Örvitinn

Kirkjusókn á aðventu - mbl.is

Hallgrímskirkja

Þjóðkirkjumenn eru í vörn um þessar mundir og eru því duglegir að stæra sig af öllu því sem þeir geta. Reglulega birtast greinar um góða Kirkjusókn og tölurnar líta nokkuð vel út, þar til maður skoðar þær nánar.

Níu þúsund gestir í Hallgrímskirkju á aðventunni

Það stefnir í það að um níu þúsund manns komi í athafnir, tónleika og aðrar uppákomur í Hallgrímskirkju í Reykjavík fyrstu þrjár vikur aðventunnar. Segir það nokkra sögu um það gríðarmikla starf sem fer fram þessari kirkju sem öðrum á aðventunni.

Þegar tölurnar eru skoðaðar sjáum við að um 80% gesta eru mættir á tónleika eða í leikskólaferð en eins og við vitum eru öll leikskólabörn dregin í Kirkju á aðventunni.

Prófum að skoða málið frá annarri hlið. Hvað ætli fólk myndi segja ef Þjóðleikhússtjóri færi að stæra sig af því hversu margir hefðu mætt í Þjóðleikhúsið undanfarið. Þegar svo væri rýnt í tölur kæmi í ljós að um 80% þeirra sem komu í leikhúsið voru alls ekki mætt þangað til að horfa á leikrit á vegum Þjóðleikhússins. Yrði ekki hlegið að manninum?

13:45

Moggin er með frétt um þetta og ég sé ekki betur en þeim takist að ýkja fjölda þeirra sem mæta til að iðka trú verulega.
Ingólfur Hartvigsson, framkvæmdastjóri Hallgrímskirkju, segir á heimasíðu Þjóðkirkjunnar að í aðventumessur hafi mætt í kringum 960 manns í hverja messu
Á kirkjuvefnum sem ég vitnaði í hér að ofan stendur aftur á móti.
Að sögn Ingólfs Hartvigssonar framkvæmdastjóra Hallgrímskirkju hingað til mætt í aðventumessur í Hallgrímskirkju í kringum 960 manns
Það er mikill munur á því hvort það hafa mætt um 960 manns í hverja messu eða hvort samtals hafa mætt 960 manns. Ég veit ekki hvort er rétt en þykir síðari talan líklegri miðað við aðrar tölur í greininni. Ef einhver veit betur má endilega leiðrétta mig.
Mér finnst þetta svipað og að stæra sig af því hvað maður fær mörg hits á heimasíð í stað þess að horfa á heimsóknir?

kristni
Athugasemdir

Már Örlygsson - 19/12/03 12:38 #

Það yrði bara hlegið að þessum ímyndaða leikhússstjóra ef hann héldi því fram að þessi mikli fjöldi hefði horft á leikrit.

Í tilfelli kirkjunnar þá setja þeir þessa fjöldatölu fram sem sönnun þess að kirkjunnar hús séu í notkun og séu virk í menningarlífi landsins - og eins og tölurnar sýna þá er það alveg satt.

Mér sýnist þú vera að saka þá um að villa um fyrir fólki með þessum tölum með því að gefa í skyn að tölurnar séu einhver mælikvarði á trúarhita Íslendinga. Ég fæ ekki með nokkru móti séð að þeir séu að gera það.

Matti Á. - 19/12/03 13:15 #

Það verður að skoða þetta mál í samhengi.

Síðustu vikur hefur verið í gangi herferð sem miðar að því að koma í veg fyrir aðskilnað ríkis og Kirkju. Hún lýsir sér í tíðum greinarskrifum presta þjóðkirkjunnar þar sem þeir lýsa því gríðarlega starfi sem Þjóðkirkjan vinnur. Einnig hafa þeir lagt mikla áherslu á Kirkjusókn.

Í hvert sinn sem þeir hefja upp raust sína minnast þeir einnig á að um 90% Íslendinga eru í Þjóðkirkjunni. Þegar bent er á að sú tala sé komin til útaf skylduáskrift draga þeir næst upp úr hattinum tölur um Kirkjusókn sem þeir kalla reyndar heimsóknir í Kirkju.

Þessi grein er bara einn liður í þessu, ég spái því að þegar líður á mánuðinn muni Karl Sigurbjörnsson biskup nota sem rökstuðning gegn aðskilnaði ríkis og kirkju hversu góð mæting er í kirkjurnar.

Ég tel að eins og Þjóðleikhússtjórinn ímyndaði, séu Þjóðkirkjumenn einmitt að stæra sig af mætingu þegar staðreyndin er sú að mætingin kemur þeim lítið við. Eru einhverjar líkur á að fólk myndi hætta að mæta á tónleika ef þeir væru haldnir annarsstaðar en í Kirkju, t.d. tónleikahúsi?

Einnig þætti mér áhugavert að sjá hversu margir einstaklingar eru á bak við þær rúmlega eitt þúsund heimsóknir sem skilgreina má sem trúariðkun. Ég giska á að þeir séu 200-400.

Halldór E. - 19/12/03 14:29 #

Blessaður, fyrir það fyrsta Morgunblaðið tekur vitlaust upp af kirkjan.is með messusóknina, geri ég ráð fyrir. Eins er ég sammála þér að kirkjuheimsóknir í desember eru ekki góður mælikvarði á kirkjusókn almennt, enda heimsækja kirkjuna sem ég tilheyri, líklega um 50% fleiri í desember en búa í sókninni. Ég tel tölurnar hins vegar skipta máli, ekki þó vegna aðskilnaðarumræðunnar, enda er ég þar á sama máli og þú, á ólíkum forsendum þó. Það er nefnilega mikilvægt fyrir sjálfsmynd kirkjunnar að átta sig á hversu margir notfæra sér þjónustu hennar og/eða húsnæði. Eins og það er mikilvægt fyrir Þjóðleikhússtjóra að vita hversu margir koma í húsið, það er alveg jafn mikilvægt eins og að vita hversu margir koma á leiksýningar þjóðleikhússins. Hér er um að ræða tvenns konar tölulegar upplýsingar sem hafa óbein tengsl og útskýra tvo mismunandi hluti. Það er ekkert slæmt, ljótt, neikvætt eða vitlaust við það.

Matti Á. - 19/12/03 14:33 #

Það er ekkert slæmt, ljótt, neikvætt eða vitlaust við það.

Neinei, það er nokkuð til í því sjónarhorni. En ég má alveg láta þetta pirra mig ;-)