Örvitinn

Henson - FC Diðrik

Henson 3 - 2 FC Diðrik.

Viti menn, Henson vann leik, nú frýs í helvíti. Eða eitthvað.

Leikurinn fór fram á Ásvöllum klukkan níu í gærkvöldi við fínar aðstæður, veðrið var fínt og örlítill vindur.

Mætingin hjá Henson var ekki beinlínis til fyrirmyndar og nákvæmlega ellefu leikmenn mættu til leiks. Við gátum því stillt upp fullu liði en skiptimenn voru engir.

Höddi var í marki, Einar og Axel spiluðu sem miðverðir, Lalli og Viffi sem bakverðir, Aggi og B. Jóh á miðjunni, Alli og Kjarri á köntunum og ég og Oddi frammi.

Leikurinn var í þokkalegu jafnræði til að byrja með, við vorum meira með boltann ef eitthvað var og áttum betri sóknir. Eftir um fimmtán mínútur áttum við fína sókn, ég gaf á Odda sem sótti að vítarteig, lagði boltann til hægri (ætlaði að skjóta sjálfur) en Kjarri kom og afgreiddi boltann með hægri, markvörðurinn náði að slengja hönd í knött en kom ekki í veg fyrir að boltinn færi í möskvana.

Við sóttum áfram og áttum ágæt færi. Ég sótti upp og fékk aukaspyrnu. Axel spyrnti fyrir, ég stökk upp og slengdi hausnum í boltann og átti góðan skalla sem markvörður Diðriks varði á ótrúlegan hátt, djöfull var ég svekktur :-) Það sem eftir var hálfleiks voru þeir meira með boltann án þess að skapa sér hættuleg færi. Við áttum betri færi ef eitthvað var, meðal annars komst ég einn í gegn en sökum slugsahátts og seinagangs fór ég illa með gott færi, hefði átt að skjóta í stað þess að reyna einhverjar kúnstir.

Staðan í hálfleik var 1-0 fyrir Henson.

Diðrik mættu ákafir í seinni hálfleik og sóttu meira, enda með að minnsta kosti fimm skiptimenn á móti engum skiptimanni Henson. Við lágum til baka en beittum skyndisóknum. Eftir um tíu mínútur af hálfleiknum vann Aggi boltann, gaf á Odda sem lék laglega upp hægri kantinn og gaf fyrir á Agga sem var mættur í boxið (ég stóð kyrrr á miðjum vellinum og dáðist að tilburðunum). Aggi afgreiddi þetta af yfirvegum. 2 - 0 fyrri Henson.

Nú kom þessi dæmigerði slæmi kafli og á tíu mínútum náði Diðrik að jafna. Annað markið var beint úr aukaspyrnu, hitt var skalli eftir aukaspyrnu á kantinum. Leikskipulag þeirra var frekar einfalt á þessum tíma, þeir bombuðu boltanum inn í teig við hvert tækifæri, svar Henson var að sama skapi einfalt, við bombuðum boltanum í burtu í hvert sinn.

Staðan var semsagt orðin 2-2 og ég búinn að gefa upp alla von, dauði og djöfull, af hverju getum við ekki haldið forskoti. En ekki var öll nótt úti enn. Lalli átti góða rispu upp vinstri kantinn og var staujaður all harkalega. Axel var snöggur að taka aukaspyrnuna, gaf inn í teig þar sem Aggi mætti og rétt snerti boltann, en nógu mikið til að koma honum í markið. 3-2. Diðriksmenn reyndu að væla um rangstöðu en það var kolrangt.

Síðustu fimmtán mínútur leiksins héngum við á þessu forskoti, lögðumst í vörn og hentum okkur fyrir alla bolta. Diðrik fékk fullt af aukaspyrnum á hættulegum stað, hægt að deila um suma dómana, aðra ekki, en sem betur fer nýttur þeir ekki færin. Það var mikill léttir þegar dómarinn flautaði leikinn af. Loksins sigur, alltof oft höfum við misst leiki í tap eða jafntefli í sumar og staða liðsins í deildinni gefur, að mínu hógværa mati, ekk rétta mynd af getu liðsins.

Dómari leiksins var góður, hefur dæmt einn eða tvo leiki með okkur í sumar og ber höfuð og herðar yfir aðra dómara í þessari deild. Vissulega dæmdi hann oft á okkur og stundum var ég ekki sáttur, en það er ekki aðalmálið. Hann lét leikinn ganga vel, var ekki að pirra sig of mikið útaf smá tuði og hafði stjórn á aðstæðum.

Í heildina séð góð frammistaða hjá Henson, sérstaklega í því ljósi að einungis ellefu leikmenn voru mættir í kvöld. Um miðjan seinni hálfleik fór ég að finna fyrir verkjum í kálfa og hefði skipt mér útaf ef ég hefði átt þann kost, en kláraði leikinn. Allir leikmen eiga hrós skilið og Maggi stóð sig vel á hliðarlínunni, var duglegur að segja mönnum til verka, það munar um það.

Ég spilaði allan leikinn frammi, dró mig þó aðeins aftar á völlinn síðustu fimmtán mínúturnar til að reyna að létta pressuna. Átti sæmilegan leik, hefði átt að setja mark, var óheppinn með skallann í fyrri hálfleik og hefði mátt gera betur þegar ég komst einn innfyrir, hraðaskortur er stundum að hrjá mig!

Sigrinum var fagnað yfir ölkollum á Kaffibarnum, stafsetningar- og málfarsvillur verður að meta í því ljósi. Ennþá er ekki öll nótt úti og Henson á örlitla von um að falla ekki. Verðum þó að stóla á úrslit í öðrum leikjum og ná a.m.k. stigi í síðasta leik.

utandeildin
Athugasemdir

Svalinn - 01/09/04 09:18 #

Til hamingju með sigurinn!!! Léttur Framara bragur á liðinu. 3 stig á móti Fame og þá bjargið þið ykkur frá falli ;)