Örvitinn

Veitingastaðurinn Hótel Geysi

Kíktum á veitingastaðinn á Hótel Geysi á föstudagskvöldið. Vorum mætt á Geysi um átta, vorum á ættarmóti í húsi rétt hjá hótelinu og kíktum á veitingastaðinn korter fyrir níu.

Kolla og Inga María fengu sér grillaða samloku, Áróra Ósk og Guðrún amma hennar fengu sér sjávarréttasúpu með karrý, rjóma, hörpuskel og rækjum (1100.-). Pöntuðu það sem aðalrétt og fengu vel útlátinn skamt. Auk þess var borið fullt af afar góðu brauði á borðið.

Ég og Gyða fengum okkur tvo rétti. Í forrétt pöntuðum við Risotto með villisveppum, rjóma og parmesan (1250.-) og dádýrscarpaccio með parmesan, salati og basilolía (1450.-). Nokkuð góðir forréttir, risotto var fínt, mér finnst þó að sleppa megi rjómanum en sveppirnir voru góðir, auk þess var súkkíní í því sem kom skemmtilega út, þarf að prófa það einhvern tíman. Ég var ekkert rosalega hrifinn af carpaccioinu en Gyðu fannst það gott. Það hefði mátt vera margfalt meira af parmesan osti með því að mínu mati.

Í aðalrétt pantaði Gyða steiktan lambahryggvöðva með villisveppir og púrtvínssósu (2980.-). Sósan var rosalega góð og kjötið fínt. Ég fékk mér léttsteiktar svartfuglsbringur með fíkjum (2590.-) og fannt það alveg stórkostlega gott, gjörsamlega frábært. Sósan og meðlætið passaði einstaklega vel við svartfuglsbringurnar, gratíneraðar kartöflur voru góðar og fíkjurnar rosalega fínar með kjötinu.

Með þessu drukkum við Casillero del Diablo Cabernet Sauvignon (3200.-), alveg prýðilegt rauðvín.

Þjónustan var góð, fengum tvisvar ábót á brauðið og allt var vel útlátið. Stelpurnar borðuðu vel en Inga María þó aðallega brauðið sem var borið á borð og franskar, lét samlokuna sína eiginlega alveg eiga sig.

Reikningurinn hljóðaðið upp á fimmtán þúsund krónur, sem er ósköp venjulegt verð held ég barasta fyrir fjóra fullorðna (með Áróru) og tvö börn. Þess má geta að ég tók myndavélina ekki með og á því ekki neinar myndir af þessum kvöldverði, algjört klúður :-)

veitingahús
Athugasemdir

Erna - 11/09/05 18:05 #

Gaurinn sem á staðinn er hins vegar þekktur fyrir að níðast á starfsfólki sínu, þræla út ungum stúlkum sem þekkja ekki hvíldarrétt sinn og svo framvegis.
Af þeirri ástæðu sniðgeng ég alltaf þetta batterí þarna á Geysi....

Matti - 11/09/05 18:09 #

Uss, ljótt að heyra það. Á þetta við um allt batteríið? Gyða hefur heyrt það sama um sjoppuna.

Erna - 12/09/05 15:36 #

Mjamm, alla vegana þekki ég stúlkur sem hafa unnið á Hótel Geysi sem hafa lent í þessu....