Örvitinn

Reefer madness

reefer madness cover
Keypti þessa bók í fríhöfninni á leiðinni út og kláraði í fluginu heim.

Eric Schlosser, höfundur bókarinnar er þekktastur fyrir bók sína, Fast Food Nation - þar sem hann gagnrýnir skyndibitabransannn en ég hef ekki enn lesið þá bók.

Bókin Reefer madness and other tales from the american underground skiptist í þrjá hluta.

Í fyrsta hluta bókarinn er fjallað um stríðið gegn maríjúana. Schlosser tekur dæmi sem sýna út í hvaða vitleysu sú barátta er komin og að fórnarlömb stríðsins eru mun fleiri en fórnarlömb maríjúana sem er að mati ýmissra sérfræðinga sárasaklaust vímuefni (aðrir sérfræðingar eru á öndverðri skoðun).

Annar hluti bókarinnar fjallar um ólöglegt vinnuafl í ávaxta/grænmetisbransanum í Kaliforníu. Ólöglegir innflytjendur frá Mexíkó vinna við slæmar aðstæður og bág kjör, meðal annars við að tína jarðaber. Schlosser gagnrýnir í það hvernig reglur eru brotnar og fyrirtæki sem misnota þær hafa náð að bola út öðrum. Hann bendir á hvernig ólöglegir innflytjendur eru orðnir nauðsynlegir fyrir þennan bransa - allt er gert til að lækka kostnað, vinnuaðbúnaður og fleira skiptir engu máli.

Í þriðja hluta er fjallað um klámbransann og sér í lagi klámmógulinn Reuben Sturmann sem á tímabili stjórnaði lang stærstum hluta klámbransann í Bandaríkjunum og Evrópu. Bent er á mörg dæmi þess hvernig hinn móralski meirihluti hefur beitt ýmsum bolabrögðum í stríðinu gegn klámvæðingunni með engum árangri.

Boðskapur Schlosser er sá að ríki eigi að skipta sér minna af einkalífi náungans en að sama skapi eigi að setja strangari reglur (eða fylgja eftir þeim sem þegar eru til staðar) um starfssemi fyrirtækja. Óheft markaðslögmál leita alltaf að því að lágmarka kostnað, þ.m.t. laun, án nokkurs tillits til aðbúnaðs starfsmanna.

Bókin er góð, Schlosser er skemmtilegur penni og ítarefni aftast í bókinni bendir til þess að vandað sé til verka. Mér þykir það samt ákveðinn löstur á henni að þrír hlutar hennar tengjast ekki nógu sterkt. Fyrsti og síðasti hlutinn, um maríjúana og klámbransann, eiga heima saman í bók en kaflinn um erlent vinnuafl í jarðaberjabransanum tengist ekki vel að mínu mati.

bækur
Athugasemdir

Einar Örn - 30/03/04 23:38 #

Ég mæli með Fast-Food Nation. Alveg magnaðar frásagnir í þeirri bók. Fólk ætti að gera sér betur grein fyri því að það skiptir máli fyrir umhverfið og fólk almennt, hvar fólk kaupir sér að borða. Mjög harkaleg ádeila á McDonald's og hinar stóru bandarísku keðjurnar.

Gummi Jóh - 30/03/04 23:44 #

Ég keypti einmitt þessa sömu bók á Kastrup flugvelli í gær. Er að lesa síðasta kaflann núna. Góð bók vissulega.

Næst verður það svo The Da Vinci Code. Merkilegt hvað flughafnir og ferðalög fá mann alltaf til að kaupa bækur.

Skúli - 31/03/04 08:01 #

Fast Food Nation er frábær og DaVincilykillinn skemmtilegur. Hvort tveggja eru þetta samsæriskenningar þótt ólíkar séu!

Merkilegt við þá fyrri er að fyrirtækin sem þar eru gagnrýnd hafa haft langan tíma til þess að svara fyrir sig en engin bitastæð andmæli hafa komið fram.