Örvitinn

Fartölvutilboð Odda, of gott til að vera satt.

hpcompaq.gifKíkti í Odda í hádeginu til að tékka á Mastercard ferðatölvutilboði sem Gyða fékk í tölvupósti fyrir helgi. Tilboðið hljómaði ótrúlega vel, 250.000.- króna tölva á 180.000.-, enda reyndist þetta víst bara misskilningur! Rangar upplýsingar í tölvupóstinum, í raun allt önnur tölva á tilboði, vél sem kostaði áður tæpar 220.000.- kr. Sölumaður reyndi að selja mér hina vélina en ég var eiginlega búinn að ákveða á leiðinni að þetta væri full mikið af því góða, mig vantar ferðatölvu en ekki svona dýra vél.

Hvað um það, vel getur verið að um mistök hafi verið að ræða þegar auglýsingin var send út en mér þykir það samt ólíklegt, sérstaklega í ljósi þess hve nákvæmur textinn er. Einnig furðulegt að ekki skyldi sendur út tölvupóstur með leiðréttingu, hér er brot úr tölvupóstinum sem inniheldur líka nákvæma lýsingu á vélinni..

MasterCard korthöfum býðst nú ótrúlegt tilboð á fartölvu hjá Odda; HP Compaq nx7010 fartölva að verðmæti kr. 250.000 á einungis krónur 179.900.

Ég tel hugsanlegt að þarna hafi einfaldlega verið um bait and switch sölubrelluna að ræða, auglýsa eitthvað sem er of gott til að vera satt til að fá fólk á staðinn, reyna svo að selja því eitthvað annað. Einnig reyndi sölumaðurinn að telja mér trú um að síðustu vélarnar væru við það að seljast og því væri ég á síðasta séns, mér tókst þó að fá hann til að játa að ég hefði daginn í þetta.

Leitin að ferðatölvu heldur áfram.

græjur
Athugasemdir

skúli - 30/08/04 14:03 #

Þú átt rétt á að tilboðið eins og þeir auglýsa það standi. Þú getur einfaldlega bent á að þetta sé bindandi tilboð og ólöglegt að bakka út úr því.

Ef þú ert maður sem stendur fast við þína sannfæringu (sem ég veit náttúrulega ekkert um...) ættirðu þarna að geta eignast ferðatölvu á góðum prís. ;>)

Matti Á. - 30/08/04 14:08 #

Já, málið er bara að hundrað og áttatíu þúsund krónur er eiginlega of mikill peningur til að eyða í ferðatölvu, jafnvel þó fjárlagavaldið hafi verið búið að samþykkja eyðsluna.

Samviskan fór að naga mig og skynsemin náði að bæla græjulostann. Svo var skjárinn líka með of mikla upplausn!

En auðvitað á maður að standa fast á sínu í svona dæmum, ég hef bara aldrei náð góðum tökum á því. Fannst áhugavert að fylgjast með sölumennskunni.

Birgir Baldursson - 30/08/04 14:48 #

Er það mjög kristilegt, Skúli, að vilja hagnast með slíkum hætti á "mistökum" annarra?

Gummi Jóh - 30/08/04 14:49 #

er eitthvað sem heitir of mikil upplausn?

Matti Á. - 30/08/04 14:58 #

Ég var með ferðavél í láni með 15" skjá og upplausnina 1600x1200 og sú upplausn var of mikil fyrir mig. Endaði með því að lækka upplausnina í 1280x1024 sem virkaði betur en leit ekkert alltof vel út, enda virkar ekkert of vel að sampla niður á lcd skjám. Upprunalega tilboðsvélin er með "15,4" WXSGA+ breiðskjár - 1680 X 1050 upplausn ", ég prófaði að starta Wordpad og slá inn texta og þetta var ekki að virka fyrir mig.

Kannski þarf ég gleraugu :-)

Birgir, spurningin er hvort þetta hafi verið mistök. Ef svo, þá er náttúrulega ekki siðlegt að nýta sér þau. En það hefði verið hægur leikur fyrir þessa aðila að senda annan tölvupóst á póstlistann og leiðrétta mistökin, það hafa þeir ekki gert og því gruna ég þá um "bait and switch". Þegar menn nota svoleiðis brellur finnst mér að fólk eigi að fara í hart, þ.e.a.s. ef það ætlaði sér að kaupa vöruna.

Birgir Baldursson - 30/08/04 15:13 #

Það finnst mér líka, en ég er ekki viss um að Skúla eigi að finnast það ;)

skúli - 30/08/04 18:29 #

Já, sitt er hvað "mistök" og mistök, drengir, en eins og þið vitið manna best leitast ég stöðugt við að leiðrétta þá sem fara villur vegar. ;>)

Birgir Baldursson - 01/09/04 15:02 #

...eins og þið vitið manna best leitast ég stöðugt við að leiðrétta þá sem fara villur vegar. ;>)

Já, og ég set spurningarmerki við það hvort kristilegt sé að gera það með því beita óbilgirni og hörku og hagnast svo sjálfur á öllu saman. Hvað var um hið gamla góða "syndir þínar eru þér fyrirgefnar"?

Matti Á. - 03/09/04 11:07 #

MasterCard sendi nýjan tilboðspóst í dag og í honum er leiðrétting.

Leiðrétting

Í síðasta tilboði var boðin fartölva frá Odda, en þau leiðu mistök urðu að með fylgdu upplýsingar um ranga tölvu.

Upplýsingar um þá tölvu sem í raun stóð til boða er að finna hér.

Við biðjumst velvirðingar á öllum óþægindum sem þetta ann að hafa valdið.

Mér finnst að leiðréttingin hefði átt að vera send út fyrr, því í heila viku hefur þessi ranga auglýsing í raun verið í loftinu. En það er sanngjarnt að gera ráð fyrir að hér hafi einfaldlega verið um heiðarleg mistök að ræða.