Örvitinn

Páfinn og boltinn

Páfinn er dauður. Lengi lifi páfinn. Minningargreinin fór strax í loftið á Vantrú.

Liverpool vann Bolton, það var ósköp ánægjulegt.

Fór í innibolta, fínn tími. Fátt betra en innifótbolti til að losna við þynnku. Er búinn að fara fjórum sinnum í fótbolta síðustu fimm daga. Það er fín þróun.

dagbók
Athugasemdir

Haukur Þorgeirsson - 08/04/05 17:00 #

Mér finnst minningargreinin hans Birgis ganga dálítið langt. Menn geta barist gegn kaþólsku kirkjunni og stefnu hennar án þess að gera það svona persónulega. Ég held að nýlátinn páfi hafi um margt verið merkilegur maður. Hann skorti ekki hugrekki né viljastyrk en barðist fyrir því sem hann taldi vera rétt. Það er vitanlega allt annað en það sem Birgir telur vera rétt en það er heillavænlegra að ræða málefnin en mennina. Og það gerir Birgir vissulega að stórum hluta.

Það sem ég vil þá helst finna að grein hans er að hann lætur í veðri vaka að afstaða manna til álitaefna eins og fóstureyðinga og samkynhneigðar fari algjörlega eftir trúarskoðunum. Það er að segja að allir menn sem ekki tilheyra íhaldssömum trúarhópum hljóti að hafa hina einu sönnu "skynsamlegu" afstöðu til málsins.

Hitt mun þó rétt vera að afstaða til þessara mála mótast ekki endilega af trúarskoðunum. Til eru trúleysingjar sem vilja takmarka verulega rétt kvenna til fóstureyðinga. Til eru trúleysingjar sem vilja ekki löghelga hjónabönd samkynhneigðra. Og til eru kristnir menn sem eru sammála Birgi um bæði málefnin.

Það er kannski kjánalegt að skrifa komment við greinina hér en mér fannst svarhalinn við hana á Vantrú vera orðinn full-langur og óárennilegur.

Ég þakka annars Örvitanum skemmtilegt og fróðlegt blogg. Sérstaklega finnst mér bálkurinn um leikskólaprestinn hafa bókmenntalegt gildi.

Matti Á. - 12/04/05 01:53 #

Það er rétt að skoðanir fólks fara ekki endilega eftir trú, það þekki ég vel enda ljóst að við trúleysingjar erum alls ekki sammála á öllum sviðum, en í þessu tilviku erum við að tala um stefnu Páfagarðs og Páfa.

Vissulega getur verið að Páfi hafi verið "góður maður", ég er næstum viss um að hann hefur verið viðkunnanlegur. En stefna hans og stofnunarinnar sem hann stjórnaði hefur er, að mínu mati, afar gagnrýniverð.

Þakka hrósið.

Ingibjörg Stefánsdóttir - 12/04/05 11:14 #

Stefna páfa var meira en gagnrýniverð - hún var lífshættuleg fyrir milljónir manna.

Haukur Þorgeirsson - 12/04/05 12:46 #

Það sem Ingibjörg á við með lífshættulegri stefnu og Birgir með að páfi hafi verið "höfuðpaur þeirra annarlegu viðhorfa að ekki megi draga úr eymdinni í veröldinni með sjálfsögðum og mannúðlegum aðgerðum" giska ég á að sé stefna kaþólsku kirkjunnar varðandi getnaðarvarnir.

Hugmyndin er, skilst mér, eitthvað á þá leið að getnaðarvarnir auki á lauslæti. Gagnrýnendur telja aftur á móti að kynsjúkdómar séu verra vandamál en lauslæti. Ég get alveg tekið undir það.

Aftur á móti held ég að Jóhannes Páll hafi lagt talsvert á sig til að draga úr eymdinni í heiminum og alltaf unnið með það markmið í huga. Hann talaði fyrir hagsmunum fátækra og gagnrýndi kúgunarstjórn hvort sem hún var undir formerkjum vinstri- eða hægristefnu. Sennilega voru flestir Íslendingar sammála stefnu hans varðandi dauðarefsingar og friðarmál. Hann var fyrstur páfa til að prédika í moskvu og mótmælendakirkju. Á hans dögum baðst kaþólska kirkjan afsökunar á ýmsum fornum afbrotum sínum. Juan Cole, bandarískur sagnfræðingur á vinstri kantinum, vitnar í ýmis ummæli Jóhannesar Páls sem honum þykja geðfelld.

Hvað varðar þau mál sem oftast eru gagnrýnd - andstaða við fóstureyðingar, andstaða við getnaðarvarnir og andstaða við kvenkyns presta - var Jóhannes Páll á sama máli og fyrirrennarar hans. Í þeim færði hann kirkjuna ekki "inn í nútímann" eins og stundum er sagt. En gleymum því ekki að hann gerði það í ýmsum öðrum málum.

Annars vil ég benda á fyrirlestur um "trúlausan opinberan vettvang" í Alliance Française á fimmtudaginn.

Haukur Þorgeirsson - 12/04/05 12:54 #

Æ, ég ætlaði nú að segja "í mosku". :) Þótt Jóhannes Páll færi víða komst hann víst aldrei til Rússlands.

Hjalti - 12/04/05 14:15 #

Ég var nú að heyra í gær (frá kaþólksum kennimanni) að páfinn hefði á sinni tíð talað "ex cathedra" varðandi það að konur mættu ekki verða prestar. Þannig að hann hefur tryggt að konur verði ekki prestar í kaþólsku kirkjunni næstu þúsund árin.

Ingibjörg Stefánsdóttir - 12/04/05 14:29 #

Páfi hefur örugglega viljað vel. Hann var bara erkiíhald sem stýrði kirkjunni frá últrahægri og hlustaði ekki á gagnrýnisraddir.

Stærstu vandamál Afríku eru útbreyðsla alnæmis og að allt of mörg börn fæðast inn í fátækt og eymd. Hvernig hefur stefna páfa stuðlað að því að lausn finnist á þessum vandamálum?

Páfi sendi líka út bréf um að samkynhneigð og það að stunda hana væri af hinu illa og að það væri skiljanlegt að ráðist væri á samkynhneigða. Hann skrifaði bréfið reyndar ekki sjálfur heldur Ratzinger "Grand Inquisator" kardináli, eins og fleiri íhaldsskrif sem send voru út á vegum Vatikansins á dögum Jóhannesar Páls II.

Páfa var uppsigað við feminisma og kvenfrelsi og talaði um að hinar og þessar hreyfingar kaþólskra kvenna væru "sýktar" af feminisma. Svo lýsti hann konum sem "yndislegum verum" sem ætti að þakka fyrir að væru til og áttu að vera eins og María mey; hlusta, biðja og vera auðmjúkar. Þær áttu hins vegar alls ekki að skipta sér af stjórn kirkjunnar eða messugjörðum.

Það getur verið að Jóhannes Páll II hafi verið á sama máli og fyrirrennarar sínir en hann gerði líka sitt besta til þess að halda kirkjunni kirfilega inni í miðöldum. Stundum hefur kirkjan færst í frjálsræðisátt. Upp hafa komið hreyfingar sem berjast fyrir slíku. Páfi barðist harkalega gegn öllu slíku. Ég er ekki trúuð en vegna áhrifa kaþólsku kirkjunnar á líf hundruð milljóna manna og því meiri áhrif sem landið er fátækara og menntunin minni, tel ég mikilvægt að nú veljist páfi sem er aðeins frjálslyndari en sá sem á undan gekk. Það er ekki líklegt en ef það gerist þá gæti það breytt lífi milljóna eða tugmilljóna manna til hins betra.

Haukur Þorgeirsson - 13/04/05 00:35 #

Já, kaþólska kirkjan er íhaldssöm. Mér finnst hins vegar dálítið villandi að tala um að nýlátinn páfi hafi persónulega verið últra-hægri-maður. Í pólítískri merkingu passar orðið illa við hann eins og Cole rekur í pistlinum sem ég benti á áðan.

En ef þú átt við að páfinn hafi verið úr últra-íhaldssama armi kirkjunnar held ég að það standist varla heldur. Til eru mun íhaldssamari kaþólikkar. Flestir þekkja t.d. Mel Gibson og þá íhalds-kaþólikka sem hann er viðriðinn - sumir þeirra hafna síðustu fjórum páfum af því að þeir hafi verið of nútímalegir.

Ég held að Jóhannes Páll hafi verið eins konar "miðjumaður" úr íhaldssamri stofnun.

Óli Gneisti - 13/04/05 12:16 #

Páfarnir á undan JP2 voru frjálslyndir á meðan hann var mjög íhaldssamur, hann hefur verið að snúa af þeirri braut sem var mörkuð með öðru Vatíkanþinginu.

Haukur Þorgeirsson - 13/04/05 13:21 #

Forverar JPII voru kannski frjálslyndir í e-um skilningi en varla þeim sem hér er til umræðu. Ekki veit ég til að þeir hafi haft aðra afstöðu til kvenpresta, getnaðarvarna, fóstureyðinga o.s.frv. en JPII.

Stundum er sagt að JPII hafi reynt að ógilda Vatíkan-II-umbæturnar en það verður þá varla sagt að honum hafi orðið mikið ágengt þrátt fyrir langa setu á páfastól.

Eins og forveri hans JPI neitaði JPII að sverja eið gegn nútímahyggju við innsetningarathöfn sína.