Örvitinn

Ég er föndurfatlaður

Ég skrapp í leikskólann til Kollu og Ingu Maríu í dag og föndraði með þeim. Varla þarf að taka fram að ég er gjörsamlega hæfileikalaus á þessu sviði.

Ég settist við borð með Kollu fyrst, Inga María var sofandi og við byrjuðum að föndra. Eða réttara sagt, Kolla byrjaði að föndra, ég leyfði henni að stjórna þessu til að byrja með. Ég fór og vakti Ingu Maríu skömmu eftir að ég kom og leyfði henni að vera með okkur.

Við vorum nokkrir pabbarnir sem vissum ekkert hvað við áttum að gera, sumar mömmurnar voru reyndar alveg úti á þekju líka. En aðrar voru alveg með þetta á hreinu og föndruðu af miklum móð. Reyndar komust börnin þeirra lítið að, enda hefðu þau bara skemmt föndrið! Ég hafði semsagt ekki hugmynd um hvað ég átti að gera, reyndi að sjá hvað hinir voru að gera og hermdi svo eftir. Illa.

Ég ætla að reyna að koma þeim skilaboðum til leikskólans að næst mættu fóstrurnar taka örlítinn þátt í þessu, sitja við borðin og aðstoða glórulausa foreldrana, jafnvel vera búin að útbúa leiðbeiningar og koma með hugmyndir. Því þó þeim finnist föndur ósköp einfalt og lítið mál er til fólk eins og ég sem hefur ekki gert neitt þessu líkt síðan í barnæsku.

Stelpurnar voru sáttar við daginn held ég, ég vona að minnsta kosti að þeim hafi fundist gaman að fá pabba sinn í heimsókn í leikskólann í tæpa tvo tíma. Ég held að þær hafi meira að segja verið ánægðar með föndrið sitt.

dagbók
Athugasemdir

sirry - 04/12/03 10:17 #

Eru Inga og Kolla saman á deild ?

Matti Á. - 04/12/03 10:27 #

Nei, en þær fengu að vera saman í foreldraföndrinu!