Örvitinn

Ég klæðist ekki bleiku

Margir klæddust bleiku til að sýna konum samstöðu í dag.

Mitt framlag fólst í að sjá um að vakna með Ingu Maríu síðustu nótt, hún vaknaði á rúmlega klukkutíma fresti en sofnaði yfirleitt fljótt í fanginu á mér. Þar sem þetta gekk svona vel er þetta núna mitt hlutverk. Inga María fær semsagt ekki lengur brjóst á nóttunni.

Vonandi fer hún að sofa lengur þegar hún lærir að mamma hennar kemur ekki og sækir hana heldur bara brjóstlaus pabbi.

Ég átti bleikan jakka þegar ég var átján-nítjan ára og gekk meira segja í honum af og til. Það var meira en nóg :-)

Mér finnst skipta meira máli hvað fólk gerir heldur en það hvað það segir.

dagbók
Athugasemdir

Hulda Katrín - 20/06/03 15:35 #

Ég bara verð að fá að höggva aðeins í þetta hjá þér Matti. Þitt framlag til kvennréttindardagsins, þ.e. þín samstaða með konum var að vakna með dóttur þinni í nótt. Í þessu felst að það að vakna með börnunum sé verk konunnar og því sért þú að sýna sérstaka samstöðu með því að taka að þér hluta af verkum konunnar! Eða þannig skil ég þetta orðalag hjá þér. Mér finnst þetta vera ansi lýsandi viðhorf í dag. Þeir karlmönnum sem taka virkann þátt í heimili og barnauppeldi (sem á að vera sjálfsagt og eðlilegt) er hampað sérstaklega. Talað um að þeir styðji konuna sína svo vel. Bíddu.. af hverju er ekki talað um að konan styðji þá með öllu sem hún gerir inná heimilinu...? Smá feminísk pæling

Matti - 20/06/03 15:41 #

Mitt framlag til jafnréttisbaráttunnar er einfaldlega að vera jafnréttissinni í verki á mínu heimili, að sjá um heimilisverk á sama hátt og konan mín.

Ekki bara í dag heldur alla daga.

Það vildi bara svo skemmtilega til að ég byrjaði að sjá um að vakna á nóttunni með Ingu Maríu aðfaranótt 19. júní. Ég átti erfitt með að sinna því fyrir þann tíma þar sem ég mjólka mjög illa ;-)

15:50 Smá viðbót, það felst ekkert í þessum orðum annað en það sem þarna stendur. Ég held að þú sért að lesa þetta með kynjagleraugum! Á kvennadaginn byrjaði ég að sjá um Ingu Maríu á nóttunni. Að sjálfsögðu gerði ég þetta ekki útaf þessum degi, það vildi bara þannig til að þar sem hún fór í röraðgerð mátti hún ekkert drekka nóttina áður og því ákváðum við að svona yrði þetta. En staðreyndin er samt sú að með þessari litlu athöfn gerði ég meira fyrir konur í heiminum heldur en allir bleikklæddu karlarnir í gær til samans.

Mér hefur ekki verið hampað sérstaklega fyrir að vera jafnréttissinni en það hefur komið fyrir að ég hef verið kallaður karlremba.

Bara vegna þess að ég klæðist ekki bleiku.

Hulda Katrín - 20/06/03 16:16 #

Ég var ekki að gera því skóna að þú værir ekki jafnréttissinnaður og því síður að þú værir karlremba. Það mátti skilja færsluna þína eins og ég tíundaði hér fyrir ofan og því fannst mér alveg þess virði að kommenta á það. Ég var ekki að væna þig um karlrembuhátt - miklu frekar að koma umræðunni af stað, þ.e. um karlmenn sem taka virkan þátt í heimilisstörfum og barnauppeldi og er hampað sérstaklega mikið fyrir það og (sumir hverjir) bornir á "gullstólum" fyrir vikið. Ég tel mig ekki horfa á hlutina með sterkum kynja(feminískum) gleraugum - en alveg þess virði svosem að skoða það betur! Komin með gott efni í næstu bloggfærslu ;)

Gyða - 20/06/03 16:44 #

Blessuð Hulda Á mínu heimili er reyndar líka talað um að ég styðji minn mann vel með því að hafa alfarið séð um svo til öll heimilisverkin síðasta árið (mínus síðasta rúmlega mánuðinn). Þannig að Matti er ekki vanur að hampa sér sérstaklega fyrir að sinna heimilinu bara svo það sé á hreinu. Annars er hann náttúrulega bestur í að verja sig sjálfur en ég varð samt að koma þessu að ;-)

Annað með jafnréttisbaráttuna að auðvitað á að vera sjálfsagt mál að foreldrar sinni heimilinu jafnt en þar með er ekki sagt að þeir þurfi að gera nákvæmlega sömu hlutina. Svo framalega sem svipaður tími fer í að sinna börnum og búi hjá báðum aðilum þá finnst mér jafnrétti ríkja á heimilinu.

Í mínum huga er ekki lítið framlag Matta til jafnréttisbaráttunnar að sinna heimilinu til jafns við mig og ala þar með 3 börn upp í þeirri hugsun að þannig sé eðlilegt að hlutirnir séu. Hver einasti karlmaður sem gerir það elur af sér börn sem taka því bókstaflega sem sjálfsagðan hlut að pabbi sinni heimilinu.

Reyndar hefur Matti þetta framlag frá pabba sínum svo kannski ætti ég að færa tengdapabba blóm á kvennadaginn fyrir að hafa alið upp dreng með góðu fordæmi. Sú fyrirmynd sem uppeldið hefur gefið Matta er í mínum huga ástæða þess að það hefur aldrei verið neinn vafi í hans huga að hann ber jafna skildu á við mig að sjá um heimilið.

Gyða

Gyða - 20/06/03 20:55 #

Ég skrifaði mína athugasemd áður en að athugasemd númer tvö var komin frá Huldu ég skil ekki af hverju hún byrtist ekki hjá mér!!!!

En sammála henni að þetta er gott efni í bloggfærslu :-)