Örvitinn

Meistaradeildin

Ég skellti mér í reykjarstybbuna á Players og horfði á úrslitaleik Meistaradeildar í kvöld. Ég get ekki sagt að ég hafi stressað mig mikið á úrslitum leiksins, mér er ekkert svo illa við Arsenal en tel þó að Barcelona hafi verið besta lið Evrópu þetta árið. Hélt eiginlega með Barcelona aðallega vegna þess að ég vildi ekki að annað Breskt lið tæki dolluna :-)

Hvað um það, leikurinn byrjaði vel og Arsenal voru sterkari ef eitthvað, Henry hefði átt að skora strax í byrjun leiks en fór illa með dauðafæri. Eftir tuttugu mínútur varð svo vendipunktur leiksins þegar Lehman braut klaufalega á Eto og var vikið af velli. Ég hefði viljað sjá markið standa og Lehman ennþá inná, bara til að hafa leikinn skemmtilegan. Arsenal lagði ekki árar í bát og skoruðu eftir einn svakalegasta leikaraskap sem ég hef séð í Meistaradeildinni í ár, þegar aukaspyrnan var fiskuð. En markið var flott og ég sá fyrir mér að Arsenal myndu halda þessu forskoti.

En í seinni hálfleik þyngdist pressan og Barcelona náði að setja tvö í rigningunni í París. Sanngjarn sigur að mínu mati en hetjuleg barátta hjá Arsenal. Henry hefði getað sett annað mark í seinni háflleik og ég er hræddur um að Arsenal hefði haldið 2-0 forystu til enda ef hann hefði klárað færið þegar hann komst einn í gegn.

En ég er semsagt sáttur við þessi úrslit þó ég hafi ekkert á móti Arsenal (ólíkt Manchester United og Chelsea). Samt, Wenger var eitthvað að gera lítið úr því þegar Liverpool vann Meistaradeildina í fyrra þannig að þetta var kannski bara gott á hann.

boltinn
Athugasemdir

-DJ- - 28/05/06 22:55 #

(Vona að mér fyrirgefist að skrá athugasemd við svo gamla færslu)

Nei, þetta var nú ekki gott á eðalmennið Wenger. Ég sem Arsenal maður get einnig sagt að ekki er mér sérstaklega illa við Liverpool, alls ekki neitt í samanburði við þau 2 félög sem þú nefnir.

Ég var annars á þessum leik. Við sátum Barca megin og fögnuðum mjög takmarkað þegar Arsenal komst yfir af skiljanlegum ástæðum. Svo var maður faðmaður í bak og fyrir þegar Barca jafnaði og komst yfir. Það var ekkert sérstakt get ég sagt þér.

Matti - 28/05/06 23:36 #

Ekki öfunda ég þig af því að sitja "vitlausu" megin á svona leik. Það er svo stór hluti af stemmingunni að öskra eins og brjálaður maður þegar það á við.

Fyrstu viðbrögð Wenger eftir leikinn voru ekki til fyrirmyndar og Henry tók þessu frekar ódrengilega en Wenger jóx í áliti nú um daginn þegar hann fordæmdi leikaraskapinn þegar aukaspyrnan sem Arsenal skoraði úr var fiskuð.