Örvitinn

Skiptir meira máli hver segir en hvað sagt er?

Einn helsti vandi við netumræður er að oft skiptast menn í lið og eru þá gjarnan gagnrýnni á málstað þeirra sem ekki eru í þeirra liði. Hlutdræg hugsun er lúmskur andskoti og ég er alls ekki saklaus af henni.

Skoðið þetta litla samtal, náungi les samtal og fær þörf fyrir að tjá sig, ég hef klippt út það sem ekki tengist þessum pistli.

Ég skil ekki alveg umræðuna hér. Hvar er málið Matti, Birgir og co.?

Þetta er eins og ef ég neitaði að vera vinur ykkar en væri svo fúll yfir því að vera ekki boðið í afmælisveislu ykkar!

Það er satt hjá þér, þú skilur ekki umræðuna.

Nei, ég trúi ekki á partíið og því til lítils að ræða um löngun mína til að vera í því. Hér erum við aftur á móti að reyna að fá á hreint hverju þið trúið. Mér þykir það nefnilega frekar furðulegt að trúi veiti aðgang en ekki verkin.

Því leyfi ég mér að fullyrða að vandinn sé ekki að ég skilji ekki umræðuna heldur sá að þið gerið það ekki.

Þetta er tiltölulega saklaust að mínu mati. En stjórnandi umræðunnar er ekki ánægður og byrjar að að ávíta menn fyrir ómálefnalega umræðu, þó ekki bara út frá þessu broti, og strikar yfir það sem honum líkar ekki. Hvað finnst ykkur standa upp úr í textanum fyrir ofan?

Jú, það segir sig sjálft, "Það er satt hjá þér, þú skilur ekki umræðuna" er það eina sem fundarstjóri finnur að þessu. Aftur á móti er algjörlega sambærileg, ef ekki örlítið ákveðnari setning látin ótalin, "Því leyfi ég mér að fullyrða að vandinn sé ekki að ég skilji ekki umræðuna heldur sá að þið gerið það ekki."

Þetta er að mínu mati klassískt dæmi um hlutdrægan dóm, þar sem báðar hliðar eru vandlega skoðaðar en ekki metnar á sama grundvelli. Þó skal taka það með í myndina að ég er vafalítið hlutdrægur í málinu :-)

Ef ykkur langar til að skoða umræðuna sem vísað er í, með útstrikunum og alles, er hana að finna hér á annálnum hans Árna. Efast þó um að mörgum þyki þetta skemmtilegt.

ps. Mér finnst það snilld að Árni striki yfir v-ið í Gvuð og lol :-)

Ýmislegt
Athugasemdir

Árni Svanur - 05/03/04 18:33 #

Í þessu tiltekna dæmi mat ég það svo að þú værir meira að blammera Þorkel en útskýra afstöðu þína (sbr. næstu málsgrein þína). Það kann að hafa verið rangt hjá mér. Þá er einnig rétt að geta þess að á undan staðhæfingu Þorkels kom röksemdafærsla sem hún var ályktun af. Þú vitnar ekki til hennar í færslunni og lesandinn hefur því ekki sambærileg gögn til að meta ummæli ykkar beggja út frá.

En að gefa til kynna að ég hafi strikað yfir tiltekin orð í ummælum þínum eða annarra til að gera upp á milli manna og byggi í þeim efnum fyrst og fremst á því hver talar en ekki hvað er talað er rangt. Það sem fyrir mér vakti var að gagnrýna tiltekinn tjáningarmáta, þ.e. persónulegar árásir, og tiltekna orðnotkun, þ.e. notkun á of gildishlöðnum orðum. Og tilgangurinn var sá að fá fram umræðu sem beindist meira að málefninu og minna að mönnunum.

Þetta ætti raunar að vera nokkuð ljóst þeim sem hafa sig upp í að lesa færsluna og ummælin öll. En eins og þú segir, er kannski lítil skemmtun í slíku ;-)

Matti Á. - 05/03/04 18:49 #

Þá er einnig rétt að geta þess að á undan staðhæfingu Þorkels kom röksemdafærsla sem hún var ályktun af

Það mál vel vera en á eftir staðhæfingu minni, sem þú strikar út, kemur einmitt röksemdarfærsla.

Ef það vakti fyrir þér að gagnrýna tiltekinn tjáningarmáta, skiptir þessi röksemdarfærsla varla máli. Dæmið sem ég tek er af tveimur fullyrðingum sem eru fullkomlega sambærilegar. Einungis önnur er strikuð út.

Ég get ekki sagt annað en að mér finnist þú hafa farið offari í yfirstrikunum. Auðvitað er dálítið sætt að sjá guðfræðing krota yfir of gildishlaðin orð, en þið kollegarnir eruð stundum afskaplega fljótir að finna flísina þegar ykkur hentar.

"en viðbjóðslegt er það", "Það er satt hjá þér, þú skilur ekki umræðuna", "Æi góði besti slakaðu örlítið á", "þó hann geti reyndar líka bent til þess að þú hafir einfaldlega verið að snúa út úr skrifum mínum - en ég vill ekki gera þér upp svoleiðis ótuktarskap", "Þetta er ykkar trú strákar mínir, ekki mín, þannig að það þýðir ekkert að skamma mig þó þið fáið óbragð í munninn.", "Þorkell - slepptu því endilega að svara þessu, það virðist ekki vera nokkur vilji hjá þér að ræða þetta málefnalega."

Mér fannst þetta ekki gildishlaðið í því samhengi sem þetta var skrifað - en það er bara ég :-)

Árni Svanur - 05/03/04 19:29 #

Það mál vel vera en á eftir staðhæfingu minni, sem þú strikar út, kemur einmitt röksemdarfærsla.
Það er einmitt þess vegna sem mér finnst ámælisvert að þú látir ekki röksemdafærslu Þorkels fylgja með þegar þú setur mál þitt fram. Lesandi sem fylgir ráðum þínum og les hvorki færslu né ummæli - af því að þau er svo leiðinleg ;-) - getur af framsetningu málsins í færslu þinni vart dregið aðra ályktun en að þú hafir gagnrýnt Þorkel málefnalega og með rökum en hann ekki.

Ps. Fínt að hafa svona preview fítus :-)