifaði þetta og sendi inn á spjallþræði á strik.is og visir.is. Þar vita menn að ég er trúleysingi og þessum skrifum er að vissu leiti beint til annarra trúleysingja. Það skýrir ákveðnar vísanir í pistlinum.

Erindrekar Þjóðkirkjunnar hafa hafið gagnsókn gegn skæruhernaði sem þeir hafa orðið fyrir undanfarið. Eina vandamálið er að sóknin fer fram með jarðýtum og sannleikurinn er troðinn í svaðið.

Það sést í morgunblaðinu í dag þar sem 2 greinar eru birtar sem framlag kirkjunnar manna.

Er þjóðkirkjan spenakálfur?

Boðar kirkjan hindurvitni?

Í fyrri greininni skrifar Bjarni Karlsson sóknarprestur í Laugarneskirkju um þá umræðu sem undanfarið hefur skapast um stöðu þjóðkirkjunnar og annarra trúfélaga. Í grein hans eru margar einkennilega fullyrðingar eins og siður virðist vera hjá kristnum mönnum þegar þeir gera tilraun til að verja vígið.

Fyrst og fremst virðist hann þó vera að gagnrýna stöðu kirkjunnar í dag og það hversu mikil stofnun hún er. Þetta tek ég undir með honum.

Í lokin kemur svo hinn raunverulegi tilgangur skrifa Bjarna, sem er sá að nota útúrsnúninga og ómerkilegheit til að réttlæta það að þjóðkirkjan fái að vera á ríkisspenanum:

"Gagnvart þessum áleitna veruleika er gott að íhuga hvers virði það er að eiga kirkju sem ekki kostar. Hvers virði er það á þessum tímum að eiga mannlífstorg þar sem listamenn hafa rými til að gefa ókeypis aðgang? Hvers virði er slíkur vettvangur þar sem raunveruleg lífsgildi eru til umfjöllunar við allt fólk, óháð aldri, heilsufari eða fjárhag? Hvers virði er að eiga kirkju þar sem hæft fagfólk gefur ókeypis ráðgjöf og leiðir alls kyns mannræktarhópa og tugþúsundir Íslendinga taka virkan og reglubundinn þátt í fjölþættu trúar- og menningarstarfi?
Það er gagnlegt fyrir þau sem halda að þjóðkirkjan sé bara almennur félagsskapur við hlið allra hinna að svara því til hvaða önnur félagasamtök í landinu væru líkleg til þess að taka upp þráðinn og gera jafn vel hún."

Þetta er náttúrulega bara hlægilegt. Auðvitað sinnir kirkjan þessu í dag og auðvitað mun hún sinna einhverju af þessu (en ekki öllu) ef hún þarf að hafa eitthvað fyrir tilveru sinni. En að halda að ekkert af þessu myndi eiga sér stað nema í gegnum Kirkjuna lýsir náttúrulega alveg ótrúlegum hroka hjá þessum kirkjunnar manni. Auðvitað geta aðrir aðilar séð um þessa hluti. Ég myndi segja að það væri hlutverk annarra að sjá um þessa hluti í dag.

Af hverju á kirkjan að halda uppi menningarstarfi á kostnað almennings í landinu? Geta ekki aðrir aðilar séð um það? Er ekki ákveðin hætta á að sú menning sem fram fer á þessum vettvangi sé ekki raunverulegur þverskurður af menningu okkar, heldur ákveðin sýn á hana. Hin kristna sýn.

Hvað um það, hina greinina skrifar Jón Dalbú Hróbjartsson prófastur og prestur í Hallgrímskirkju. Þar er hann að einhverju leiti að svara grein sem birtist í mogganum 26. jan þar sem Aðalheiður Inga Þorsteinsdóttir (Pálssonar?) skrifar um aðskilnað ríkis og kirkju.

Skrif Jóns eru sérkennileg. Aðalheiður vísar í Gallup könnun sem bendir til að meirihluti þjóðarinnar styðji aðskilnað ríkis og Kirkju, en þetta afgreiðir Jón með því að skrifa: "en ég er sannfærður um, að þegar almenningur í landinu hefur fengið greinargóðar skýringar á því hvað það þýðir í smáu sem stóru að skilja algerlega milli ríkis og kirkju verði mikill meirihluti fyrir ríkjandi fyrirkomulagi." Með öðrum orðum, það er ekkert að marka hvað fólk segir, það þarf að "fræða" það.
Það hryggir Jón mjög mikið að Aðalheiður skuli fullyrði að boðskapur kristinnar Kirkju sé hindurvitni. Jón skrifar: "Ég fullyrði að öll meginstef í kenningu og boðskap kristinnar kirkju standist gagnrýna "upplýsta" hugsun." Nú er ég viss um að hlakkar í mörgum sem þetta lesa, því eins og við vitum, þá er gagnrýnin "upplýst" hugsun helsti andstæðingur skipulagðra trúarbragða.
"Ekki hefur verið hrakið með neinum haldbærum rökum að Jesús Kristur hafi verið til. " Fullyrðir Jón næst og gerir þar með að engu þær efasemdir sem til eru um tilveru Jesú. Það er náttúrulega ekkert að marka hvað fólk segir?

"Á Íslandi hefur kristin trú verið leiðarljós landsmanna í 1000 ár. Yfir þetta verður ekki strikað með einu pennastriki." skrifar Jón næst.
Þessu er ég ekki sammála. Vissulega hefur íslensk Kirkja verið valdamikil síðustu 1000 ár, þó tök hennar á landsmönnum hafi losnað á síðustu öld. En flest bendir til að íslendingar hafi aldrei sleppt heiðninni. Ég held að það megi færi ýmis rök fyrir því að eitt af einkennum íslendinga síðustu 1000 árin sé einmitt hæfileg virðing fyrir kristinni trú. Íslensk alþýða hefur valið það sem hentar frá kristni og blandað saman við ýmis önnur trúarstef, sem á engan hátt samrýmast kristinni menningu.
Lokahluti greinar Jóns er svo sorglegur minnisvarði um þröngsýni kirkjunnar manna. Í stað þess að sjá einhvern möguleika á að aðskilnaður ríkis og kirkju geti orðið bæði þjóðinni og kirkjunni til einhvers gagns og að gagnrýnin umræða geti styrkt kirkjuna leggur hann til að kristnifræðikennsla (áróður) verði aukinn í skólum landsins. Væntanlega til að vega upp á móti gagnrýninni hugsun og upplýstari almenningi.
Jón skrifar: "Sumir telja að hlutleysi í þessum efnum sé best, þannig að börnin velji sjálf þegar þau hafa aldur til. Hlutleysi á þessum nótum er líka innræting, gefur þau skilaboð, að trúin skipti ekki máli."
Jamm, hlutleysi er vont. Þar hafið þið það krakkar mínir, prestur Hallgrímskirkju er á móti hlutleysi í trúmálum, því það gefi í skyn að trúin skipti ekki máli. Ég tek undir þetta með honum. Íslendingar verða að taka afstöðu til trúarinnar og kirkjunnar, sérstaklega stór meirihluti þjóðarinnar sem er skráður í þjóðkirkjuna án þess að eiga í rauninni nokkra samleið með henni. Ef íslendingar myndu taka upplýsta og gagnrýna afstöðu til trúarinnar er ég sannfærður um að trúleysi myndi aukast. Það er einfaldlega rökrétta niðurstaðan. Það er að segja, ef við höfum ekki sömu sýn á hugtakið "gagnrýn hugsun" og prestar þjóðkirkjunnar.
Lokaorð Jóns eru: "Það er von mín, að viðhorf Aðalheiðar Ingu í téðri blaðagrein verði aldrei í meirihluta á Íslandi."
Það er von mín að mönnum eins og Jóni fækki á Íslandi. Ég er meira að segja sannfærður um að því gagnrýnni og upplýstari sem þjóðin verður muni það gerast af sjálfum sér.
Matti Á.

efahyggja
Athugasemdir

Óli bassi - 07/08/02 14:30 #

Vel mælt Matthías, eins og talað frá mínu hjarta.