Örvitinn

Áróra tólf ára, fjölskylduboð

Áróra Ósk varð tólf ára á fimmtudaginn síðasta. Í dag héldum við afmælisboð fyrir ættingja, á morgun mæta bekkjarsystkini og vinir.

Gyða er búin að standa á haus við að baka, ég fékk bara að sjá um að gera hummus. Jú, fékk að hræra saman í einn heitan rétt, en Gyða sá samt um að klára hann. Mitt framlag fólst aðallega í því að klára að slá blettinn og snyrta garðinn örlítið. Fólk hrósaði hummusinu reyndar óskaplega, Gyða vill meina að það hafi alveg gleymst að hrósa veitingunum hennar en ég held það sé misskilningur enda var þetta alveg óskaplega gott allt saman.

Það var rjómablíða í allan dag, óþægilega heitt á tímabili í garðinum, ég var farinn að fagna þegar sólin fór á bak við ský. Sótti mér kaldan bjór þegar flestir gestir voru farnir og drakk hann úti í sólinni. Afskaplega ljúft. Ég dottaði svo smástund í sófanum í kvöld, afskaplega þreyttur eftir daginn.

Tók helling af myndum, setti nokkrar á myndasíðuna. Tók ansi margar góðar af Ásdísi Birtu, aðallega vegna þess að hún sat á móti mér úti í sólinni, ég er latur ljósmyndari og tek myndir af því sem kemur til mín :-) Setti reyndar ekki margar af þeim myndum á síðuna.

Hér eru myndir [1, 2] af Áróru með öllum systrum sínum. Á þessari mynd eru pabbi hennar og föðurafi, föðuramma á þessari mynd. Ég þarf að fara að bæta inn möguleika á texta á myndasíðurnar, er löngu búinn að útfæra það í kollinum, þetta gengur ekki lengur :-)

fjölskyldan myndir
Athugasemdir

Sirrý - 07/06/04 15:43 #

Til hamingju með stelpuna hún er orðin svo stór :C)