Örvitinn

Útúrsnúningar í DV

Hversu langt getur fjölmiðilinn gengið í að snúa út úr orðum annarra? Í DV í gær (pdf skjal) er þessi klausa á síðu tvö.

klása úr DV um klásu úr Blaðinu

Ég las þennan viðhorfspistil Andrésar og þar er hann að gagnrýna þau verðlaun sem Fréttablaðið fékk. Vissulega er hægt að túlka það sem fýlu og öfund út í samkeppnisaðila, en hvergi í pistlinum minnist hann á Morgunblaðið. Hann nefnir að honum finnist það "orka nokkuð tvímælis að veita blaðamannaverðlaun fyrir bók", og fjallar þar um verðlaunin sem Gerður Kristný fékk fyrir bók sína um Thelmu og svo segir hann; "hneyksli kvöldsins var hins vegar að Sigríði Dögg Auðundsdóttur, blaðamanni á Fréttablaðinu, skuli hafa verið veitt verðlaun fyrir rannsóknarblaðamennsku" auk þess "ekki er minna hneyksli að verðlauna Sigríði Dögg fyrir að semja fréttir upp úr þýfi, stolnum tölvupósti.." Andrés er semsagt að tala um tiltekin verðlaun, en það vill svo til að þau voru veitt blaðamanni Fréttablaðsins. Þær greinar, sem birtust í Fréttablaðinu eru fúskið sem hann fjallar um.

Blaðamenn DV eru að reyna að vera sniðugir, gott og vel, en lesendur DV geta varla túlkað þetta öðruvísi en að Andrés hafi verið að gagnrýna verðlaunin sem Morgunblaðið fékk eða verðlaunin í heild sem hann var ekki að gera. Er það tilviljun að þessi túlkun komi í DV þegar DV og Fréttablaðið eru hluti af sama batteríi?

Hvaða gagn er í fjölmiðlum? Væri ekki meira vit í að blaðamenn og ritstjórar byrjuðu að blogga - á þeim vettvangi getur maður vissulega leyft sér ýmislegt, t.d. að vera sniðugur og að snúa út úr því sem aðrir segja.

Annars er náttúrulega frekar kjánalegt að eltast við útúrsnúninga í DV, ætli það séu ekki ótal dæmi um slíkt á hverjum degi í því blaði og öðrum?

fjölmiðlar
Athugasemdir

Bragi - 22/02/06 14:29 #

Hét hún ekki Thelma?

Matti - 22/02/06 14:30 #

Heitir það víst enn, ég laga þetta í textanum :-)

Elísu - 24/02/06 12:36 #

Ekki vera svona mikill kjáni. Þetta er allt rétt. Þetta eru blaðamannaverðlaun!

Matti - 24/02/06 12:41 #

Ætli ég sé ekki bara kjáni þegar allt kemur til alls. Einhvernvegin líður bara betur ef ég sætti mig við þá staðreynd :-)