Örvitinn

Brúðkaupið

Eiríkur og Oddný HelgaEiki og Oddný giftu sig á föstudag. Við brunuðum úr bænum í hádeginu eftir að hafa skutlað stelpunum í pössun hjá Jónu Dóru og sótt Regin. Fengum okkur hádegismat í Borgarnesi, kíktum einnig í Ríkið þar. Kom fram í boðinu að ástæðan fyrir þessari dagsetningu var sú að á þessum degi hefði Steinar, faðir hans Eika, orðið fimmtíu og fimm ára, en hann lést af slysförum fyrir nokkrum árum.

Vorum mætt í Þinghúsiðið rétt fyrir fjögur. Ég skutlaði Regin upp á tjaldstæði en hann hætti við að tjalda eftir að Hildur og Borghildur höfðu bent okkur á að það væri búið að spá stormi. Regin ákvað að gista í Þinghúsinu líka. Ég kíkti á kirkjuna til að skoða aðstæður til myndatöku.

Mætti í kirkjuna hálftíma fyrir athöfn og byrjaði að taka myndir. Var fyrstur á staðinn og heilsaði upp á Eika og afa hans. Kirkjan fylltist hægt að rólega enda um hundrað og fimmtíu manns í boðinu. Athöfnin var með hefðbundnu sniði, ég veit eiginlega ekkert hvað presturinn sagði :-)

Eiríkur og Oddný HelgaAð athöfn lokinni var veisla í félagsheimilinu. Boðið upp á dýrindis sjávarréttarsúpu í forrétt. Í aðalrrétt var lamba og folaldakjöt, hvoru tveggja mjög gott, ég var sérlega hrifinn af folaldinu. Í desert var boðið upp á kökur en ég sleppti þeim. Með þessu var drukkið ansi gott rauðvín, bjórinn var sötraður og í lokin var bolla. Ræðurnar voru helvíti fínar, Sigurður pabbi hennar Oddnýjar var góður og Davíð Torfi brilleraði í lokin. Leikir og skemmtiatriði voru mjög góð, Elmar Örn stóð sig eins og hetja og spilaði þrjú lög á gítar.

Þetta var hörkufjör. Ég var við það að sofna um fjögur en hætti við og við héldum gleðinni áfram á tjaldstæðinu fram undir morgun. Vodki í Magic hélt mér gangandi. Ég var ekki vitund þunnur í gær en óskaplega þreyttur. Fór í bælið fyrir miðnætti í gær og svaf næstum til hádegis í dag.

Ég tók helling af myndum, er ennþá að vinna þær. Nokkrar komnar inn hér, bæti í sarpinn næstu daga.

dagbók
Athugasemdir