Örvitinn

Skynsamleg og málefnaleg svör

Kata skrifar af mannviti og skynsemi um menningarmál á Múrinn. Ekki mikill séns á að hún muni fá skynsamleg eða málefnaleg svör, því miður.
Þannig skrifar Sverrir Jakobsson um pistil litlu systur á múrnum. Eina svarið sem við blasir á múrnum er vísun í skrif mín sem hafa fengið þann dóm að vera hvorki skynsamleg né málefnaleg.

Í ljósi reynslunnar held ég að ég forðist að rökræða við Jakobsbörn, það virðist þeim ekki tamt, þau eru yfir það hafin. Rök annarra verða aldrei skynsamleg og um leið varla málefnaleg. Þó er rétt að taka fram að fordómar mínir byggja á veikum grunni og ég á ekki auðvelt með að rökstyðja þá en slíkt gildir nú alla jafna um fordóma.

Að lokum legg ég til að Katrín Jaboksdóttir skrifi lærðan pistil á múrinn um nauðsyn þess að ríkið styrki framleiðslu súkkó gosdrykkjarins sem ekki er lengur fáanlegur þrátt fyrir að margir hafi drukkið og líkað vel og sá drykkur hafi skapað mikla umræðu í þjóðfélaginu. Einhverjir kapítalistar hættu framleiðslu bara vegna þess að fáir vildu kaupa og hunsuðu algjörlega menningarframlag vörunnar. Hver kannast ekki við að hafa rætt við fólk um hvort það hafi smakkað súkkó og að hafa velt því fyrir sér hverslags snillingar stóðu á bak við þá ákvörðun að setja þann drykk á markað.

Hvað er gott? Súkkó er gott sögðu sumir.

pólitík
Athugasemdir

Einar Örn - 16/06/03 13:44 #

Ég krefst þess að ríkið hefji framleiðslu á Súkkó, bara til þess að ég gæti smakkað það aftur.

Í minningunni er þetta alveg óheyrilega vondur drykkur. Spurning um það hvort það hefði breyst.

Annars leyfi ég mér að fullyrða að mótsvar Sverris við þessum pistli verði afar málefnalegt einsog ávallt :-)

Matti - 16/06/03 13:56 #

Súkkó var alveg sérstaklega vondur drykkur þegar ég smakkaði hann og ég er sannfærður um að það hefði ekkert breyst þó ég gæti smakkað hann aftur í dag. Þó hefur smekkur minn breyst að ýmsu leiti síðan ég bragðaði þennan görótta drykk.

En hvað er gott eða vont? Það er spurningin.