Örvitinn

Morgunblaðið : "Chelsea vinnur ekki tvöfalt"

chelseavinnurekkitvofalt.gif Ég fletti í gegnum Morgunblaðið meðan rakarinn snoðaði mig rétt áðan. Í Mogganum var fátt áhugavert þannig að ég var fljótlega kominn að íþróttakálfinum. Fletti strax að umfjölluninni um bikarleik helgarinnar, alltaf gaman að lesa meira um þann skemmtilega leik. En fjandakornið, Mogginn sló mig strax útaf laginu. Liverpool vann nefnilega ekki þennan leik, það var Chelsea sem tapaði honum. Chelsea vinnur ekki tvöfalt var fyrirsögn blaðsins.

Það er gjörsamlega óþolandi að lesa svona íþróttafréttir. Það vita allir sem sáu þennan leik að sigur Liverpool var fullkomlega verðskuldaður og hefði eiginlega átt að vera stærri. Það vita líka allir sem sáu leikinn að væl Chelsea manna um ósanngjarna dóma er fullkomið kjaftæði. Þetta var brot á John Terry þegar aukaspyrnan var dæmd sem Liverpool skoraði úr. Sjálfur varð hann æfur nokkrum mínútum áður þegar Crouch braut á honum á nákvæmlega þennan hátt. Það var líka brot þegar John Terry skoraði, hann setti hendurnar á axlir varnarmannsins.

Næst þegar Liverpool vinnur Chelsea á sannfærandi hátt í bikarleik mælist ég til að Morgunblaðið prófi aðrar fyrirsagnir, t.d. Liverpool hafði betur, Liverpool komnir í úrslit eða jafnvel Sannfærandi sigur Liverpool.

boltinn fjölmiðlar
Athugasemdir

Kristján Atli - 24/04/06 23:26 #

Nákvæmlega! Ég hugsaði þetta nákvæmlega sama þegar ég sá þessa fyrirsögn!

Af hverju mátti ekki bara standa "García kom Liverpool í úrslit!" eins og stóð fyrir hinn leikinn, "Harewood kom West Ham í úrslit!"

Middlesbrough eru í undanúrslitum Evrópukeppni Félagsliða og samt stóð ekki á fyrirsögn þeirra, "Middlesbrough vinnur ekki tvöfalt!"

Þetta er kannski smámunasemi í okkur en samt óþolandi þegar blöðin haga sér svona.

Matti - 25/04/06 10:09 #

Já eflaust er þetta smámunasemi, en þetta er ekki heldur í fyrsta skipti sem ég sé svona frétt.

En það er svosem ekki eins og ég sé andvaka útaf þessu :-)

Björgvin - 25/04/06 11:00 #

Djöfull er þetta pirrandi. Það er mér enn í fersku minni fyrirsögnin í Fréttablaðinu í fyrra þegar Liverpool sló út Chelsea í undanúrslitum Meistaradeildarinnar: "Eiður Smári ekki í úrslit Meistaradeildarinnar". Hvers vegna var t.d. ekki sagt: "Liverpool í úrslit Meistaradeildarinnar". Come on, þótt að blessaður maðurinn sé Íslendingur þá er hann ekki mikilvægari en allt Liverpool-liðið, sérstaklega í ljósi þess að meirihluti Íslendinga styður Liverpool. Það er a.m.k. nokkuð ljóst að greinarhöfundarnir eru ekki Liverpool stuðningsmenn.

Matti - 25/04/06 11:22 #

Björgin, akkúrat, mig rámaði í þá fyrirsögn en mundi ekki í hvaða blaði hún var.

DV í gær var lítið skárra en Morgunblaðið.

baraeinnbikarfyrirchealse.jpg