Örvitinn

Ekki kraftur í mér í morgun

Ég var snemma á ferðinni í morgun, það verður ekki af mér tekið, var mættur til Jónu Dóru þegar klukkuna vantaði tuttugu mínútur í sjö. En þetta er það eina jákvæða við frammistöðu mína í morgun. Ég var nefnilega alveg óskaplega slappur í ræktinni.

Byrjaði á hlaupabretti og ætlaði að skokka en var þreyttur í fótunum, sérstaklega kálfunum. Rölti þá upp ímyndaða brekku í staðin en gafst upp á því eftir fáeinar mínútur og fór að lyfta lóðum. Tók bekkpressu og tvær bakæfingar áður en ég fór upp á teygjusvæði og gerði sárafáar magaæfingar.

Þegar ég rölti niður í sturtu var ég ekki einu sinni sveittur. Svona á ekki að stunda líkamsrækt.

heilsa