Örvitinn

Firewall

Gláptum á þessa nýjustu mynd Harrison Ford í bústað á Sunnudagskvöld. Ég skrifa ekki mjög oft um kvikmyndir, þær þurfa a.m.k. að vera eftirminnilegar til að ég nenni að gera það. Þessi mynd er eftirminnileg fyrir það hve hrikalega léleg og heimskuleg hún er. Sérstaklega ef maður hefur unnið í banka!

Myndin gengur semsagt út á það Harrison Ford er sérfræðingur í öryggismálum hjá litlum (á bandarískum mælikvarða) banka. Glæpamenn taka upp á því að ræna fjölskyldu hans og neyða hann til að stela fyrir þá fullt af peningum.

Harrison Ford er fæddur árið 1942 og er því 64 ára á þessu ári. Í myndinni á hann tvö börn, unglingsdóttur og son sem er kannski tíu ára. Það er það fyrsta sem klikkar við þessa mynd, maður er bara alls ekki að kaupa þetta. Af hverju létu þau hann ekki vera afa þeirra?

Allt sem tengist bankamálum er svo alveg hrikalega ósannfærandi að það hálfa væri nóg. Við vorum fjögur að horfa á myndina og þar af þrjú sem höfum starfað í banka og hvað eftir annað komu atriði þar sem hópurinn kváði. Þetta er náttúrulega vandamál með allar myndir sem fjalla um eitthvað sem fólk þekkir, bíómyndir ganga yfirleitt alltaf út á að matreiða efni ofan í fólk og þá skiptir nákvæmni ekkert mjög miklu máli.

En æi, það var bara svo margt kjánalegt í myndinni. Aðalhetjan tekur skjáskot með gemsa til að geta bakfært allt draslið! Hann býr til scanner úr faxtæki og ipod sem hann notar svo til að dumpa lista af reikningum af terminal. Hann getur millifært milljarða milli reikninga í rauntíma án nokkurra vandræða, jafnvel af reikningum í öðrum bönkum og svo framvegis og framvegis. Glæpamennirnir þurfa hann til að komast í bankann en hafa þegar náð fullri stjórn á tölvunni hans. Þrátt fyrir að þeir hafi fulla stjórn á tölvunni hans þarf hann að setja geisladisk með vírus í vélina og senda með tölvupósti á alla starfsmenn!

Ég mæli semsagt ekki með þessari mynd nema fyrir starfsmenn tölvudeilda bankanna. Þeir ættu að redda sér henni og horfa yfir bjór og snakki á föstudagskvöldi.

Uppfært
Ég gleymdi alveg einu lykilatriði. Ég hef séð sýnt úr myndinni og þar sá ég lykilatriði myndarinnar! Í sýnishorni sést þegar aðalhetjan kúgar mannræningjana_ með því að tæma reikningana þeirra. Afskaplega furðulegt að sýna svona lykilfléttu myndarinnar í sýnishorni.

kvikmyndir
Athugasemdir

Björn Friðgeir - 06/06/06 08:55 #

Það er nú ýmislegt hægt í aldrinum... ég var fjögra þegar pabbi var 64ra, og fröken Flockhart er nú ekki enn komin úr barneign :)

Matti - 06/06/06 08:58 #

Jújú, það er ýmislegt hægt. En ég var að horfa á myndina með tengdaforeldrum mínum, sem eru einmitt á svipuðum aldri og Ford og þetta var bara ekkert að virka fyrir okkur :-)

Erna - 06/06/06 11:48 #

Ég held að Ford sjálfur eigi börn á þessum aldri.. Vinkona mínk kennir börnunum hans a.m.k. og þau eru ekki komin í High-school!

Matti - 06/06/06 13:05 #

Hvað er þetta eiginlega með einkalíf stórstjarnanna, ég reyndi að googla börnin hans en fann ekkert um aldur þeirra - skandall :-)

Ég sá á vappi mínu að konan sem leikur eiginkonu hans í myndinni Firewall er rúmlega fertug, líkt og Flockhart, núverandi unnusta hans.

Erna - 06/06/06 16:36 #

Hehe.. Kannski er myndin bara raunsönn lýsing á lífi Mr. Ford....

Nanna - 06/06/06 23:19 #

Yngri börnin hans Fords eru fædd 1987 og 1991 samkvæmt IMDB.

Þess má geta að í mínu umhverfi mundi þetta nú ekki þykja neitt óeðlilegt. Yngsta barn afabróður míns er ári yngra en strákurinn minn og er fætt á 119 ára afmælisdegi afa síns; tengdafaðir systur minnar varð pabbi 75 ára.

Matti - 07/06/06 15:14 #

Sama hvað þið segið, þetta passaði illa í bíómyndinni :-)