Örvitinn

Steggjun Eika

Steggjuðum Eika í gær. Gerðum þetta með hefðbundnu sniði, hendum honum og Einari í listflugvél, skoluðum á okkur punginn, átum góðan mat og drukkum heilmikið öl. Einar átti flugið inni, það viðraði ekki til flugs þegar við steggjuðum hann.

Hittumst í bænum klukkan tvö, fengum okkur bjór fyrir utan Viktor, sátum svo smá stund eins og rónar á Austurvelli og drukkum meira öl. Slátruðum svo enn fleiri kollum á Dubliners áður en við fórum út á flugvöll að hitta Björn Thorodssen. Hann og annar flugmaður, Siggi minnir mig að sá hafi heitið, fóru með strákana í smá flugtúr. Þetta er mögnuð upplifun, ég fékk að prófa það sjálfur fyrir sjö árum. Mæli með því að þið prófið þetta einu sinni á ævinni.

Eftir flug kíktum við í Vesturbæjarlaug, öðrum sundgestum eflaust til ama. Fórum svo heim til Regins og grilluðum læri (tja, Óli grillaði lærið) og höfðum það notalegt. Yndislegt að sitja með svona góðum hópi og hlæja saman.

Kíktum í bæinn, fórum á Ólivers (heitir hann það ekki annars, staðurinn þar sem Kaffi List var áður). Röltum svo Laugaveginn, kíktum í rælni á 11 og hittum akkúrat á ansi áhugaverða tónleika. Finni, sem var með strákunum í Bone China*, Franz og Krummi voru að spila ásamt nokkrum öðrum. Helvíti þétt og fínt rokk. Hlustuðum á nokkur lög áður en við fórum niður í bæ og komum okkur fyrir á Thorvaldsen.

Helvíti fínn dagur. Nokkur þynnka í dag en það fylgir þessu.

Myndirnar.

* Regin benti mér að ég fer með fleipur. Dabbi og Finni voru saman í Quicksand Jesus.

dagbók
Athugasemdir

Gulla - 20/06/05 02:03 #

Gott að þið gátuð skemmt frænda mínum vel áður en hann og Oddný ganga í það heilaga :) Sniðugt að bjóða í flugferð, hlýtur að vera frábær upplifun.

Matti - 20/06/05 13:37 #

Ertu frænka hans Eika, þetta er lítill heimur :-)

Verst að Eiki er sá eini í hópnum sem aldrei kíkir á þessa síðu, ósköp lítill tölvukall.

Gulla - 24/06/05 03:46 #

Jamm, við Eiríkur erum skyld. Við eigum sömu langömmu og langafa - er það ekki það sem kallast þremenningar? Æ, ég er ekkert mjög klár í svona ættfræði... Þú verður bara að prenta myndirnar út fyrir hann og færa honum í brúðargjöf fyrst hann er svona lítið fyrir framan tölvuskjá ;o)