Þurfa krakkar að trúa á jólasveina?
Mér þykir merkilegt hversu mörgum er heitt í hamsi útaf þessu jólasveinamáli í Idol. Fyrir þá sem ekki vita, þá sagði einn keppandinn, Anna Katrín, frá því þegar hún hætti að trúa á jólasveininn eftir að hún stóð ömmu sína að því að gefa sér í skóinn. Margir horfa á þetta með börnunum sínum og eru reiðir út í Stöð2 fyrir að setja þetta í lofið, en viðtalið var ekki í beinni og því hefði verið hægt að klippa þetta atriði út. Einhverjir foreldrar lentu því í þeirri erfiðu stöðu að krakkarnir fóru að efast fyrir framan sjónvarpið.
Ég er að spá, ef krakkar eru nógu gamlir til að missa trúna á jólasveininn útaf viðtali eins og þessu, er þá ekki bara kominn tími til að þau hætti að trúa á sveinana? Ég viðheld þessari trú á mínu heimili en þegar mín börn fara að efast ætla ég ekki halda áfram að blekkja þau. Efi er dýrmætur hæfileiki og það er slæmt þegar foreldrar bæla hann niður á sama tíma og krakkar eru að læra að beita honum. Það versta sem ég hef heyrt er þegar foreldrar hætta að gefa krökkum í skóinn þegar krakkarnir hætta að trúa. Hvaða geðbilun er það?
Mörgum finnst mikilvægt að viðhalda ævintýrinu, halda því fram að lífið sé skemmtilegra og merkilegra ef við höldum í lygina. Þetta minnir mig á röksemdarfærsluna fyrir Gvuðstrú í sögunni af Pí.
Ég er ekki að segja að krakkar megi ekki trúa á jólasveininn, þau mega það alveg og þau mega líka trúa á önnur hindurvitni eins og t.d. Jesú. En þegar þau fara að efast finnst mér að við eigum að segja þeim sannleikann, því staðreyndin er sú að sannleikurinn er alveg nógu merkilegur í huga barnsins.
Mér finnst einnig slæmt að hugsa til þess að krakkar á grunnskólaaldri séu jafnvel að rífast við skólafélaga sína um tilvist jólasveina, koma svo heim og segja "Jói sagði að jólasveinninn væri ekki til"
en foreldrarnir bregðast við með því að staðhæfa að Jói hafi rangt fyrir sér og jólasveinninn sé víst til. Hverjum er greiði gerður með því.
Jólasveinasagan er reyndar ekki öll mjög falleg. Grýla og Leppalúði eru þarna líka, tilbúin að éta óþekka krakka og jólakötturinn mætir á svæðið og étur þæga krakka sem eru svo illa stödd að fá ekki nýja flík. Jólakötturinn er væntanlega í boði barnafataverslana. Þegar mín börn spyrja um drauga og aðrar ófreskjur segi ég þeim að þær séu bara til í ævintýrum, það sama gildir um Grýlu, Leppalúða og jólaköttinn en jólasveinarnir fá að lifa enn um sinn enda í þeirra huga góðir karlar. En það kemur að því að þeir flytja líka yfir í ævintýraheiminn þar sem þeir eiga heima.
Óli Gneisti - 21/12/03 21:25 #
Meðan ég var að horfa á þetta þá datt mér svona í hug að þetta hefði verið betra ef hún hefði sagt að guð væri ekki til.
Matti Á. - 23/12/03 09:24 #
Þessi grein er komin á vantrú, vinsamlegast setjið almennar athugasemdir þangað en ef þið viljið megið þið alveg pósta hér.
Greinin hefði náttúrulega átt að fara þangað strax. Málið er að ég skrifaði hana beint inn í dagbókina, hún varð til um leið og hún fór inn og svo lagaði ég hana og endurbætti eftir að hún fór í loftið. Ég þarf að temja mér að pæla aðeins í hlutunum og skella trúar og efahyggju greinum beint inn á vantrú.