Örvitinn

Vændi vændi vændi

Allt bendir til að vændisfrumvarpið svokallaða verði samþykkt í þinginu. Þetta gerist þrátt fyrir að ástandið í Svíþjóð hafi versnað en ekki batnað, meðal annars hefur vændi aukist þar undanfarið. Það furðulega í þessu máli er að stuðningsmönnum frumvarpsins virðist alveg sama um það! Ég hélt að þetta fólk væri að leggja þetta frumvarp fram til að bæta eitthvað. En svo virðist ekki vera, því ef þau væru virkilega að stefna á betra ástand myndu þau hika nú þegar rannsóknir frá Svíþjóð sýna að ekki er allt jákvætt við Sænsku leiðina.

Af hverju fer svona mál þá rakleitt í gegnum þingið? Ég tel að það sé vegna þess að um þessar mundir eru nornaveiðar í gangi á Íslandi. Sá stjórnmálamaður sem vogar sér að vera ósammála feministafélaginu í þessum málum má eiga von á massívu skítkasti. Femínistafélagið mun ekki kalla manninn nauðgara beint, en fulltrúar þeirra munu fara ansi nálægt því í opinberri umræðu.

Takið eftir því, næst þegar þið hlustið á rökræður um þessi mál, að þegar einhver gefur í skyn að hugsanlega sé þetta mál flóknara en feministar vilja meina - þetta sé hugsanlega ekki rétt leið, mun innan skamms vera talað um að þeir sem séu á móti þessu vilji kaupa allt og alla, allt eigi að vera til sölu og svo framvegis. Það er ekki sagt beint út, jafnvel sérstaklega tekið fram að ekki sé átt við þann sem rökrætt er við. En ásökuninni er kastað fram og hún látin standa.

Þetta er svipuð taktík og notuð er í klámumræðunni, þar sem aldrei er talað um klám eitt og sér, heldur klám og ofbeldi eða klám og barnaklám. Ástæðan er einföld, flestir eru ekki á móti klámi per se, allir eðlilegir menn eru á móti ofbeldi og barnaklámi. Að sama skapi er umræðan um vændi yfirleitt alls ekki um vændi, heldur vændi og ofbeldi, vændi og mansal, vændi og eiturlyf, vændi og kúgun kvenna. Fáir hafa í raun eitthvað á móti því að fólk geri það sem það vill, enda gengur málstaður feminista út á að fólk sé neytt út í vændi. Í nýjasta dæminu, þar sem íslensk vændiskona og eiginmaður hennar voru dæmd fyrir vændi komumst við að því að konan var neydd út í harkið. Karlinn hótaði nefnilega að fara frá henni ef hún gerði það ekki. Helvískur.

Ef við myndum finna einstakling sem kæmi fram og virtist heilbrigður á allan hátt en hefði afskaplega gaman af því að stunda vændi, þætti þetta gefandi og skemmtilegt starf sem þar að auki væri vel borgað, væri það þá ekki bara hið besta mál? Nei, ég er hræddur um að ákveðinn hópur fólks myndi aldrei samþykkja það.
Því þetta snýst þegar allt kemur til alls nefnilega líka um púrítanisma. Kynlíf er heilagt, á bara að stunda í hjónasæng og helst ekki sér til skemmtunar. Þetta viðhorf, eins bjánalegt og það er, er ótrúlega algengt. Stærstu trúarhópar heims boða það og stjórnendur voldugasta ríkis veraldar boða það.

Klám og vændisumræðan snýst líka um viðhorf til kynlífs. Í þeim löndum þar sem reglur um klám og vændi eru strangastar eru reglurnar um kynlífshegðun almennra borgara það líka.

Þetta raus hafði engan ákveðinn tilgang.

feminismi
Athugasemdir

Salvör - 02/11/03 18:47 #

Var að velta fyrir mér fullyrðingu þinni: "Í þeim löndum þar sem reglur um klám og vændi eru strangastar eru reglurnar um kynlífshegðun almennra borgara það líka." Er þetta satt? Endilega deildu því með okkur ef þú veist eitthvað sem styður þessa fullyrðingu. Mér finnst þú ættir frekar að skoða þetta út frá því hverjir stunda vændi... í nánast öllum löndum er þetta talið fyrirlitleg iðja og það er fólk sem á um sárt að binda, fátækt fólk eða fólk sem sér ekki aðra möguleika til að framfleyta sér sem stundar vændi. Í mjög mörgum tilvikum fólk sem er að gera þetta til að fjármagna fíkniefnaneyslu sína eða einhverra pimpa.

Matti Á. - 02/11/03 21:34 #

Er þetta satt? Endilega deildu því með okkur ef þú veist eitthvað sem styður þessa fullyrðingu.

Nei, ég nenni því ekki enda er þetta aukaatriði í þessum pistli. Ég tel þetta vera satt og tel mig geta fært rök fyrir því. Endilega deildu því með okkur ef þú telur þig geta fært rök fyrir öðru.

Mér finnst þú ættir frekar að skoða þetta út frá því hverjir stunda vændi..

Sniðugt hvernig þú hundsar aðalatriði pistilsins. Eins og þú veist benda rannsóknir til þess að vændi hafi aukist í Svíþjóð. Það skiptir engu máli hverjir stunda það eða hversu slæmt þeir hafa það í þessari umræðu. Feministum hefur tekist að lobbía ákveðnu frumvarpi í gegnum þingið (allt bendir til þess) án þess að geta fært rök fyrir því að það muni laga ástandið.

Omar - 03/11/03 12:17 #

Mikið er ég nú sammála þér þarna. Það versta er að það þorir enginn að tala gegn þessu eða benda á galla þessa frumvarps vegna þess að ákveðnir hópar munu hefja opinbert skítkast og vesen.

"Mér finnst þú ættir frekar að skoða þetta út frá því hverjir stunda vændi.."

Strákar oftast, til þess að redda dópi og víni.

Inga - 28/01/04 14:25 #

Athygliverður pistill og takk fyrir hann. Sammála því að það mætti sannarlega kanna hvort ekki séu til heitar konur sem einfaldlega hafa gaman af því að stunda kynlíf og kjósi það fremur en búðarkassa í verslun eða skúringar. Staðreyndin er sú að þar sem vændi er sýnilegt og löglegt þykir það líka nokkuð sjálfsagt í það minnsta af megin þorra samfélagsins sem við það býr. Gætum við ekki líka velt upp þeirri spurningu hvort hjónabönd þeirra giftu manna sem nyta sér slíka þjónustu haldi lengur en hin. Hvað um það, endalaust má velta sér upp úr vændisumræðunni, en er ekki tímabært að taka á vandamálinu þar sem það er til staðar og hjálpa þeim sem eiga bágt og eru neyddir í slíka starfsemi en lofa þeim að vera í friði sem hafa gagn og gaman af því, ekki efast um að sá möguleiki sé í stöðunni.