Örvitinn

Örsaga úr Mjódd

Rölti í hádeginu yfir í gettóið til að kaupa mér eitthvað í matinn. Mætti ungum manni í gallajakka og gallabuxum sem teigaði síðustu dropana úr hálfs líters dós af ódýrasta bjórnum úr Ríkinu. Henti svo dósinni í runnana hjá apótekinu. Ég velti því fyrir mér að kalla á eftir honum en hætti við, maður styggir ekki svona fólk.

Röðin til Dóra sósukokks náði fram á göngugötu - ég hef lítið gert af því að versla í matinn hjá þeim fræga ræðusnilling.

Keypti mér eggjasamloku í Nettó og kom við hjá harðfiskborðinu á göngugötunni á bakaleiðinni. Keypti poka af rifinni ýsu á þúsund kall. Konan tók ekki við korti, ég fór því í hraðbankann. Á undan mér voru tvær eldri konur, held þeim hafi þótt óþægilegt að hafa mig fyrir aftan sig. Ég er órakaður. Þessa vikuna.

Borða hádegismatinn við skrifborðið, eins og svo oft. Harðfiskur í desert. Lyktin læðist um opið vinnurýmið, ærir suma.

dagbók
Athugasemdir

Bjarni Rúnar - 03/12/04 17:14 #

Það er umhverfisvænna og mannvænna að henda dósinni í runna heldur en að henda henni í ruslatunnu.

Ef hún fer í runna kemur fyrr eða síðar dósasafnari og kemur henni í endurvinnslu og fær borgað fyrir.

Ef hún fer í tunnu verður hún urðuð, eða þá einhver grey dósasafnari þarf að róta í rusli til að ná henni, með tilheyrandi áhættu á ógeðslegum skurðum frá beittu rusli.

Ég set dósir og flöskur ALDREI í ruslatunnur, ég reyni frekar að leggja þær snyrtilega frá mér þar sem einhver getur hirt þær.

Matti Á. - 03/12/04 17:27 #

Ég er nokkuð viss um að í þessu tilviki hafi náunginn verið sóði frekar en afar meðvitaður umhverfissinni og mannvinur :-) En maður veit aldrei.