Örvitinn

Henson - AC Möllet

Henson 4 - 2 AC Möllet.

Þetta var frekar furðulegur leikur!

Leikurinn fór fram á Fylkisvelli klukkan átta í kvöld. Aðstæður voru nokkuð góðar, smá gola sem hafði þó ekki mjög mikið að segja. Fylkisvöllur er aðeins betri en Framvöllur. Reyndar er þetta sama tegund af gervigrasi en það er minna gúmmí á Fylkisvellinum og hann er því sléttari.

Leikurinn byrjaði með látum, Henson sótti ákaft frá fyrstu mínútu og Möllet menn virtust alveg úti á þekju. Pressan var mikil og þeir náðu varla að komast að miðju.

Eftir fimm mínútur fengum við horn eftir að hafa sótt látlaust. Gestur tók hornið og gaf góðan boltan inn í teig. Þar var Lárus mætti og skallaði af miklum krafti í markið, 1-0. Áfram sótti Henson en Möllet komust í skyndisókn upp hægri kantinn (okkar megin), eitthvað var dekkunin að klikka því á fjærstöng var leikmaður dauðafrír og skoraði með skall. Afar ódýrt mark og ekki í takt við leikinn.

Við gáfumst ekkert upp og sóttum áfram ákaft, sköpuðum fullt af færum og hefðum átt að skora gommu af mörkum. En þau urðu bara tvö það sem eftir var hálfleiks, Ívar setti eitt á 22. mínutu og Lárus skoraði aftur með skalla eftir aukaspyrnu á 33. mínútu. Það þyrfti að rannsaka það hvernig Lárus fer að því að taka alla þessa skallabolta í teig andstæðinganna, ekki gnæfir hann yfir varnarmennina. En staðsetning og tímasetning er greinilega alveg á hreinu.

Staðan var 3-1 í hálfleik og miðað við spilamennskuna átti ég von á að við myndum rúlla yfir þá. En það varð ekki raunin.

Í seinni hálfleik var nokkuð jafnræði í byrjun, bæði lið sóttu á víxl. Við áttum ágæt færi og þeir líka. Ég kom inn á í lok fyrri hálfleiks og byrjaði seinni hálfleikinn. Spilaði á vinstri kanti. Fékk gott færi í upphafi seinni hálfleiks, Snæbjörn lék upp hægri kantinn og gaf fyrir, boltinn barst til mín fyrir utan teig, ég tók hann framhjá varnarmanni með fyrstu snertingu og skaut svo í stöngina utanverða með vinstri. Hefði átt að gera betur þarna, taka mér aðeins meiri tíma. Nokkrum mínútum síðar lék Orri upp að teig, lagði á mig - ég tók eina snertingu og hamraði að marki en boltinn hafnaði í slá. Ég fór útaf skömmu síðar, var örlítið farinn að finna fyrir lærum og er náttúrulega í minna en engu formi. Reyndar minnkuðu AC Möllet muninn áður en ég fór útaf. Þetta mark kom upp úr afar óvönduðum varnarleik okkar, náðum ekki að hreinsa boltann úr teignum þrátt fyrir nokkur tækifæri.

Þegar þarna var komið við sögu voru Möllet farnir að stjórna leiknum og við gátum ekki neitt. Náðum ekkert að halda boltanum eða spila á milli okkar. Þeir sóttu ákaft, voru nokkuð sprækir og við vorum satt að segja nokkuð heppnir að þeir jöfnuðu ekki.

Á næstsíðustu mínútu leiksins fékk Lárus boltann á miðjunni. Gaf upp kantinn þar sem Viffi kom á siglingu og lék upp að teig þar sem hann gaf fyrir á Kjartan sem tryggði sigurinn.

Þetta var fínn sigur, mjög góður fyrri hálfleikur og við hefðum átt að gera út um leikinn þá. En þetta snerist alveg við í seinni hálfleik og í raun megum við þakka fyrir að fara með öll þrjú stigin úr þessum leik.

Enginn bjór eftir þennan sigur - bara heitur pottur í Árbæjarlaug.

utandeildin
Athugasemdir

Skalli - 09/06/05 10:14 #

Skallatæknin er afrakstur þrotlausra æfinga, elju og þrautseigju. Mjög mikilvægt er að hlaupa sem minnst og hoppa ekki. Og svo bara loka augunum og láta vaða...