Örvitinn

framtíð feministafélagsins

Ég spái því að feministafélagið muni klofna áður en árið er liðið. Þessar skoðanir eru bara svo langt frá því sem margir feministar geta sætt sig við.

Það segir sig svo sjálft að ég mun skrá mig í feministafélagið hennar Unnar.

Nei nei, það er ekkert víst að félagið muni klofna. Ég sé bara ekki alveg hvernig þessar skoðanir (sem ég tek heilshugar undir) ríma við þær sem sjá má á forsíðu félagsins þar sem er mynd af konu sem heldur á bleiku blaði. Á blaðinu stendur:




Finnst þér klámvæðingin lítilsvirðandi fyrir konur og karla?


nei
Ef þú svarar spurningunni játandi átt þú erindi á stofnfund feministafélags Íslands....


Ég mætti ekki ;-)

Reyndar er hin spurningin ekki miklu skárri.




Finnst þér sanngjarnt að konur eiga einungis 1% eigna í heiminum?



Miðað við skiptingu eigna í heiminum almennt geri ég ráð fyrir að munurinn á meðal manninum og meðal konunni hvað eignir varðar sé ekkert rosalega mikill!!

Hvað á ég við... æi útskýri það betur ef einhver kvartar :-P

feminismi
Athugasemdir

Bjarni Rúnar - 02/04/03 14:31 #

Klámvæðingin hefur reyndar aldrei verið almennilega skilgreind fyrir mér, en við sem hugsum eins og hún Unnur kjósum að líta á klámvæðinguna sem samheiti yfir aukna notkun kynlífs og "kláms" í markaðssetningu og fjölmiðlaefni. Maður getur verið á móti því þó maður eigi heilu vöruskemmurnar af dónalegum vídjóspólum til einkanota. :-)

Það er nauðsynlegt að standa vörð um frelsi fólks til að vera kynverur eins og því hentar - og þar með talið að virða rétt fólks til að halda kynlífinu prívat og bara inní svefnherbergi.

Það er vegið að því fólki með því að hafa myndir af nöktu fólki að auglýsa klámþjónustu í öllum dagblöðum.

Það er líka mikilvægt að huga að því hvaða skilaboð fjölmiðlar og auglýsendur eru að senda út í samfélagið. Skilaboðin sem við fáum í dag eru "allir karlmenn eru ljótir nema hommar og allar konur eru ljótar nema þær séu með anorexíu og silikon". Það er ekkert sérstaklega gott. :-)

unnur - 02/04/03 14:46 #

Ég hef fulla trú á að félagið klofni ekki, það er svo margt fleira sem sameinar feminista en hitt sem sundrar. Hvort ég verði rekin úr félaginu eða ekki er hinsvegar allt annað mál...

Nei, að öllu gríni slepptu þá held ég að ég sé ekkert ein um skoðanirnar mínar. Kannski pínulítið ófeimnari við að tala um þær á síðunni minni en meðalgunnan en ég hef fulla trú á að meirihluti kvenna geti að minnsta kosti verið sammála mér að einhverju leyti.

Og hvað klámvæðinguna varðar þá getur maður alveg fílað jákvæða hlutann af því sem almenningur grúppar allt saman og kallar í daglegu tali klám og á sama tíma samþykkt að þetta sé eitthvað sem megi alveg vera uppá efstu hillu þar sem börn ná ekki til en ekki út um alla veggi og otað að fólki sem hefur ekki áhuga. Og verið á móti því að nekt/kynlíf sé notað í öllum mögulegum og ómögulegum samhengjum til að selja hvað sem er og svo framvegis :) Það er ekki það sama að vera tepra og að vera sómakær.

Það sem hefur að mínu mati einna helst verið að hamla alvöru umræðu um klámvæðinguna og verið að búa til óþarfa fylkingar fólks sem gæti alveg verið að miklu leyti sammála er að feministar á móti klámi vilja meina að klám sé þær kynlífslýsingar sem séu ofbeldisfullar eða niðurlægjandi á la Díana Russel en ég hef enga trú á að við breytum orðræðu heillar þjóðar (Heimaklám sem ástfangin pör taka upp af sjálfum sér og sem er samkvæmt kynlífsfræðingum bara gott mál er einmitt kallað heimaKLÁM en ekki heimaerótík og svo mætti lengi telja upp dæmi...) og tala því persónulega um jákvætt og neikvætt klám. Það hlýtur að vera vænlegra til árangurs að tala þannig að allir skilji mann í staðinn fyrir að notast við skilgreiningar sem eru ekki öllum ljósar? :) Auðvitað væri fínt að hafa sérstakt orð yfir neikvætt niðurlægjandi klám en málfarshefð á Íslandi er bara sú að nota þetta orð yfir svo til allar kynlífslýsingar sem gera meira en bara rétt gefa hlutina í skyn, sama hvort þær eru jákvæðar eða neikvæðar.

Afsakaðu málæðið, mér finnst þetta bara mikilvægt :) Og víst varstu að horfa á mig.... :P

Matti Á. - 02/04/03 14:46 #

Ástæða þess að ég læt stríðið gegn "klámvæðingunni" fara svona í taugarnar á mér er einmitt að eins og þú bendir á er þetta afskaplega illa skilgreint hugtak.

Ég hjó þó eftir því á feministavefnum að þar er eftirfarandi lýsing á starfshópnum sem fjallar um ofbeldi.

Ofbeldisvarnarhópur. Hópur sem berst gegn vændi, mansali, klámi og ofbeldi sem beinist gegn konum og börnum. Unnið verði í samráði við Stígamót.

Eins og ég benti á um daginn virðist mansal líka vera loðnara hugtak en ég hélt.

Það er rétt að það er verið að senda stúlkunum okkar allskonar skilaboð sem ekki eru til þess gerð að efla sjálfmynd þeirra á jákvæðan hátt. Ég styð feministana heilshugar í því að fjalla um það mál. Þó get ég ekki séð að það hjálpi mikið að mótmæla fegurðarkeppnum og öðrum slíkum atburðum. Veit samt ekki, hef alltaf þótt það furðulegar athafnir (keppnirnar þ.e)

Ég er ekki að segja að þetta feministafélag geti ekki gert góða hluti. Þessi hugleiðing mín kom nú vegna þess að ég sá fyrir mér að Unnur (tja, þið bæði) mynduð eiga erfitt starf fyrir höndum að reyna að koma þessum skoðunum ykkar á framfæri innan þessa vettvangs.

Svo getur vel verið að ég hafi rangt fyrir mér og að eftir að klámvæðingin er sigruð komi kynlífsbylting hin síðari, með feminista í forsvari ;-)

unnur - 02/04/03 14:52 #

Híhí Matti, þú verður bara að vera með ef þú vilt hafa áhrif. Annars telstu bara nöllari ;)

(það er allavega það sem ég er að reyna að sannfæra mig um af því að ég held það geti einmitt reynt soldið á persónuleikann að starfa með fólki sem er örugglega að hluta mjög ósammála manni í staðinn fyrir að halda sig bara við skoðanasystkini, no pun intended.)

Matti Á. - 02/04/03 15:07 #

Auðvitað þýðir lítið að gagnrýna bara, þora ekki að taka þátt. Dáldið dæmigert fyrir mig samt. Ég tuða þó dáldið opinberlega núna :-)

Ég hef vegna vinnuálags síðasta árið t.d. ekkert mætt á SAMT fundi og er þar þó um að ræða mál sem mér er mjög hugleikið. Held ég fari ekkert að horfa í aðrar áttir ef ég get ekki einu sinni sinnt því.

En kannski hafði hel rétt fyrir sér, ætli ég verði ekki öfga-feministi af gamla skólanum þegar stelpurnar mínar verða eldri. Verð þá ekki bara á móti klámvæðingunni heldur kynlífi almennt :-)

Vonandi ekki.

Gyða - 02/04/03 15:10 #

"Verð þá ekki bara á móti klámvæðingunni heldur kynlífi almennt :-)"

Ja ég vona svo sannarlega að það rætist ekki :-)

Gyða

Eggert - 02/04/03 15:54 #

Hmm. Sennilega er þetta aprílgabb en tek ég einn eftir því að myndirnar á þessari síðu eru doktoraðar til þess að láta líta út fyrir meiri mætingu?

Salvör - 03/04/03 19:46 #

Svar til Eggerts: Þú segir: "Hmm. Sennilega er þetta aprílgabb en tek ég einn eftir því að myndirnar á þessari síðu eru doktoraðar til þess að láta líta út fyrir meiri mætingu?"

Ég tók allar myndirnar sem þú vitnar í, vann þær í Fireworks og setti á vefsíðu. Ég veit ekki hvað það þýðir að "doktora" en ef það þýðir að breyta eitthvað þá lýsti ég aftari part á einhverjum myndum (annars hefði fólkið í forgrunni verið hvítt en eins og svartar þústir í bakgrunni). Það hvarflaði aldrei að mér búa til eitthvað þannig að það sýndist vera meiri mæting. Ég fullvissa þig um að ef ég hefði haft það í huga þá hefðir þú sér miklu flottari mannmergðarmyndir, það hefðu sést hundruðir á hverri mynd:)

Ég setti voða lítið að yfirlitsmyndum yfir fólk á vefsíðuna, mér fannst þær svo "boring". Ég vil svona "human touch" myndir. Ég reyndi að velja á vefsíðuna myndir sem sýndu stemminguna - sýndu hvað það var mikil grasrótar- og hugsjónastarf og hvað fólk var ákaft - hvað margir tóku til máls - hvernig salurinn endurspeglaði ákafann og áhugann hjá fundarfólki.

Þessar myndir eru fyrst og fremst fyrir þá félagsmenn sem ekki komast, eru búsettir erlendis eða í dreifbýlinu svo þeir geti skynjað stemminguna sem var á fundinum.

Ég er sármóðguð yfir að einhver haldi að ég gæti ekki gert betur ef ég hefði ætlað að sýna mætinguna. Það sat hver ofan á öðrum á þessum fundi og það var mergð fólks hvert sem maður leit.

Svo legg ég listrænan metnað í svona myndasyrpur, þetta er saga um hvað gerðist eins og ég skynjaði það.

Viltu fá orginal af einhverri af myndunum? Ég skal senda þér, þá sérðu hvernig ég hef lýst og skerpt myndir og skorið út áhugavert myndefni. Engin mynd er samsett.

Eggert - 04/04/03 12:06 #

Ég biðst velvirðingar að ég skyldi ósjálfrátt halda að verið væri að láta líta út fyrir betri mætingu. Ég vil alls ekki gera lítið úr félagsskap femínista eða mætingu á fundi - mér fannst bara eitthvað mjög skrítið við skugga, o.s.frv., en það var eins og þú segir, til þess að lýsa upp fólk í bakgrunni. Það er einmitt mjög erfitt að rekja útlínur fólks í Photoshop, og þá sérstaklega hár - og þegar ég sá mun á birtustigi í kringum hár og andlit á myndunum gerði ég ráð fyrir því versta. Ég vildi þó ekki vega að æru þinni með þessari athugasemd, heldur bjóst ég við að um aprílgabb væri að ræða, og viðkomandi persónur hefðu kannski boðað mætingu en ekki komist eða eitthvað þess háttar.
Ég hef, sem "wannabe" áhugaljósmyndari, einmitt sjálfur lent í svipuðu í myndatöku, og eina leiðin til að losna við þetta er að fá flassið til að loga lengur (sem er oft ekki hægt), eða bara sleppa flassinu, og breyta birtustiginu á allri myndinni (kemur oft betur út en það hljómar).