Örvitinn

Sunnudagskrá

StelpurnarÉg er nýkominn inn aftur, rölti með stelpunum í Mjódd þar sem við leigðum tvær spólur (les: DVD diska) og keyptum bland í poka. Þetta var ágætur göngutúr, lentum reyndar í smá hríð á heimleiðinni en það var bara hressandi. Nú sitja þær niðri og horfa, ég kominn upp í stofu á miðhæðinni og glápi á fótbolta. Andskotarnir í Chelsea voru að komast yfir, óþolandi þessi gangur á þessu liði. Vona bara að mínir menn vinni ManU á eftir.

Gyða er í vinnunni í dag að ganga frá lausum endum, þarf að klára allt sitt áður en hún fer í aðgerð og skiptir um starf (innan spítalans).

Við horfðum á nýjasta Lost þáttinn í gærkvöldi, miðað við það efni sem maður er kominn með aðgang að skil ég ekki til hvers maður er áskrifandi að sjónvarpsstöðum. Á eftir að glápa á fyrstu þætti í nýjustu seríunni af 24 og svo er ég með Prison Break sem einhverjir eru að lofa.

Nýji sófinn í sjónvarpsstofunni kemur vel út en hefur þó einn galla, hann er rafmagnaður. Það bregst eiginlega ekki að ég fæ rafstuð þegar ég snerti eitthvað eftir að ég stend upp úr sófanum. Greinilegt að efnið hefur þessi áhrif, spurning hvort það er eitthvað hægt að gera við þessu?

Ég geri ráð fyrir að sunnudagsmaturinn verði hjá okkur í kvöld. Ég er nú varla að nenna að gera nokkurn skapaðan hlut. Spurning um að hafa bara rachlette á borðum og snæða pylsur og osta.

dagbók
Athugasemdir

Jón Magnús - 23/01/06 13:19 #

Er ekki málið að jarðtengja sófann bara?