Örvitinn

Vændi og siðgæði

Þegar því er haldið fram að sala á kynlífi verði að vera refsiverð til verndar siðgæði í landinu taka margir undir. En er ekki vafasamt að leggja þessa siðferðislegu skyldu á vændiskonuna eina? Væri ekki nær að líta til þeirra sem hafa raunverulegt val um gerðir sínar? Getur það verið að þingmenn líti svo að að vændiskona sé meiri glæpamaður en sá sem kaupir líkama hennar?

Nú virðist vera komin af stað bylgja sem ég sé ekki að verði stöðvuð. Sænska leiðin verður líklegast innleidd á Íslandi og kaup á vændi gerð ólögleg en sala lögleg.

Ég hef sitthvað við þetta að athuga en nenni satt að segja ekki að rökræða um málið, sú rökræða er ávísun á skítkast frá feministum og ég er ekki tilbúinn í það þessa dagana. Hef um nóg annað að hugsa.

Það er eitt sem stuðar mig í tilvitnunni hér að ofan sem er fengin frá tíkinni. Það er þetta siðgæði sem á að vernda. Takið eftir að tíkin andmælir því sjónarhorni ekki, heldur gagnrýnir að þessi skylda leggist á vændiskonuna eina.

Er semsagt þegjandi samkomulag um að siðgæði þjóðarinnar sé eitthvað sem þarf sérstaklega að verja með lagasetningu? Eru allir stuðningsmenn þessa máls á þeirri skoðun?
Er ég einn um að vera mótfallinn þessum þankagangi?

feminismi
Athugasemdir

JBJ - 05/10/03 23:10 #

Nei nei, ég er með þér í þessu. Two's a company... lets see if there is a crowd :p

Matti - 06/10/03 09:00 #

Við virðumst bara vera tveir um þessa skoðun, spurning um að læðast meðfram veggjum :-)

Annars held ég að bylgjan verði ekki stöðvuð vegna þess að fáir eru tilbúnir að standa upp og gera athugasemdir við svona "göfugt mál". Líklega fær sá þingmaður sem eitthvað hefur við þetta að athuga á sig leiðinlegan stimpil.

Annars er ekkert að marka mig enda sat ég heima í gærkvöldi eftir að ég skrifaði þessa færslu og las meðal annars ritgerð Bertrand Russel um kynlífssiði (Our Sexual Ethics). Tengist það málinu? Neibb, vildi bara vísa á ritgerðina :-)

JBJ - 06/10/03 10:21 #

Fín ritgerð

Óskar - 06/10/03 10:25 #

Umræðan hér á landi snýst um pólitíska rétthugsun og mætti kalla hana nútíma Stóradóm. Ég hef engan áhuga og er á móti dópi og hórum, en ég sé enga ástæðu til að banna svoleiðis vitleysu. Það er ekki hægt að banna allt, og sérstaklega ekki að fólk er fífl.

birgir.com - 06/10/03 15:44 #

Snúast ekki flestar lagasetningar um að vernda siðgæði? Eru ekki lög gegn morðum, stuldi og svikum ekki í aðra röndina fyrirmynd okkar um hvað sé gott siðgæði?

Matti - 06/10/03 15:50 #

Ég tel að það sé munur á siðgæði í merkingunni morals og siðgæði í merkingunni sem þú notar með morðum, stuldi og svikum. Ég tel ljóst að í textanum sem ég vitna í er verið að tala um morals.

Er ekki klárasti munurinn sá hvort að til staðað séu fórnarlömb. Í einhverjum fylkja Bandaríkjanna eru enn til staðar lög gegn sódómum. Er það ekki eitthvað slíkt sem verið er að ræða um?

Aha segir þú, stúlkur sem er rænt og neyddar út í vændi eru fórnarlömb en þá segi ég aha til baka og bendi á að ég var bara að tala um siðgæði í þessari fyrri merkingu og hins vegar það að til eru lög sem banna mannrán og nauðavændi (vona ég).

birgir.com - 06/10/03 18:37 #

Siðgæði versus siðferði, kannski. Kannski lögin, eins og trúarbrögðin, þjóni siðFERÐINU, sem þá mætti skilgreina sem hegðun, en sú merking sem birtist í orðinu siðGÆÐI hér snúi að skoðunum manna til siðferðismála.

Og þá snýr spurning í raun að því hvort lögin eigi að vera tæki til að móta bæði skoðanir og hegðun manna eða aðeins hegðunina. Lög sem ætlað er að móta skoðanir eru eitthvað sem mér þykir frekar svona óhugnanlegt og Orwellískt (thought crimes) og sé um slík að ræða held ég að mér sé unnt að bæta mér í tveggja manna hópinn ykkar.

En eru þessi lög sem um er rætt hér slík lög? Nú læt ég alveg liggja á milli hluta hvort mér þykja þau heimskuleg eða snjöll, en velti fyrir mér hvort þeim sé ætla að móta siðgæði manna fremur en setja ákveðinni hegðun skorður. Mér sýnist helst vera um það að ræða að fæla menn frá því að leigja sér vændiskonu, því þar með séu þeir búnir að brjóta lög. Þetta hefur ekkert með það að gera hvort þeim megi finnast gleðikonur girnilegar eða hvort þeir eigi að hafa á þeim viðbjóð.

Hins vegar ættu þau að verða til þess að hvetja konur fremur en letja til að stunda þessa atvinnugrein, því nú ber svo við að iðjan hefur engin lögbrot í för með sér (heldur aðeins það að aðrir eru hvattir til lögbrota).

Ef lagasetningu sem þessari er ætlað að móta siðgæði, hvernig sér fólk þá fyrir sér að það mótist? Mun körlum finnast það á einhvern hátt ósiðlegra að leigja sér mök en fyrr? Eða er meiningin kannski sú að konum verði gert auðveldara fyrir en áður að fordæma slíka hegðun karla, nú þegar hún er orðin lögbrot?

Ég held ég sé ekkert að fella dóma strax, þetta er greinilega margslungið mál.

birgir.com - 06/10/03 22:01 #

En auðvitað ætti þetta að vera öfugt hjá mér - siðgæði að tákna hegðunina og siðferði hugsunarháttinn. Það gefur orðabókin a.m.k. til kynna.