Örvitinn

Bleyjur kvaddar

Við höfum fjárfest í síðasta bleyjupakkanum. Aldrei aftur mun ég standa fyrir framan bleyjurekkann í Nettó með gemsann í hönd spyrjandi Gyðu hvaða stærð og tegund ég eigi að kaupa.

Inga María svaf bleyjulaus í nótt í fyrsta sinn. Reyndar kom þetta til fyrir slysni, bleyjurnar voru búnar og Gyða gleymdi að kaupa fleiri í gærkvöldi.

Um eitt í nótt vaknaði Inga María og kallaði, ég var ennþá vakandi og fór upp til hennar. Kom að henni þar sem hún var að reyna að klifra úr rúminu sínu. "Pabbi, ég þarf að pissa", ég tók hana í fangið og fór með hana á klósettið. Skömmu síðar kom hún upp í til okkar og svaf á milli í nótt. Ég var stressaður um að hún myndi pissa undir. Rétt fyrir átta í morgun vakti ég hana og við fórum fram og pissuðum í klósettið, hjónarúmið var þurrt. Ég reyndi að fá hana til að kúra lengur en hún var glaðvöknuð, ég náði að kríja tíu-fimmtán mínútur í viðbót. Vaknaði almennilega þegar hún kom til mín og sagði mér að hún væri búin að kúka í klósettið. Fór á fætur og skeindi lítinn bossa.

Bleyjutímabilinu er lokið, þökkum pampers og libero fyrir samfylgdina.

fjölskyldan
Athugasemdir

Matti Á. - 07/10/04 11:30 #

Vert að taka fram að næsta nótt gekk líka vel, ekkert pissað undir. Inga María vaknaði reyndar með látum í nótt, vildi ekkert pissa í klóstið en kom upp í til okkar. Aftur var ég stressaður um að hún myndi pissa í rúmið okkar en ekkert slíkt gerðist.