Örvitinn

Sunnudagaskólinn

Ég fékk ónot í magann þegar ég horfði á fréttir sjónvarpstöðvanna um Sunnudagaskóla Þjóðkirkjunnar í kvöld. Fréttamenn ræddu við krakka: "Við lærum um Gvuð og Jesús... Jesús gerir kraftaverk." Auðvitað læra krakkarnir eitthvað þokkalegt í leiðinni, eins og það að maður eigi að segja fyrirgefðu ef maður gerir einhverjum eitthvað. En þessi ágætu ráð tínast innan um hindurvitnin og trúaráróðurinn. Límmiðabækur og fleira þessháttar er svo notað til að tæla börnin.

Ætli guðfræðingarnir sem sjá um þennan heilaþvott setji fyrirvara? Nei, auðvitað ekki. Þeir ljúga að börnunum og vita að þannig hafa þeir tryggt Kirkjunni sinni sóknargjöld um ókomna tíð og hjálpað til að viðhalda völdum hennar til frambúðar. Sömu guðfræðingar og fara út í gríðarlega flóknar útleggingar á kenningum ýmissa fræðimanna í stað þess að játa að þeir trúi á hinar ýmsu kraftaverkasögur hika ekki við að segja smábörnum þessar sögur eins og um staðreyndir sé að ræða. Þar liggur vandinn.

En þetta er skárra en þegar þeir troðast í leikskólana, foreldrar leiða eigin börn til andlegrar slátrunar í þessum tilvikum. Prestarnir munda trúarhnífinn og skera í tætlur gagnrýna hugsun barnanna.

Eflaust langar einhverja að munda ævintýralíkinguna. Látið það eiga sig, hún er hörmuleg.

kristni
Athugasemdir

Halldór E. - 06/09/04 00:10 #

En þetta er skárra en þegar þeir troðast í leikskólana,...

Þetta er ekki aðeins skárra. Sunnudagaskólastarfið er annars eðlis á allan hátt en leikskólaheimsóknir. Bæði hvað varðar virkt samþykki foreldra og ekki síður inntak fræðslunnar og áherslur.
Gagnrýni á vandað efni og góða framsetningu boðskaparins, vegna þess að það sé tælandi fyrir börn er merkileg. Er það skoðun þín að ef kirkjan hefur eitthvað fram að færa þá megi hún ekki að notast við framsæknar kennsluaðferðir til að koma boðskap sínum til skila? En límmiðabækur, PowerPoint-framsetning á Biblíusögum, brúður og leikir eru allt aðferðir til að festa hjá börnunum og ekki síður foreldrunum sem koma, það sem kennt er.
Þekking á sögum Biblíunnar er forsenda þess að geta rætt af viti um trúarhugmyndir kristinna manna. Án þekkingar á sögunum er erfitt að taka afstöðu til þeirrar kenningar sem kristin kirkja boðar. Af þeim sökum er lögð áhersla á sögurnar sem slíkar á þeim aldri sem sækir sunnudagaskólann. Þegar fólk kemst á stig huglægrar hugsunar breytist boðunin og aðferðir til að nálgast kenningar Krists. Það er eðlilegt og ekki ósvipað því hvernig við lærum stærðfræði, byrjum á að telja epli en förum ekki að skilgreina forsendur talnakerfisins, fyrr en í tíma hjá Reyni Axelssyni í HÍ.

Matti Á. - 06/09/04 00:57 #

Þegar fólk kemst á stig huglægrar hugsunar breytist boðunin og aðferðir til að nálgast kenningar Krists
Hvar í skólakerfinu eða innan Þjóðkirkjunnar er börnum (tja eða hverjum sem er) kennt að kraftaverkasögur Biblíunnar eigi ekki við nein rök að styðjast? Ég held að svarið sé: hvergi, en útiloka alls ekki að menn fræðist um þetta í Guðfræðináminu í Háskólanum, annað væri óeðlilegt. En það er einmitt þetta sem ég er að benda á. Af hverju eruð þið að sannfæra lítil börn um að þessar kraftaverkasögur séu sannar og hafi raunverulega átt sér stað? Þið, við og allir aðrir vita betur. Þetta er ekki sagt í ævintýrastíl heldur eins og um raunverulega atburði hafi verið að ræða.

Sunnudagaskólar eru vissulega annars eðlis því foreldrar mæta með eigin börn, ég benti á það. En þetta er eins að því leyti að haldið er að börnum sögum af kraftaverkum og hindurvitnum eins og um staðreyndir sé að ræða. Tilgangurinn er sá að börnin verði trúuð og tilheyri Þjóðkirkjunni.

Þekking á sögum Biblíunnar er forsenda þess að geta rætt af viti um trúarhugmyndir kristinna manna.
Æi láttu ekki svona. Það er ekki verið undirbúa smábörn fyrir umræðu um trúarhugmyndir kristinna manna! Það er verið að sannfæra þau um að þessar sögur séu sannar meðan þau skortir gagnrýni, sjálfstæði og hafa fullkomið traust til fullorðinna.

Ég vil að sjálfsögðu miklu frekar að þetta starf eigi sér stað í Sunnudagaskólum og mótmæli ekki tilvist Sunnudagaskólans, þó ég láti fréttir fara í taugarnar á mér, þykir satt að segja óþægilegt að horfa á þær. Veltu því fyrir þér hvernig þér liði ef þú horfðir á kvöldfréttir þar sem talað væri við börn nýkomin af Vantrúarsamkomu sem segðu við fréttamann: "Við lærðum að við eigum að vera góð við hvort annað og að sögurnar um Jesús eru bara ævintýri, Gvuð er mýta sem menn bjuggu til í gamla daga til að útskýra hluti sem þeir skyldu ekki og við eigum að sleppa svona hindurvitnum". Ég held þú myndir hugsanlega skrifa litla bloggfærslu í kjölfarið ;-)