Örvitinn

Hlutleysi - eða hvað?

Í umræðum um kristniboðsgrein mína á vantrú gerði Halldór Elías athugasemd við eftirfarandi málsgrein.

Að sjálfsögðu mun ekki nokkur trúmaður hlusta á þetta röfl. Þeir telja nefnilega flestir að hlutleysi í trúmálum, það að boða enga trú, sé það sama og að boða trúleysi. Þetta er náttúrulega glórulaus vitleysa, en það þýðir lítið að benda þessu fólki á það.

Ég ætla að gera tilraun til að velta hlutleysishugtakinu fyrir mér og skoða hvort það geti verið að ég og Halldór séum að tala um sitthvorn hlutinn. Við höfum rætt þetta örlítið áður hér í þessu bloggi í athugasemdum við greinina Fyrirgefning Gvuðs
Halldór segir í athugasemd sinni á Vantrú:

Fyrir mér gildir það sama þegar kemur að trú. Annað hvort aðhyllumst einhverja trú eða ekki. Þar er ekki pláss fyrir hlutleysi, ekki fremur en fyrir dómara í knattspyrnuleik.

Hlutleysiskrafa mín kemur upp vegna kristnifræðikennslu í leik- og grunnskólum. Ég tel að þessi kennsla sé oft í raun trúboð en ekki hlutlaus umfjöllun um trúarbrögð. Umfjöllun um leikskólapresta má finna hér

Ég tek undir með Halldóri, það er ekki hægt að vera hlutlaus í trúmálum, stjórnmálum eða fótbolta! Annað hvort trúir maður eða ekki. En það er heldur ekki það sem ég er að tala um.

Það er ekki þarmeð sagt að krafan um hlutlausa kennslu sé óraunhæf eða ósanngjörn. Enginn er að fara fram á að þeir sem taka að sér kennslu séu fullkomlega hlutlausir í skoðunum á því sem þeir kenna. Hins vegar geri ég þá kröfu að þau haldi skoðunum sínum til hlés að mestu leiti. Trúaður maður getur því kennt trúarbragðarfræði í grunnskóla, sagt frá því að ýmsir trúi því sem stendur í Biblíunni þ.m.t hann sjálfur, sagt frá því sem þar stendur og svo framvegis svo lengi sem hann kennir þetta ekki sem heilagan sannleik. Þetta vantar í dag, trúaðir einstaklingar sjá að stórum hluta um þessa kennslu og gera engan greinarmun á staðreyndum og skoðunum. Prestarnir sem fara í leikskólana eru mættir þangað til að boða kristna trú.

Nákvæmlega það sama gildir um pólitík, að sjálfsögðu hafa flestir kennarar skoðanir á stjórnmálum (játum það bara, þetta eru kommar upp til hópa :-P), ég geri ekki þá kröfu til þeirra að þeir séu hlutlausir. En þegar kemur að því að ræða samfélagsmál við nemendur sína þurfa þeir að gæta þess að koma hinni hliðinni að og færa rök fyrir henni. Tökum dæmi, kennari nokkur er umhverfissinnaður Kommúnisti, nýkominn af landsþingi, uppveðraður og sannfærður um að nú styttist í byltinguna. Í kennslustund er rætt um virkjanamál. Lélegur kennari flytur ræðuna sína, þusar um umhverfishryðjuverk, fasista og erlenda auðhringi. Góður kennari gerir það svosem líka en reynir um leið að halda aftur af sér, en hann fjallar einnig um hina hlið málsins, jafnvel þó honum þyki það óþægilegt. Hann hefur fyrir því að benda á þau rök sem pólitískir andstæðingar hans setja fram og hann passar sig á að gera ekki upp á milli þeirra að því marki sem hægt er að ætlast til.

Er þetta ósanngjörn krafa? Er hlutlaus framsetning ómöguleg og á því ekki að gera nokkra tilraun til að nálgast hana? Ég tel að með vönduðum vinnubrögðum sé þetta mögulegt. Ég tel þetta alls ekki eiga við um kristnifræðikennslu í grunnskólum í dag, hvað þá trúboð í leikskólum. En ég held að þetta sé hægt ef viljinn er fyrir hendi.

kristni
Athugasemdir

Skúli - 10/11/03 11:11 #

"Trúaður maður getur því kennt trúarbragðarfræði í grunnskóla, sagt frá því að ýmsir trúi því sem stendur í Biblíunni þ.m.t hann sjálfur, sagt frá því sem þar stendur og svo framvegis svo lengi sem hann kennir þetta ekki sem heilagan sannleik."

Hugmyndin á bak við kristnifræðikennsluna í grunnskólum er sú að þarna sé um að ræða ákveðinn siðferðis- og menningararf sem kynslóðunum sé gagnlegt að þekkja og skilja.

Það er því grundvallaratriði að gæta fyllstu hlutlægni og raunar forsenda fyrir þessari kennslu að kennarar séu ekki að boða trú eða predika yfir börnunum. Ef sú er raunin þarf að stokka þetta kerfi upp frá grunni. Höfundar nýjasta kristnifræðiefnisins ganga a.m.k. út frá þessu þegar þeir hafa kynnt bækurnar.

"Þetta vantar í dag, trúaðir einstaklingar sjá að stórum hluta um þessa kennslu og gera engan greinarmun á staðreyndum og skoðunum."

Já, skólarnir eru ekki ekki réttur vettvangur fyrir einhliða trúboð. En er það rétt að trúað fólk veljist f.o.f. til kristnifræðikennslu?

Man reyndar eftir því eins og þú segir sjálfur að í menntaskóla sat maður undir stöðugri innrætingu á skoðunum kennaranna í ýmsum málum - ekki síst neikvæðni í garð kirkju og kristindóms. Þetta pirraði mig í þá daga og gerir enn því þetta ber vott um lélega fagmennsku.

Sjálfur hef ég kennt námskeið í menntaskóla sem bar heitið "trú og skynsemi". Við vorum h.v. tveir sem kenndum - með mér var trúlaus heimspekingur - svo við gátum óhræddir boðað skoðanir okkar vitandi að þær fengju um leið ærlega gagnrýni!

"Prestarnir sem fara í leikskólana eru mættir þangað til að boða kristna trú."

Reyndar rétt - en að undangengnu samþykki foreldranna. Menn eru þó ekki að lauma sér inn í námsskrá. Svo finnst mér persónulega ekkert að því þótt prestur sé fenginn í heimsókn fyrir jólin eins og alsiða er eða að börnin setji upp helgileik í kirkjum ofl. Slíkt geta menn vel litið á sem fallega hefð og þótt jólin eigi sér heiðnar hliðstæður eru þær yfirlýst trúarhátíð.