Örvitinn

Barasta komið nýtt ár

kampavínsglös

Vorum heima hjá foreldrum mínum þessi áramót. Tengdaforeldrar mínir voru þarna líka og áttum við ósköp huggulegt kvöld. Borðuðum hamborgarahrygg, röltum á litla brennu fyrir ofan Valbjarnarvöll í Laugardal og horfðum á skaupið. Mér fannst það ekki fyndið, kannski tvö-þrjú brosleg atriði en hinum þótti það sniðugt. Ég held að gæði skaupsins séu í öfugu hlutfalli við fjölda söngatriða, a.m.k. finnst mér þau sjaldan ná því að vera brosleg.

Stelpurnar skemmtu sér vel, Áróra eyddi stórum hluta kvöldsins í herberginu hans Didda að horfa á sjónvarið, Kolla og Inga María voru sprækar til tvö en sofnuðu svo báðar um leið og þær voru komnar í bílinn. Vonandi sofa þær vel frameftir. Ég drakk vín með matnum en hætti svo, ákvað að vera bílstjóri kvöldsins. Er að drekka bjór núna til að bæta það upp.

Ég nenni ekki að spá mikið í nýju ári, ýmislegt mun gerast og maður verður bara að lifa með því. Ég er þokkalega bjartsýnn á hið stóra samhengi hlutanna, held að heimur fari batnandi en ekki versnandi, skil ekki af hverju bölsýni nýtur svona mikilla vinsælda. Ætla að setja mér markmið á árinu en ætla ekki að kalla það áramótaheit nánar um það síðar.

Sit í sófanum og horfi á imbann, dæmigerð nýársnótt hjá mér síðustu átta ár. Æi, nýársnótt hefur svosem enga sérstöðu lengur nú þegar allir skemmtistaðir eru opnir fram eftir öllu.

Gleðilegt ár, vonandi verður fjórða ár aldarinnar þokkalegt fyrir okkur flest.

dagbók
Athugasemdir

Einar Örn - 01/01/04 15:54 #

Ok, þetta kemur ekkert þessari færslu við. Var bara að spá í hvaða "tag" þú notaðir til þess að email addressan birtist ekki. Ertu að nota MTCommentAuthorLink eða eitthvað annað? Ég er með en vil breyta því svo að email addressur birtist ekki en það á hins vegar að birtast tengill ef að fólk setur inn vefsíðu.

Matti Á. - 01/01/04 16:13 #

<$MTCommentAuthorLink show_email="0"$>

sirrý - 03/01/04 00:11 #

Gleðilegt Nýtt ár