Örvitinn

Mig langar í nýja stafræna myndavél

c2000.gif

Mig langar í nýja myndavél. Gamla Olympus C-2000 vélin hefur enst vel, keypti hana haustið '99 - eftir að við týndum filmuvélinni okkar. Við áttum von á barni og einhvern vegin tókst mér að sannfæra Gyðu að það væri stórsniðugt að fjárfesta í rándýrri stafrænni myndavél. Ég held að þetta hafi verið mjög góð fjárfesting. Fékk vélina á ansi góðu verði, bara vélin kostaði rúmlega 100.000.- út úr búð þá en ég borgaði mun minna fyrir hana ásamt aukadóti; hleðslutæki og rafhlöðum, minniskorti, rafmagnssnúru og tösku. Þessi myndavél hefur enst vel, upplausin er ágæt og fín myndgæði. Hún er samt frekar hægvirk og takmörkuð að ýmsu leiti.

Ég hef verið duglegur við að taka myndir, við eigum þúsundir mynda en höfum fáar framkallað. Þegar okkur langar að skoða myndir setjumst við fyrir framan tölvuna og flettum í gegnum albúmin. Rosalega gaman að eiga mikið af myndum af stelpunum, geta séð hvernig þær hafa vaxið og þroskast.

Ég er ekki mikill myndasmiður, það verður seint sagt. Ég hef samt gaman af því að fikta og prófa mig áfram, hef stundum slysast til að taka ágætar myndir.

En mig langar semsagt í nýja vél og er farinn að líta í kringum mig. Það er ýmislegt sem draumvélin þarf að hafa. Einna helst langar mig í stafræna SLR myndavél, þær hafa verið ansi dýrar hingað til og í raun einungis fyrir atvinnumenn eða þá sem eiga sand af seðlum en eitthvað er að birta til í þeim efnum. Ég má ekki eyða mjög miklu í nýja vél en hef þá smá fjárheimild.

Ég hef verið mjög ánægður með vélina mína og er því dáldið spenntur fyrir nýjustu útgáfunni í þeirri línu, C-5060. Eitt af því sem þá vél prýðir er að stuttur tími líður frá því maður smellir af þar til myndavélin bregst við, það vill bera á þvi með stafrænar myndavélar að dálítill tími líður þarna á milli. Einnig er linsan á nýju vélinni ansi víð, þ.e.a.s. maður nær meiru á mynd - breiðari ramma en fæst með flestum öðrum stafrænum vélum, linsan er ekki jafn björt og í eldri módelum, þannig að maður þarf meiri birtu til að ná góðum myndum án þess að nota flass. Hún notar ekki sömu tegund af rafhlöðum og vélin mín, mér finnst það mikill kostur að geta keypt venjuleg AA batterí ef hleðslurafhlöðurnar tæmast eða gleymast. Auka rafhlaða í þessa vél kostar einhvern 5-10 þúsund kall held ég en á móti kemur að það er víst hörkuending á þessum rafhlöðum. Maður verður að eiga tvö sett af hleðslurafhlöðum.

Einn af þeim fítusum sem ég vill endilega hafa er vídeó upptaka - vélin mín gefur ekki kost á því og við söknum þess að geta ekki tekið upp smá myndbandskeið af stelpunum. Ég tími ekki að kaupa mér sér vídeótökuvél, myndi aldrei nota hana það mikið. Olympus C-5060 vélina tekur víst nokkuð góð videó í upplausninni 640x480 - 15 rammar á sekúndu með hljóði svo lengi sem pláss er á minniskorti.

eos200d

Ég er dáldið spenntur fyrir nýju Canon vélinni, EOS 300D, þarna er komin SLR myndavél á frekar sanngjörnu verði, kostar rétt rúmlega 100.000.- með linsu hér á landi. Ég hef ekki fjárheimild fyrir slíkri upphæð en get kannski fengið einhvern til að kaupa hana fyrir mig í útlöndum. Ég held að fyrir svona áhugamenn eins og mig geti þetta verið spennandi kostur. Eini gallinn sem ég sé við þessa vél er að ég held að það sé ekki hægt að taka vídeóbúta á hana en þarna erum við náttúrulega komnir með myndavél í hendurnar. Maður getur haft töluvert mikla stjórn á myndatökunni og fiktað í flestum stillingum.

Ég ætla að skoða þetta aðeins betur - sjá hvað hentar mér. Hvort ég eigi að halda mig við sömu línu eða að fá mér meiri myndavél.

græjur
Athugasemdir

Halldór E. - 05/12/03 23:47 #

Svo ég skipti mér af fleiru en trúmálunum. Ég myndi halda að aðalgallinn við SLR vél væri stærðin. Þ.e. um leið og notast er við svona vél, þá breytist hlutverk notandans úr þátttakanda í ljósmyndara. Reyndar upplifði ég þetta sem galla við Olympus C-2000, þegar ég var að velja mér vél á sínum tíma og nota Canon Ixus í digital myndatökur. Gæði linsu og ljósop skipta nefnilega minna máli t.d. í barnamyndatökum, en möguleikinn á að geta alltaf verið með vélina, án þess að hún sjáist. Annars nota ég filmuvél í "sparitökur" og gæti ekki hugsað mér að sleppa filmunni þegar það á við.

Matti Á. - 05/12/03 23:51 #

Ef ég ætti sand af seðlum myndi ég líka kaupa mér litla vasamyndavél :-)

Ef maður notar skjáinn getur maður oft verið ansi lúmskur í barnamyndatökunum, þannig að krakkarnir verða ekki varir.

Ég á aldrei eftir að nota filmumyndavél framar :-)

Gummi Jóh - 06/12/03 00:42 #

Sko,

sem áhugamaður að þá finnst mér skipta ofsalega miklu máli að eiga litla vél sem tekur góðar myndir og ekki tekur of mikið pláss uppá tækifærismyndir.

En svo kemur líka að það er virkilega gaman að taka „alvöru" myndir eins og filmuvélar t.d. geta tekið. Það er einhvern vegin svo langt í það að stafrænar vélar toppi filmuvélar.

Ég á Canon Ixus síðan snemma árið 2000 og ég hugsa að ef ég myndi uppfæra að þá myndi ég bara taka nýrri týpu af Ixus því að stærðin er eitthvað sem skiptir máli, bara í annari merkinu. Það skiptir mig miklu máli að vélin er ekki fyrirferðamikil og ég get tekið hana með í hvaða ferðalag sem er og hún er meira bara með sem aukahlutir en ekki eitthvað sem kannski stjórnar ferðinni því ég finn alltaf fyrir að hún sé með, æ þið fattið hvað ég meina.

Matti Á. - 06/12/03 12:27 #

Ég held að eina lausnin á þessu máli sé að kaupa líka einhverja litla ódýra vél sem maður er alltaf með á sér. C-2000 vélin er ekki mjög stór, hún passar í jakkavasa en það fer samt frekar mikið fyrir henni - vél eins og Ixus er málið.

Er ekki stutt í það að gemsar verði með ágætis myndavélum, þetta er hálfgert drasl í dag, en er ekki stutt í að maður geti keypt síma með 2MB upplausn sem tekur minniskort. Það væri kannski hentugasta lausnin.

Einar Örn - 06/12/03 18:33 #

Þú gætir líka farið milliveginn og keypt þér Powershot G-línuna. Ég á G2 vélina og mér finnst hún vera algjört æði. Á fyrir EOS 10 filmumyndavél en tímdi ekki að kaupa mér SLR digital vél í fyrra.

G-línan er reyndar pínku stór en hún býður uppá ótrúlega skemmtilega möguleika, það er ef þú ert tilbúinn að fikta með ljósop, hraða og slíkt. Hef verið alveg ofboðslega ánægður með myndirnar.

Ég er líka mikill áhugamaður um ljósmyndun. Þetta er spurning um budget. Ef ég ætti að kaupa eina vél, myndi ég kaupa mér G-línuna frá Canon, þar sem hún sameinar það besta úr báðum heimum. Hins vegar ef peningar væru ekki vandamál myndi ég skella mér á SLR og svo pínku litla IXUS.

Gyða - 06/12/03 19:17 #

Ég fer að verða hrædd við þessar umræður ykkar. maður gefur manninum fyrir nýrri vél og allt í einu er hann farinn að spá í að kaupa tvær!!! :-)

Matti Á. - fullur - 07/12/03 04:06 #

"spá i að kaupa tvær" ..

hahahha, bara tvær kona góð, ahahaha, nei, fjöldi véla verður keyptur, bæði handhægar og ekki og þær munu allar kosta hundruði, já hund ruð i þúsunda króna...

Allt til þess að ég, ója ég. Ha hver? Ég. Ekki satt. Hver þá? Það var ég!

Allt til þess að ég geti gert eithvað sem ég man ekki alveg hvað var, en er eflaust ógeðslega kúl.

Jæja, á maður ekki bara að fara að leggja sig :-P

Matti Á. - 07/12/03 12:00 #

Ég segi nú bara að það er gott að ég kommenta í mína dagbók en ekki annarra þegar ég er fullur :-)