Örvitinn

Ég blaðra stundum

Á einhvern hátt tókst mér að fara á fætur klukkan hálf sjö í morgun. Kannski hafði það eitthvað með það að gera að Gyða lét mig ekki í friði því hefði ég fengið að ráða væri ég enn sofandi. Samt fór ég að sofa um ellefu í gær, annað kvöldið í röð. Fór í ræktina og hamaðist á æfingatæki í þrjátíu mínútur. Það var ágætt. Skemmti mér við að horfa (en ekki hlusta) á morgunsjónvarpið - mikið brosir þessi stúlka fallega - ætli ég sé að missa af einhverju útaf því ég heyri ekki hvað hún segir? Ég efast um það.

Ég gleymdi gleraugunum heima. Annað skipti í þessari viku. Þetta er nákvæmlega það sem ég spáði að myndi gerast, ef maður þarf bara að vera með gleraugun á nefinu þegar maður er í tölvunni eða að lesa, en ekki öðrum stundum, er alveg pottþétt að maður gleymir þeim þegar maður fer milli staða. Jæja, ég þrauka daginn.

Þarf að versla jólagjafir á eftir, bæði fyrir mig og aðra. Þarf líka að klára matarinnkaupin. Keypti ferskt rauðkál í gærkvöldi þannig að það er komið í hús ásamt dýrinu. Nú þarf bara að redda smotteríi eins og sætum kartöflum, rjóma, venjulegum kartöflum og þessháttar.

Eldaði lambarisotto (mynd) í gærkvöldi úr afgöngum af lambalæri sem við elduðum á sunnudag. Ég er að spá í að setja inn uppskriftina ásamt uppskrift af kalkúnanúðlum sem ég eldaði um daginnn. Kalkúnanúðlur verða örugglega á boðstólnum á mínu heimili milli jóla og nýárs þegar dýrið verður endanlega klárað. Held það sé kominn tími á undirflokk fyrir uppskriftir.

Svosem um nóg að skrifa þessa dagana en ég hef verið andlaus og ekki nennt því.

Á leiðinni í ræktina í morgun hlustaði ég á Bylgjuna og heyrði umfjöllun um dauðarefsingar, ég held þetta hafi verið endurflutt frá því í gærkvöldi. Hvað um það, inn hringdi gomma af fólki sem var fylgjandi dauðarefsingum! Þegar einn hringdi inn sem var á móti fékk hann þessa klassísku spurningu: "hvað ef eitthvað hræðilegt myndi henda þig, værir þú á sömu skoðun"? Ekki myndi ég vilja búa í samfélagi þar sem refsingar væru ákvarðaðar af þeim sem fyrir skaðanum yrðu. Hvað er að gerast í þessu samfélagi?

Kjaradómur ákvarðar laun helstu ráðamanna og hækkar laun þeirra úr öllu valdi. Fyrir nokkrum árum, þegar dot com bólan var að þenjast út var ég með svipuð laun, ef ekki nokkuð hærri, en flestir þingmenn. Í dag er ég með nokkurn vegin sömu laun og þá - en þingmenn eru komnir langt langt fram úr mér (og kollegum mínum). Hvað er að gerast í þessu samfélagi?
Mikið óskaplega var sorglegt að horfa á þingmenn í Kastljósi í gær, hvað er flókið við að segja "ég mun hafa samband við launadeild og fara fram á að fá þessa hækkun ekki - ef það verður ekki hægt mun ég gefa hækkunina til góðgerðarmála"? Í staðin fer ekki framhjá neinum að þetta lið getur ekki hugsað sér að hafna sporslunum, talar um að það þurfi að skoða forsendur kjaradóms og fleira í þá vegu. Hvað er að ske?

dagbók pólitík
Athugasemdir

Jon Magnus - 22/12/05 13:28 #

Thad er faranlegt thegar folk segist medfylgjandi daudarefsingum, that veit bara ekkert hvad thad er ad tala um. T.d. i BNA er buid ad sykna yfir 100 sem voru a daudadeildum thar.

Thad gerist nefnilega ad saklaust folk fari i fangelsi og thegar rikid er buid ad drepa thad tha er vodalega erfitt ad taka svoleidis til baka. Fyrir utan ad that er sidferdislega ut i hott ad leyfa daudarefsingar.

Matti - 22/12/05 16:26 #

Ég vil alltaf spyrja fólk sem mærir dauðarefsingar (eða sem spyr bjánalegra spurninga, eins og útvarpsmenn í morgun/gær) hvort það væri tilbúið í að fórna einhverjum sér nákomnum, jafnvel sjálfum sér, í slíka refsingu.

Það er nefnilega óhjákvæmilegt að saklaust er tekið af lífi þegar dauðarefsingar eru við líði.

En það er tæknilegur galli, jafnvel þó hægt væri að tryggja að einungis þeir seku væri teknir af lífi er þetta villimennska. Samt er ég ekki á móti refsingum, sumt fólk á að loka inni ævilangt - en ekki mun ég samþykkja að það sé drepið.

Samt er það svo skrítið að ég get samþykkt að við ákveðnar aðstæður sé endi bundinn á líf fólks, t.d. ef það er nauðsynlegt til að koma í veg fyrir að þeir myrði aðra - en það er önnur umræða.

En þetta er a.m.k. ekki einfalt mál. Fyrir utan það að dauðarefsingar eru bull, það er einfalt.

Börkur - 23/12/05 10:16 #

Jæja. Það væri kannski ráð að breyta hvernig þessum aftökum er háttað og sjá hvort það skili ekki einhverju aftur til samfélagsins. Þegar menn eru drepnir af ríkinu eru liðin 10-15 ár frá því að glæpurinn var framinn. Engin man eftir fréttunum lengur. Held það væri nær að drepa menn innan 2 mán frá dómi, og gera það í auglýsingahléum í mánudags-fótboltanum. Í stað þess að sprauta menn með sótthreinsuðum nálum, mætti kannski taka aftur upp aldagamlar aðferðir sem eru þaulreyndar? "Í kvöld brennum við barnaníðin. Þessi brenna er í boði Grill'em kveikjuvökva!"

en, nei. kannski ekki. það eru víst að koma jól.

Matti - 23/12/05 10:51 #

lol - það er rétt, þetta er ekki í anda jólanna.

Annars yrði vafalítið hægt að gera vinsæla raunveruleikasjónvarpsþætti úr þessu.