Örvitinn

Da Vinci lykillinn

Kláraði að lesa Da Vinci lykilinn um daginn, tók mér smá pásu frá bókum um pólitík og trúmál og skellti mér í skáldskapinn. Allir eru að tala um þessa bók og flestir virðast óskaplega hrifnir.

Ég sker mig ekki úr hópnum. Þetta er feykilega skemmtileg bók. Í rauninni er þetta bara spennusaga þó búið sé að flækja fullt af trúarstefjum og samsæriskenningum í bókina. Trúarflétturnar eru skemmtilegar en eins og Biskupinn bendir á byggir þetta ekki á traustum heimildum, biskup mætti reyndar líta fleira með sama efahyggjuhugarfari en það er önnur saga. Opus Dei samtökin eru raunveruleg og flest sem skrifað er um þau í bókinni er sannleikanum samkvæmt. Á síðu þeirra má finna gagnrýni á bókina.

Það er gott tempó í bókinni og erfitt að leggja hana frá sér. Höfundur enda kafla iðulega á einhverju óvæntu og knýr lesanda til að lesa aðeins meira.

Aðalsöguhetja bókarinnar, táknfræðingurinn og kollegar hans minna mig stundum á guðfræðingana sem sjá Kristgerving í hverju horni :-)

Þó skotin á kaþólsku kirkjuna gleðji mitt trúlausa hjarta verður maður að taka þessu með ákveðnum fyrirvara. Þetta er jú bara skáldsaga og jafnvel þó ýmislegt í bókinni sé á rökum reyst er annað úr lausu lofti gripið.

Skemmtileg er hún samt.

bækur
Athugasemdir

Skúli - 21/05/04 09:51 #

"Aðalsöguhetja bókarinnar, táknfræðingurinn og kollegar hans minna mig stundum á guðfræðingana sem sjá Kristgerving í hverju horni :-)"

Það er nú einmitt bjútíið við bókina. :>)

Birkir - 27/08/04 11:18 #

Ég lét líka tilleiðast að lesa þessa bók, þar sem allir voru að tala um hana.

Ég er samt ekki sammála því að hér sé um sérlega skemmtilega bók að ræða. Aðalsöguhetjan, táknfræðingurinn, er einhver litlausasta og leiðinlegasta persóna sem ég man eftir að hafa lesið um. Vondu kallarnir voru líka sérlega óspennandi.

Fléttan er oft á tíðum fyrirsjáanleg... hver var til dæmis ekki búinn að sjá það út fyrir löngu hver "The Teacher" var? Og lopinn teygður lengra en góðu hófi gegnir.

Þó eru efnistökin áhugaverð að einhverju leyti. upp úr stendur að umfjöllunin um trúarbrögðin og Da Vinci eru það eina sem fékk mig til að klára bókina.

Matti Á. - 27/08/04 12:22 #

Já en mér þótti hún skemmtileg :-) Skil gagnrýni þína samt, fléttan er ansi fyrirsjáanleg á köflum.