Örvitinn

Gvuð

Það fer eitthvað í taugarnar á Þorkeli að Eva skrifi "gvuð" með vaffi. Ég hef sjálfur skrifað þetta svona í ansi mörg ár, byrjaði á þessu þegar ég rökræddi stundum við trúmenn á strikinu í gamla daga.

Sagði í athugasemd hjá Evu:

Ég byrjaði að skrifa gvuð með vaffi fyrir löngu vegna þess að hugtakið Guð/guð/gvuð/allah/jehóva/etc. er fullkomlega óskiljanlegt.

Það er, að mínu hógværa mati, hlægilegt þegar fólk talar um "Guð" eins og það sé að ræða eitthvað ákveðið skiljanlegt fyrirbæri, eitthvað raunverulegt með eiginleika sem hægt er að sundurgreina.

Það vita allir sem hafa rætt við fleiri en einn trúmann að fyrirbærin eru jafn mörg og ólík og fólkið sem trúir á þau.

Það að vaffið fari í taugarnar á trúmönnum er bara bónus. Þessir sömu trúmenn hika ekki við að beita orðræðu sem fer í mínar taugar og skammast sín ekkert fyrir það. Sem dæmi gæti ég nefnt stöðugt hjal um að trúleysi sé trú og jafnvel trúarbrögð.

Ég skrifa gvuð vegna þess að Guð er gagnslaust hugtak.

efahyggja kristni
Athugasemdir

Matti - 22/01/06 11:39 #

Ég ætla að halda til haga annarri athugasemd sem ég setti við sömu færslu. Er að spá í að vinna pistil úr þessu.

Trúleysi er lífsskoðun á sama hátt og trú er lífsskoðun. Eins og Eva bendir á í nýrri færslu gerir þetta tal um trúleysistrú hugtakið trú gagnslaust. Af hverju vilja menn ekki hafa hugtak til að aðgreinan trú frá öðrum lífsskoðunum? Er þetta eitthvað afturhvarf til afstæðishyggju, allar skoðanir skulu vera jafn réttar?

Ég er alltaf dálítið hissa að sjá þetta tal um að þeir sem séu sannfærðir um að Gvuð sé ekki til séu alveg jafn miklir trúmenn og þeir sem trúa á Gvuðinn.

Tökum þrjú dæmi til að skoða þessa fullyrðingu. "Þeir sem halda því fram að menn hafi farið til tunglsins eru alveg jafn miklir samsærissinnar og þeir sem afneita því" eða "þeir sem halda því fram að helförin sé staðreynd eru alveg jafn miklir samsærissinnar og þeir sem afneita því", "þeir sem trúa ekki á stjörnuspeki eru jafn miklir trúmenn og þeir sem trúa á stjörnuspeki". Flestum finnst okkur þetta fáránlegar fullyrðingar, a.m.k. þau okkar sem eru þokkalega skynsamleg. En af hverju breytist viðmiðið þegar sett er fram enn ein óskynsamleg, illa rökstudd og ósennileg kenning, þ.e.a.s. um tilvist Gvuðs. Af hverju er þá jafngilt að neita því og trúa á það? Menn geta sagt að það sé vegna þess að hvorugt sé hægt að sanna, en að mínu mati er það undansláttur. Það er ekki hægt að sanna tilvistarleysi. Ég get ekki sannað að jólasveinninn sé ekki til, það sama gildir um tannálfinn, ósýnilega fljúgandi bleika fíla og svo framvegis. Reyndar eru til undantekningar, því hægt er að sýna fram á það með rökfræði að tilvist sumra fyrirbæra er ómöguleg, t.d. ef skilgreining þeirra inniheldur þverstæðu.

Af hverju gildir eitthvað annað viðmið um gvuðstrú?

Ég held það sé einhver viðkvæmni, það má ekki stuða trúmenn og með því að vera ákafur trúleysingi sem setur fram skoðanir sínar ertu um leið kominn í þann leiðinlega flokk manna sem lætur annað fólk ekki í friði. Fólk á annað hvort að vera trúað eða sinnulaust. Allt annað er fordæmt. Ég á erfitt með að túlka afstöðu Gulla öðruvísi en sem ákall um sinnuleysi.

Ekki skil ég af hverju Gulli eyðir svona miklu púðri í að horfa á orðið "bónus", þetta er sett fram í léttum gír. Ekki finnst mér Gulli heldur tala af mikilli skynsemi eins og Þorkell heldur fram, því ég hef séð trúmenn halda þessu nákvæmlega sama fram ótal sinnum og ekki þótt það skynsamlegt hingað til.

Það er ekki hægt að sanna að Gvuð sé ekki til, ekki frekar en hægt er að sanna að tannálfurinn sé það. Mikil er trú tannálfatrúleysingjanna!

Mér þætti gaman að sjá Þorkel og Gulla greina á milli þessara dæma sem ég taldi upp fyrir ofan og útskýra fyrir mér af hverju sá sem afneitar Gvuðsfyrirbærinu er öfgafyllri en þeir sem t.d. afneita stjörnuspeki.