Örvitinn

Hundrað ára einsemd

Kristján Atli lýsti því yfir um daginn að Hundrað ára einsemd hlyti að vera "besta bók sem nokkur mannvera hefur skrifað". Einar Örn setti hana í fyrsta sæti. Ég er áhrifagjarn og fékk bókina því lánaða hjá tengdaforeldrum mínum fyrir sumarbústaðaferð síðustu helgi. Las síðustu hundrað blaðsíðurnar í nótt, hefði klárað bókina í bústaðnum ef ekki væri fyrir ótæpilega tölvuleikjaspilun á sunnudaginn.

Áður hef ég lesið Frásögn um margboðað morð eftir Gabríel García Marquez og þótti góð. Var því ansi spenntur fyrir einsemdinni eftir lof strákanna.

Mér finnst þetta reyndar ekki besta bók í geimi, en hún er góð. Mögnuð ættarsaga, gredda og grimmd, ást og hatur. Eins og Guðbergur lýsir í eftirmála fer sagan í hringi, börn endurtaka hörmungar foreldra sinna. Byltingar hefjast og enda, ofbeldi milli stétta. Menn með ofvaxna limi, siðsamar konur, hórur, draugar og sígaunar. Stéttarfélög og kapítalistar, íhaldsmenn og byltingarsinnar.

Ég verð að játa að ég átti stundum erfitt með að greina persónur bókarinnar sundur, bæði heita þær margar sömu eða svipuðum nöfnum og svo lifa einhverjar á mörgum tímum! Þurfti að styðjast við ættartréð oftar en einu sinni.

Jú, ætli hún komist ekki á topp tíu listann hjá mér. Sem minnir mig á að ég þyrfti að taka saman topp tíu lista yfir bækur. Kannski bara topp fimm, hef verið latur að lesa skáldsögur síðustu árin.

bækur
Athugasemdir

Kristján Atli - 24/08/05 21:42 #

Það gleður mig að þú hafir fílað hana, þætti erfitt ef þú færir að vantreysta mínum meðmælum. ;-)

Annars langaði mig bara að taka það fram að ég las bókina á ensku og ég er nokkuð viss um að Einar las hana á spænsku, ef ekki þá ensku líka.

Þá hef ég lesið aðrar þýðingar eftir Guðberg og fundist þær misgóðar - til að mynda var ég ekki hrifinn af þýðingu hans á Ellefu mínútur, nýjustu bók Paulo Coelho, á meðan mér þótti þýðing hans á Don Kíkóta bráðskemmtileg. Þannig að ég myndi persónulega hafa varann á að dæma bókina út frá útgáfu þeirri sem Guðbergur færir þér.

Svo getur vel verið að ég mikli þessa bók í augum mínum af því að ég hafi faglegan áhuga á henni - svona eins og að vera körfuboltamaður sem horfir á Michael Jordan spila í eigin persónu, maður fær stjörnur í augun. :-)

Samt, frábær bók.

Matti - 25/08/05 09:45 #

Já, ekki ætla ég að dæma þýðinguna, þótti textinn bara nokkuð lipur. Eitt stakk í stúf, það voru nokkuð margar innsláttarvillur í bókinni.